Pálína fæddist í Vestra-Geldingaholti í Gnjúpverjahreppi 14. febrúar 1922, dóttir Kjartans Ólafssonar bónda og Guðrúnar Elísabetar Jónsdóttur húsmóður. Hún lést á Elliheimilinu Grund 21. júlí 2016.

Pálína var elst þriggja systra en hinar tvær eru tvíburarnir Margrét Kjartansdóttir og Guðríður Ólöf Kjartansdóttir fæddar 14. ágúst 1926. Margrét á eina dóttur og Guðríður Ólöf er kvænt Jóni Andréssyni og eiga þau fimm börn, 17 barnabörn og 11 barnabarnabörn.

Pálína stundaði nám við Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1948-1949 og var aðstoðarkennari við skólann 1949-1955. Þremur árum síðar bætti hún þar við sig námi og útskrifaðist sem húsmæðrakennari vorið 1960. Í framhaldi af því fór hún til Danmerkur og kynnti sér starf náttúrlækningaheimilisins í Skodsborg fyrir norðan Kaupmannahöfn og aflaði sér reynslu af rekstri slíks heimilis. Síðar fór hún þangað til náms einn vetur og sótti einnig námskeið bæði í Svíþjóð og í Árósum. Pálína varð ráðskona á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í ársbyrjun 1961 og starfaði þar til ársloka 1993.

Hún var frumkvöðull í að kynna grænmetisfæði fyrir Íslendingum og mat úr baunum, korni og ávöxtum og að kenna þeim að skynsamlegt mataræði og hreyfing sé lykill að góðri heilsu. Hún hafði sýnikennslu víða í gerð matarrétta náttúrulækningastefnunnar og gaf út tvær matreiðslubækur: Matreiðslubók NLFÍ árið 1968 með ágripi af næringarfræði og Matreiðslubókin hennar Pálínu 1981. Forseti Íslands veitti henni hina íslensku Fálkaorðu árið 1990 fyrir störf að manneldismálum.

Jarðarför Pálínu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 28. júlí 2016, klukkan 15.

Þá er langri ævi lokið hjá frænku minni, Pálínu Ragnheiði, eða Pöllu, eins við fjölskyldan kölluðum hana. Palla frænka var ungleg eftir aldri, nett og spengileg og mikill fagurkeri.

Eftir að hafa leitað sér lækninga hjá Jónasi Kristjánssyni, fengið hjálp og hrifist af kenningum hans um tengsl mataræðis og heilsu var henni boðin staða sem matráðskona og yfirmaður eldhússins á heilsuhæli NLFÍ, Hveragerði. Gegndi hún því í rúm þrjátíu ár hjá góðum húsbændum og með frábæru samstarfsfólki sem henni var mjög annt um. Palla stjórnaði eldhúsinu með þá hugsjón að næringarríkur og góður matur væri á borðum í hreinu og fallegu umhverfi. Gestir staðarins leituðu til hennar og fengu ráðleggingar um rétta mataræðið samkvæmt þörfum þeirra. Gladdi það hana mikið þegar gestir komust til heilsu, jafnvel eftir að hún hafði látið af störfum kom fólk til hennar og þakkaði henni fyrir hjálpina.

Helsta áhugamálið fyrir utan ferðalög var spilamennskan, brids. Þar kynntist hún fólki sem hún átti margar ánægjustundir með. Okkur í fjölskyldunni sýndi hún bæði mikinn áhuga og umhyggju alla tíð. Á 90 ára afmælinu var Palla flott á því, bauð okkur; systrum og systrabörnunum, í mat á Hótel Sögu . Þessi kvöldstund var okkur öllum afar minnisstæð og skemmtileg í alla staði.

Palla frænka var alltaf mjög sjálfstæð, sá um sig sjálf og keyrði bíl jafnvel eftir mjaðmaraðgerðina. Var það því mikið áfall að veikjast og verða öðrum háð, konan sem vildi ráða sér sjálf.

Fjölskyldan vill þakka Guðrúnu hjúkrunardeildarstjóra og öðru starfsfólki á deild V-2 á elliheimilinu Grund, alúð og hlýju við Pöllu frænku og okkur fjölskyldu hennar.

Elísabet Haraldsdóttir.

Palla, eins og hún var kölluð af sínum nánustu, var órjúfanlegur hluti af fjölskyldunni og fastur punktur í tilverunni. Hún var glæsileg kona, spengileg, eiginlega tignarleg, og ótrúlega ungleg, alltaf óaðfinnanlega klædd, með lagt hár og lakkaðar neglur. Hún hafði fágaðan smekk og bar heimilið hennar það með sér. Gullfalleg handavinna liggur eftir hana frá yngri árum og saumaði hún m.a. skírnarkjól sem flest börn fjölskyldunnar hafa verið skírð í.

Hún var einstaklega vandvirk og nákvæm og kastaði aldrei höndunum til neins. Allar ákvarðanir voru teknar af mikilli yfirvegun.

Palla kynntist mörgum af sínum bestu vinum í gegnum starf sitt á Heilsustofnun NLFÍ. Þar átti hún sín bestu ár. Það var hennar gæfa og lukka að fá þau tækifæri sem hún fékk þar. Þegar við systrabörnin vorum lítil bauð hún okkur nokkrum sinnum, oftast tveimur í einu, að koma til sín í Hveragerði og dvelja hjá sér í nokkra daga. Þá var sundlaugin á staðnum óspart notuð en einnig fór hún gjarnan með okkur út í haga að gefa hestunum brauð.

Palla var félagslynd og naut þess að fara í boð og fá fólk í heimsókn til sín og oft voru spilin ekki langt undan. Hún spilaði brids reglulega alveg fram að þeim tíma er hún veiktist.

Hún fylgdist vel með fólkinu sínu og hringdi oft í okkur systrabörnin og kvartaði ef hún hafði ekki heyrt í okkur lengi. Þegar maður kom í heimsókn þýddi ekkert að ætla sér að rétt líta við. Hún dró alltaf fram veitingar og þegar best lét fylgdi með líkjör í staupi og plata var sett á fóninn. Stundum voru myndaalbúm dregin fram en þar voru ófáar myndir úr utanlandsferðum hennar sem hún naut vel með góðum vinum.

Níræðisafmælið hennar er okkur fjölskyldunni eftirminnilegt en þá bauð hún okkur nánasta fólkinu sínu út að borða og þá dugði ekkert nema það besta og varð Grillið fyrir valinu þar sem hún heimskonan sjálf hafði komið á sínum yngri árum.

Það verður skarð sem hún skilur eftir sig í boðum fjölskyldunnar og ekki síst jólaboðunum þar sem hún hélt uppi spilamennskunni. Blessuð sé minning hennar.

Guðný Jónsdóttir.

Um langt árabil stjórnaði Pálína Kjartansdóttir eldhúsi og matsal Heilsustofnunarinnar í Hveragerði. Hún var rösk og ákveðin og gerði stífar kröfur um hreinlæti og góða umgengni. Hún naut þess að hafa gott og dugandi starfsfólk, sem margt hélt mikilli tryggð við stofnunina. Úr eldhúsi Pálínu kom fjölbreyttur og hollur matur, sem án efa hefur bætt heilsu gesta.

Okkur Pálínu varð vel til vina þegar ég hóf störf sem framkvæmdastjóri. Þá var starfsumhverfi hennar lítið og þröngt eldhús, illa búið tækjum. Fljótlega var tekið í notkun nýtt eldhús og matsalur, sem gjörbreytti allri vinnuaðstöðu og umhverfi gesta. Þar var Pálína í essinu sínu og naut breytinganna. Hún var drottning í ríki sínu.

Oft ræddum við það sem betur mátti fara í rekstrinum. Hún var ráðagóð og bar hag Heilsustofnunar mjög fyrir brjósti. Segja má, að hún hafi verið góð ímynd stofnunarinnar; orkumikil og ungleg langt fram eftir aldri. Hún var ævinlega vönd að virðingu sinni, fallega klædd og vel snyrt. Það gat verið erfitt að geta sér til um aldur hennar.

Það gladdi hana mjög þegar ákveðið var, að Baltasar málaði af henni mynd, sem nú hangir í ríki hennar, matsalnum. Ákveðin á svip fylgist hún með þegnum sínum og gestum. Það var henni líka gleðiefni, þegar tókst að semja við Hagkaup um að gefa út matreiðslubók með uppskriftum hennar.

Eftir að hún lauk störfum hittumst við alloft. Þá var hugur hennar lifandi og mikið rætt um stofnunina, sem okkur þótti báðum vænt um. Hún var alltaf þeirrar skoðunar, að heilsusamlegt mataræði gæti dregið verulega úr hvers konar sjúkdómum og hafði mikla andúð á verksmiðjuframleiddum mat og skyndibita. Sjálf lagði hún mikið af mörkum til að bæta mataræði þjóðarinnar. Pálína Kjartansdóttir var merk kona og verður lengi minnst.

Árni Gunnarsson.