Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Margir skynsamir hagfræðingar hafa bent á að hefðbundin hagstjórn ríkja brengli öll skilaboð á markaði með tilraunum sínum að stýra vöxtum og peningamagni.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Margir skynsamir hagfræðingar hafa bent á að hefðbundin hagstjórn ríkja brengli öll skilaboð á markaði með tilraunum sínum að stýra vöxtum og peningamagni. Af hverju ættu að gilda önnur lögmál um verð á peningum en verð á vöru?

Ekki vil ég gera fólki bilt við en kannski sýpur einhver hveljur þegar ég minnist á Verðlagseftirlit ríkisins. Hún hafði það hlutverk að segja til um verð í landinu, eða var það verðlagsnefnd? Það er ómögulegt að henda reiður á allri þeirri vitleysu sem fram fór á haftatímanum. Hvort heldur sem var þá hafði hið opinbera ákvörðunarvald um verð á vöru í landinu.

Í dag teljum við okkur vera orðin svo upplýst að stofnanir og starfshættir sem þessir myndu aldrei sjást. Engu að síður spretta fram á sjónarsviðið bæði stjórnmálamenn og aðrir sem gera sig gildandi í umræðunni sem telja það ótækt að verslun hækki verð sín að næturlagi. Upplýsingin hefur greinilega ekki náð til allra.

Rétt verð getur ekki verið annað en það sem einn einstaklingur er tilbúinn að greiða fyrir vöru eða þjónustu og annar tilbúinn að selja á. Er þá ekki eðlilegt að þeir sem kjósa að versla seint á kvöldin eða um nætur greiði örlítið meira fyrir vörur sínar þar sem kostnaður við að halda úti verslun á þeim tíma er meiri? Sum sæti í óperunni eru dýrari en önnur og mig grunar að þeir stjórnmálamenn sem æsa sig hvað mest yfir verðhækkunum á kvöldin vermi bossana sína í dýrari sætunum.