Finsch er önnur stærsta demantanáman í Suður-Afríku og á fjörutíu ára líftíma hennar hafa yfir 130 milljón karöt verið grafin úr bergi námunnar.
Finsch er önnur stærsta demantanáman í Suður-Afríku og á fjörutíu ára líftíma hennar hafa yfir 130 milljón karöt verið grafin úr bergi námunnar. — Petra Diamonds/Philip Mostert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir James Wilson námafréttaritara Petra Diamonds hefur aukið framleiðslu sína á undanförnum árum með ærnum tilkostnaði en nú sér fyrirtækið fram á hagstæða vinda á gimsteinamarkaði.

Hraði framleiðslunnar hjá Petra Diamonds hefur aukist og þýðir það að takast mun að ná vinnslumarkmiðum fyrr en búist hafði verið við. Þetta hafði námafyrirtækið að segja til að fullvissa fjárfesta um fjárhagslega stöðu rekstrarins en heildarskuldir hafa aukist á milli ára og demantamarkaðinum gengið hægt að ná sér aftur á strik.

Petra Diamonds fellur í hóp meðalstórra félaga á breska hlutabréfamarkaðinum og rekur sex demantanámur í Suður-Afríku og Tansaníu. Fyrirtækið ýjaði að því að vænta mætti nýrrar stefnu í rekstrinum haldi hann áfram að vaxa í samræmi við væntingar á komandi þremur árum, og að þá verði hætt að leitast við að hámarka framleiðslumagnið.

Kaupa námur af De Beers

Petra er í hópi smærri námafyrirtækja sem hafa fundið smugu á markaði þar sem De Beers réð áður ríkjum. De Beers er rótgróinn demantaframleiðandi í eigu Anglo American. Mikill hluti vaxtarins í framleiðslu Petra hefur orðið í námum sem fyrirtækið keypti af De Beers.

Í janúar lauk Petra við nýjasta samninginn við De Beers með þátttöku í samningi um kaup á eignum í Kimberley, sem var miðpunktur demantaæðisins í Suður-Afríku á áttunda áratug 19. aldar.

Demantamarkaðurinn var undir töluverðum þrýstingi árið 2015 vegna aukinnar framleiðslu, dræmrar eftirspurnar hjá neytendum og tregðu hjá dreifingaraðilum og demantaslípurum – milliliðunum sem tengja saman námafyrirtækin og smásala – til að halda áfram að fjármagna demantakaup.

Virðið lækkaði um helming

Til að bregðast við þessu hefur De Beers, sem er enn leiðandi á heimsmarkaði mælt í markaðsvirði árlegrar demantaframleiðslu, dregið úr framleiðslunni niður fyrir 28 milljón karöt.

Hlutabréf Petra lækkuðu um meira en helming árið 2015 en hafa jafnað sig að hluta vegna teikna um að demantamarkaðurinn sé að ná jafnvægi. Í tilkynningunni sem fyrirtækið sendi mörkuðum í vikunni, við lok rektrarárs félagsins, kvaðst Petra „gæta varkárni“ um þróunina á mörkuðum og miðast áætlanir við að dementaverð haldist óbreytt næstu 12 mánuði.

Petra hefur aukið framleiðsluna eftir Kimberly-kaupin í janúar. Jókst framleiðslumagnið um 16% á tímabilinu frá byrjun árs til 30. júní og von er á 25-30% aukningu yfir allt þetta ár.

Stefna á 5 milljón karöt

Petra hefur lengi stefnt að því að ná framleiðslunni upp í 5 milljón karöt árið 2019 en segir nú að það markmið muni nást árið 2018 og framleiðslan verði komin upp í 5,3 milljónir karata ári síðar.

Hraðari vöxtur Petra fram til 2019, að fjárfestingunni í Kimberley meðtalinni, mun þýða að fjárfestingarútgjöld verða meiri en áætlað hafði verið. En Petra segir að útgjöld vegna fjárfestinga muni engu að síður lækka úr 294 milljónum dala á síðasta ári niður í 218 miljónir árið 2017, og að þetta verði síðasta árið sem verulegum fjárhæðum verður varið í að stækka reksturinn.

Petra hefur fjármagnað stækkunarverkefni sín að fullu og öll eru þau á áætlun. Greinendur Numis segja að fréttirnar frá Petra séu „skref í jákvæða átt“ með hliðsjón af batnandi demantaverði.