Þegar ásinn Þór lagði upp í leið sína að Geirröðargörðum lenti hann, ásamt Loka, í miklum háska er hann reyndi að þvera ána Vimur. Út í henni miðri tóku þeir eftir því að vatnið tók að vaxa og vaxa.

Þegar ásinn Þór lagði upp í leið sína að Geirröðargörðum lenti hann, ásamt Loka, í miklum háska er hann reyndi að þvera ána Vimur. Út í henni miðri tóku þeir eftir því að vatnið tók að vaxa og vaxa. Var þeim þá litið ofar í ána og sáu þar Gjálp Geirröðardóttur þar sem hún kastaði af sér vatni. Fleygði Þór í hana steini og mælti hin fleygu orð: „að ósi skal á stemma.“

Ólíkt nútímamerkingu orðatiltækisins vísaði hugtakið ós til árupptaka. Þór vissi sem var eftir viðskipti sín við Gjálp að best getur reynst að stöðva eða stífla á við upptök hennar, áður en allt fer úr böndum og straumurinn verður of þungur til að við hann verði ráðið.

Innherja var hugsað til fyrrgreindrar senu sem rakin er í Skáldskaparmálum þegar fréttir bárust af því fyrr í vikunni að merki offjárfestingar væru komin fram á bílaleigumarkaði. Sú virðist raunin nú og bendir það til þess að bílaleigur hafi í mörgum tilvikum ofmetið þörfina fyrir þá mikilvægu þjónustu sem þær veita bæði erlendum ferðamönnum og Íslendingum í einhverjum tilvikum einnig.

Það er ekki óeðlilegt að slíkt ofmat geti átt sér stað, rétt eins og það vanmat sem vart hefur orðið við hjá stjórnvöldum og ferðaþjónustuaðilum ýmsum þegar litið er til spádóma um fjölgun ferðamanna hérlendis á síðustu árum. Þar hafa villtustu spár einatt ekki gengið eftir og hefur þurft að bæta þónokkru í til að þær fengju staðist.

Fréttirnar af bílaleigunum kalla á varúð og fela um leið í sér hvatningu til þeirra sem starfa að ferðaþjónustu til að ígrunda fjárfestingar sínar vel. Það er minna mál að vinda ofan af offjárfestingu í rekstri bílaleiga en þegar kemur að uppbyggingu gistirýma, svo dæmi sé tekið.