Mikilvægt er fyrir einstaklinga og fyrirtæki að huga vel að því hvernig þeir nota samfélagsmiðla.

Á degi hverjum birta einstaklingar og fyrirtæki ljósmyndir og annað myndefni á samfélagsmiðlum. Þessir miðlar, s.s. Facebook og Twitter, njóta aukinna vinsælda í markaðslegum tilgangi á kostnað hefðbundinnar markaðssetningar og er nú svo komið að stór hluti markaðssetningar fer fram með þessum hætti. Slík notkun á samfélagsmiðlum er almennt án endurgjalds en við stofnun notendareiknings og ákvörðun notendastillinga þarf að undirgangast ítarlega skilmála sem lýsa því réttarsambandi sem stofnast á milli notenda og samfélagsmiðlanna. Þótt það hafi ekki verið kannað ítarlega af hálfu þess sem þetta ritar, þá verður því haldið fram að notendur samfélagsmiðla lesi almennt ekki umrædda skilmála áður en þeir eru samþykktir. Í þessari grein verður fjallað um sérstakt ákvæði í notendaskilmálum tiltekinna samfélagsmiðla.

Almennt er hver sá sem tekur ljósmynd lögformlegur eigandi hennar þar sem hún telst hugverk í skilningi íslenskra laga. Í 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 segir að höfundur að listaverki eigi eignarrétt á því með þeim takmörkunum sem lögin greina frá. Í 2. mgr. 1. gr. segir að til lista teljist m.a. ljósmyndalist. Í frumvarpi til höfundalaganna er hugtakið ljósmyndalist skýrt þannig að um sé að ræða ljósmyndir sem hafi listrænt gildi. Fram kemur í frumvarpinu að meginhluti ljósmynda geti ekki talist ljósmyndalist heldur falli undir sérreglu 49. gr. höfundalaga sem veitir slíku hugverki jafnframt tiltekna réttarvernd. Af þessu er ljóst að gera verður greinarmun á tvenns konar ljósmyndum – annars vegar listaverkum og hins vegar öðrum ljósmyndum. Vandasamt getur verið að ákveða hvort ljósmynd fullnægi kröfum um listrænt gildi. Við mat á listrænu gildi er horft til myndefnis, sjónarhorns, dýptar, skerpu og lýsingar svo að dæmi séu tekin. Þessi áskilnaður um listrænt gildi getur haft þýðingu þegar brotið er á höfundaréttinum.

Þótt ljósmyndari sé samkvæmt framansögðu eigandi höfundaréttar að ljósmynd, þá er ljóst að hann getur ráðstafað höfundarétti sínum. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. höfundalaga er heimilt að framselja höfundarétt að hluta eða öllu leyti. Slíkt framsal nær þó ekki til sæmdarréttar sem er óframseljanlegur, sbr. 4. gr. laganna. Af þessu leiðir að unnt er að framselja höfundaréttinn að allmestu leyti, en aldrei að öllu leyti. Þannig getur höfundur framselt hluta höfundaréttar, s.s. rétt til höfundaréttargreiðslna, en eigandi höfundaréttarins má aldrei halda því fram að hann hafi sjálfur skapað hugverkið þar sem slíkt myndi brjóta gegn sæmdarrétti höfundarins.

Að þessu sögðu er áhugavert að lesa notendaskilmála ýmissa samfélagsmiðla, s.s. Facebook og Twitter. Almenna reglan í skilmálum þessara aðila er sú að notendur samfélagsmiðlanna, höfundarnir í þessu samhengi, eru eigendur höfundaréttar að efni sem þeir birta á samfélagsmiðlunum. Aftur á móti veita notendurnir samfélagsmiðlunum leyfi til þess að nýta allt efni sem þar er birt. Um er að ræða víðtækan rétt eigenda samfélagsmiðlanna til að nýta þetta efni, en einn samfélagsmiðill vekur þó sérstaka athygli í þessu sambandi. Í gr. 2.4 í skilmálum Facebook er að finna ákvæði sem gengur lengra samanborið við aðra miðla, en þar segir: „When you publish content or information using the Public setting, it means that you are allowing everyone, including people off of Facebook, to access and use that information, and to associate it with you (i.e., your name and profile picture).“ Hér er gengið lengra en almennt tíðkast á samfélagsmiðlum. Samkvæmt þessu ákvæði veita skilmálarnir ekki einungis Facebook leyfi til að nýta efni sem notandi birtir á Facebook heldur er öðrum notendum Facebook, svo og þeim aðilum sem ekki nota Facebook, veitt heimild til að fá aðgang að birtu efni og nýta það efni.

Samkvæmt framansögðu er mikilvægt fyrir einstaklinga og fyrirtæki að huga vel að því hvernig þeir nota samfélagsmiðla og þá hvaða stillingar þeir nota þegar höfundaréttarvarið efni er birt á samfélagsmiðlum. Erfitt getur verið fyrir einstakling eða fyrirtæki að koma í veg fyrir notkun annarra á höfundaréttarvörðu efni þegar það liggur fyrir að einstaklingurinn eða fyrirtækið hefur undirgengist notendaskilmála sem mæla með svo afdráttarlausum hætti fyrir um rétt annarra til að nýta efni sem birt er á samfélagsmiðlum.