Hvalfjarðargöng Umferð um göngin hefur vaxið stöðugt undanfarið.
Hvalfjarðargöng Umferð um göngin hefur vaxið stöðugt undanfarið. — Morgunblaðið/Sverrir
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Umferðin um Hvalfjarðargöng í júní síðastliðnum var sú mesta í júnímánuði frá því að göngin voru opnuð fyrir umferð þann 11. júlí 1998. Alls fóru 239.464 ökutæki um göngin í júní sl.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Umferðin um Hvalfjarðargöng í júní síðastliðnum var sú mesta í júnímánuði frá því að göngin voru opnuð fyrir umferð þann 11. júlí 1998. Alls fóru 239.464 ökutæki um göngin í júní sl. og er það 6,08% aukning miðað við sama mánuð 2015.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar ehf., sagði að umferð um göngin hefði aukist mikið það sem af er árinu og hlutfallslega enn meira í öðrum mánuðum en júní. Þannig var umferðaraukningin 27% í maí miðað við sama mánuð 2015. Fyrstu sex mánuði þessa árs er umferðaraukningin 17,3% miðað við sömu mánuði á síðasta ári. Umferðin í apríl var nærri 17% meiri en sama mánuð í fyrra, 26% meiri í mars og nærri 15% meiri í febrúar. Gylfi sagði að það sem af er júlí hefði verið mikil umferð. Í júlí 2015 var slegið nýtt met og hann var stærsti umferðarmánuður sögunnar í göngunum. Gylfi sló á að aukningin í júlí gæti orðið 2-3% miðað við metmánuðinn í fyrra. Heildaraukningin yfir árið stefnir í tveggja stafa tölu. En er von á einhverjum töfum vegna umferðarþungans?

Jöfn og dreifð umferð

„Nei, umferðin greinist mjög vel. Það er minna álag um helgar en oft áður en mikil umferð í miðri viku, það er lítill munur á dögum yfirleitt,“ sagði Gylfi. Með sömu þróun eru nokkur ár í að göngin hætti að anna umferðinni. Samkvæmt reglum er miðað við 8.000 bíla umferð að meðaltali á sólarhring. Annasömustu daga ársins fer umferðin upp fyrir það viðmið. „Þetta hefur samt gengið mjög vel því þetta dreifist svona á alla daga,“ sagði Gylfi.

Vegslár við veglyklaakreinarnar við gjaldskýlið voru teknar aftur í notkun í maí sl. Þær opnast sjálfkrafa þegar bíl með gildan veglykil er ekið þar um. Gylfi sagði nokkuð um að erlendir ökumenn áttuðu sig ekki á gjaldskyldunni eða hvernig kerfið virkar. Starfsmaður hefur verið til taks til að rukka þá sem stoppa við slárnar og hleypa þeim áfram. Hægfara aukning er í sölu lykla í göngin, að sögn Gylfa.

Þess má geta að umferð um Hvalfjarðargöng sló nýtt met á árinu 2015 en fyrra metið var frá árinu 2007. Alls fóru 2.048.032 ökutæki undir Hvalfjörð á öllu árinu, það er að segja ökutæki sem greitt var veggjald fyrir. Ökutækin árið 2007 voru um 11.800 færri en í fyrra eða 2.036.222.