Víkverji er að reyna, eins og svo oft áður, að taka sig á. Hefur hann í því skyni byrjað að hlaupa úti allt að þrisvar í viku, með hjálp þar til gerðs „Apps“ í símanum sínum.

Víkverji er að reyna, eins og svo oft áður, að taka sig á. Hefur hann í því skyni byrjað að hlaupa úti allt að þrisvar í viku, með hjálp þar til gerðs „Apps“ í símanum sínum. Appið lofar því að með notkun þess geti algjör byrjandi hlaupið fimm kílómetra eftir átta vikur. Víkverji á nú bara tvær vikur eftir, en hlaupin eru farin að taka nokkuð á.

Forritið er annars alveg skemmtilega „bandarískt“ ef svo má að orði komast. Víkverja brá til dæmis í brún í fyrsta hlaupinu sínu, þegar allt í einu gall kvenmannsrödd í símanum sem sagði á ensku að Víkverji væri að standa sig frábærlega! Víkverji var þarna varla kominn út úr búningsklefanum og strax farinn að fá jákvæða hvatningu. Svipuð hvatningaróp heyrðust þegar Víkverji var hálfnaður með hlaupið og síðan rétt áður en síðasta sprettinum lauk.

Víkverji sér reyndar mjög lítinn mun á ytra byrði sínu þrátt fyrir hlaupin. Líklega er það eitthvað tengt því að hann hefur varla breytt mataræði sínu svo neinu nemi, því sama og skilaði honum í netta yfirþyngd. Engu að síður finnur Víkverji mun á sér við ólíklegustu aðstæður.

Hann ákvað til dæmis að taka þátt í vinnustaðafótboltanum á ný, eftir fulllanga fjarveru. Víkverji komst þar að því, sér til mikillar ánægju, að hann gat hlaupið lengur og betur en áður, sem hafði tiltölulega jákvæð áhrif á frammistöðu hans í boltanum. Hlaupin voru greinilega að skila sér í auknu þoli.

Víkverji var hins vegar ekki lengi í paradís. Um miðbik boltans kom hár skallabolti inn í teiginn sem Víkverji hugðist skalla í burtu. Markvörðurinn hugðist kýla hann í burtu. Þeim viðskiptum lauk með því að Víkverji fékk hné í rifbeinin og sportar nú vænum marbletti á síðunni. Hann getur greinilega ekki hlaupið undan öllu.