Eva Marín Hlynsdóttir (f. 1975) lauk BA-prófi í stjórnmálafræði 2001, þremur árum síðar lauk hún MA-prófi í stjórnmálafræði og MPA-prófi árið 2011.

Eva Marín Hlynsdóttir (f. 1975) lauk BA-prófi í stjórnmálafræði 2001, þremur árum síðar lauk hún MA-prófi í stjórnmálafræði og MPA-prófi árið 2011. Hún hefur starfað við kennslu á framhalds- og háskólastigi frá 2006 og er lektor í opinberri stjórnsýslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Eva Marín er gift Sveini Hannesi Sveinssyni og eiga þau tvö börn, Silju Rut og Svein Jökul .

• Eva Marín Hlynsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í stjórnmálafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist The Icelandic Mayor: A comparative Analysis of Political and Administrative Leadership Roles at the Icelandic Local Government Level (Íslenskir bæjar- og sveitarstjórar: Samanburðargreining á hlutverkum þeirra í stjórnmálum og stjórnsýslu).

Leiðbeinandi var dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Markmið rannsóknarinnar var að greina hlutverk bæjar- og sveitarstjóra á Íslandi út frá samskiptum þeirra við sveitarstjórn, stjórnsýslu, íbúa sveitarfélagsins og ytri aðila. Rannsóknin var unnin á kjörtímabilinu 2010-2014, gerð var skoðanakönnun meðal allra íslenskra bæjar- og sveitarstjóra og oddvita í smærri sveitarfélögum, jafnframt voru tekin viðtöl við bæjar- og sveitarstjóra í sveitarfélögum með yfir 500 íbúa. Sett var fram flokkun, á einföldum kvarða, á íslenskum bæjar- og sveitarstjórum sem réðst af því hvort bæjar- og sveitarstjórar telja að hlutverk þeirra eigi fyrst og fremst að ráðast af pólitísku hlutleysi eða ekki.

Niðurstöðurnar benda til að íbúafjöldi sveitarfélags ásamt kyni bæjar- og sveitarstjóra skipti verulegu máli þegar kemur að því að skýra röðun þeirra á kvarðanum. Þannig eru faglegir bæjar- og sveitarstjórar í litlum sveitarfélögum með lítið stjórnsýslulegt bolmagn oftar á pólitískt hlutlausum enda kvarðans. Einnig er mikill meirihluti faglegra kvenbæjar- og sveitarstjóra staðsettur á pólitískt hlutlausum enda ássins. Þá er greinanlegur munur á milli þess hvort pólitískir bæjar- og sveitarstjórar leggja meiri áherslu á stjórnsýslulegt hlutverk sitt eða pólitískt hlutverk.

Að lokum sýna niðurstöður að íslenskir bæjar- og sveitarstjórar leika almennt stórt samfélagslegt hlutverk. Mikilvægi þeirra sem leiðtoga bæði innan samfélagsins og út á við er mun meira en almennt þekkist í Norður-Evrópu og er á margan hátt líkara því sem gerist í sveitarfélagakerfum sunnar í álfunni.