Kerlingarfjöll Unnið er að uppbyggingu hálendismiðstöðvar með nútímalega gistiaðstöðu á staðnum.
Kerlingarfjöll Unnið er að uppbyggingu hálendismiðstöðvar með nútímalega gistiaðstöðu á staðnum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Stefnt er að því að ljúka umhverfismati vegna uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum næsta vor, að sögn Páls Gíslasonar, framkvæmdastjóra Fannborgar ehf.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Stefnt er að því að ljúka umhverfismati vegna uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum næsta vor, að sögn Páls Gíslasonar, framkvæmdastjóra Fannborgar ehf. Skipulagsstofnun ákvað að hefja mætti fyrsta áfanga án umhverfismats en að heildaruppbyggingin skyldi háð mati. Landvernd kærði ákvörðunina til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem ákvað að áhrif framkvæmdarinnar allrar þyrftu að fara í umhverfismat.

Gera á miklar endurbætur. Færa á gistingu úr smáhýsum og stórum svefnsölum með svefnpokaplássum í byggingu með tveggja manna herbergi, sem flest eru með sér salerni og sturtu. Nýbyggingin verður einfaldari og ódýrari í rekstri og þægilegri fyrir gesti, að sögn Páls. Gestir þurfa meðal annars ekki lengur að fara út til allra sinna þarfa, upphitun nýtist betur og ræsting verður auðveldari.

Þungamiðjan í rekstrinum í Kerlingarfjöllum er sala á gistingu. Nú er þar pláss fyrir um 140 næturgesti í húsum og er allt yfirfullt um þessar mundir. Fyrir um 15 árum var pláss fyrir um 160 næturgesti. Húsnæði hefur verið endurskipulagt til að mæta kröfum tímans og við það hefur gistirýmum fækkað. Búið er að byggja nýja aðstöðu með 20 tveggja manna herbergi og eru áform um áframhaldandi uppbyggingu á staðnum, að sögn Páls.

„Nú erum við á fullu við að klára umhverfismatið, sem við vorum byrjuð á, og þegar því er lokið þá höldum við áfram.“

Skipulagður hefur verið byggingarreitur sem getur rúmað allt að 120 tveggja manna herbergi auk annarrar aðstöðu. Gert er ráð fyrir gistiplássi fyrir allt að 280-300 manns, að sögn Páls. Hann sagði að spurn eftir svefnpokaplássi og gistingu í stórum rýmum væri að minnka. Krafan um sér herbergi vex aftur á móti. Áfram verður boðið upp á svefnpokapláss og tjaldstæði í Kerlingarfjöllum.

„Við sem ferðamannaþjóð þurfum að mæta þörfum og óskum viðskiptavinarins,“ sagði Páll. „Við getum ekki bara troðið ferðamönnum saman í svefnsali eins og þótti í lagi fyrir 50-70 árum. Það er komið árið 2016.“

Þróunin kallar á viðbrögð

Páll benti á að fjöldi ferðamanna til landsins hefði rúmlega þrefaldast á aðeins sex árum. Þeir voru innan við 500.000 á ári allt til 2010 en nú stefnir í að þeir verði um 1.500.000 á þessu ári. Hann sagði að það þyrfti að mæta þeirri þróun m.a. með uppbyggingu vega og aðstöðu á hálendinu. „Ef við í Kerlingarfjöllum hefðum fylgt þróuninni eftir þá ættu að vera langt yfir 300 gistipláss hjá okkur nú,“ sagði Páll.

Ástand Kjalvegar brennur mjög á þeim í Kerlingarfjöllum. Páll sagði að þau teldu það vera bæði náttúruvænt og sjálfbært að lagfæra veginn líkt og helstu umferðaræðar á hálendinu.

„Það er sama hver kemur þarna upp eftir. Fólk spyr hvernig standi á því að ekki sé búið að laga vegina. Okkur finnst það vera fráleitt hjá Landvernd að kæra til að knýja fram umhverfismat á lagfæringu á vegi sem er niðurgrafinn og algjörlega ómögulegur,“ sagði Páll. Hann sagði að Kjalvegur hefði verið þokkalega góður í sumar vegna þurrviðris. En um leið og fari að rigna muni vegurinn vaðast upp í djúpum holum.