— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Þórisson jonth@mbl.is Fyrir nær þrjátíu og fimm árum hóf Svava Johansen störf í versluninni Sautján við Laugaveg. Um þessar mundir er fyrirtækið fjörutíu ára og eftir opnun enn einnar verslunarinnar næstkomandi haust mun það reka 16 verslanir í Kringlunni, Smáralind og miðborg Reykjavíkur.

„Íslendingar gera kröfur til þeirrar vöru sem þeir kaupa. Þeir gera kröfur um gæði, snið, endingu og verð. Íslendingar eru smekklegir og hafa áhuga á að líta vel út. Ég ferðast mikið til landa eins og Frakklands og Ítalíu. Landa sem eru þekkt fyrir áhrif á tísku og útlit. Þar skortir á að almenningur beri þess merki. Íslendingar bera hins vegar af þegar kemur að útliti og klæðaburði. Þeir eru mjög vel klæddir. Hafa vit á merkjum, efnum, sniðum og gæðum,“ segir Svava Johansen kaupmaður sem ávallt er kennd við verslunina Sautján, þar sem kaupmannsferill hennar hófst fyrir 35 árum. Fyrirtækið er 40 ára um þessar mundir. „Í október eru 40 ár frá því þetta hófst allt og það verður stórt afmæli.

Hleyptum inn í hollum

Fyrirtækið var stofnað árið 1976 af fyrrverandi sambýlismanni Svövu, Ásgeiri Bolla Kristinssyni kaupmanni. „Ég kem inn í fyrirtækið 1981. Þá var ein verslun í rekstri. Það voru skemmtilegir uppgangstímar í samfélaginu á þessum árum. Ég var í Verslunarskólanum, sótti tíma fyrir hádegi og vann svo í versluninni eftir hádegið. Þetta var ótrúlega góður tími þótt maður væri stundum að vinna á nóttunni við að stilla út og undibúa búðina fyrir næsta dag og mæta svo í skólann morguninn eftir.“ Hún segir verslunina hafa verið feykivinsæla og vart haft undan að fylla hillur og slár. „Við þurftum stundum að hleypa inn í hollum, segir Svava. Á þessum árum var verslunin á Laugavegi 51.

Í aðdraganda opnunar Kringlunnar tryggði fyrirtækið sér aðstöðu þar. „Við höfðum trú á Kringlunni og festum okkur þar tvö pláss fyrir Sautján og vorum þar með frá upphafi. Verslanirnar hafa tekið sínum breytingum í takt við tíðarandann en við höfum verið í Kringlunni frá því hún var opnuð.“

Þarf að stýra blöndu verslana

Móðurfélag verslananna er NTC og það hefur einmitt skrifstofur sínar í Kringlunni. „Ég hef setið lengi í stjórn Kringlunnar og ég veit að til að verslunarsvæði sé aðlaðandi fyrir fólk þarf að hafa yfirstjórn á úrvali verslana, veitingastaða og þjónustufyrirtækja,“ segir Svava. Hún segir þetta skorta alveg í miðbænum og segist hafa áhyggjur af Laugaveginum. „Mér finnst of mörg hótel og of margar lundabúðir í miðbænum. Ég hef áhyggjur af að þessar verslanir muni ekki allar ganga og hættan er sú að úrval verslana verði of einsleitt. Það er gróðaglampi í augum húseigenda en þeir verða að horfa lengra fram á við,“ segir Svava. Hún fagnar uppgangi í ferðaþjónustunni en, „þetta getur verið skjótur ávinningur og varað stutt og ég tel viturlegra að horfa til lengri tíma. Ef góður leigjandi er búinn að vera lengi er sennilega betra að halda sig við hann heldur en að ýta honum út og taka inn einhvern annan þó að hann sé tilbúinn að borga meira en er svo kannski farinn eftir tvö ár.“

Hún segir þetta eiga sérstaklega við um miðbæinn. Hann sé mjög mikilvægur og þyrfti meiri yfirstjórn. „Miðborgarsamtökin þyrftu að hafa meira vægi. Borgaryfirvöld hafa svo sem ekki verið sérlega hjálpleg verslunareigendum í þessum efnum. Ákveða bara að loka götum þegar það hentar nánast ekki nokkrum atvinnurekanda. Í upphafi, fyrir nokkrum árum, stóðu lokanirnar í tvær vikur, svo mánuð og nú er lokunin orðin fimm mánuðir. Veðrið hefur reyndar leikið við okkur og því hefur gangandi umferð verið mikil á lokuðu svæðunum í sumar. En á rigningardögum dettur hún alveg niður. Það eru enn glæsilegar verslanir eftir við Laugaveginn en það er hættulegt þegar borgaryfirvöld leggja svona mikla áherslu á að sníða aðgengi að verslunargötunni að túristum eða hjólafólki,“ segir Svava.

Hún segist skilja sjónarmið borgarinnar og markmiðið með lokunum en það þurfi að vera meira jafnvægi í þessu. „Ef ekki eru verslanir þá er ekki fólk. Ef svona gata á bara að byggjast upp af veitingastöðum þá hefur það minna aðdráttarafl og á öðrum tímum sólarhrings. Það er hluti af borgarupplifuninni að ganga um verslunargötu og skoða sambland af verslunum með tísku, húsgögn, gjafavöru eða list. Þessu þarf að blanda öllu vel. Nú er staðan sú að rótgrónar verslanir eru að yfirgefa þetta svæði. Lokanirnar hjálpa ekki í þeirri stöðu. „Hún segir að þetta ætti að vera sveigjanlegra og taka mið af veðri. „Það er ekki til neins að hafa götur lokaðar í roki og rigningu – það kemur enginn þá,“ segir Svava.

Risi á tískumarkaði

Velta ársins í fyrra var um tveir milljarðar króna og Svava segir stefna í að veltan verði 10% meiri nú í ár. Með haustinu verða verslanir á vegum NTC 16 talsins. Níu í Kringlunni, þrjár í miðbænum og fjórar í Smáralind. Hjá fyrirtækinu vinna nærri 140 manns. „Það hefur gengið vel að fá fólk til starfa og við erum svo heppin að kjarninn í starfsmannahópnum hefur verið með okkur í mörg ár. Við leggjum áherslu á að starfsfólkið sé sjálfstætt í sínum störfum. Verslunar- og rekstrarstjórarnir reka til dæmis verslanirnar eins og sína eigin. Þeir fara utan, kaupa inn vörur, stilla þeim út, verðleggja, ráða fólk til starfa. Svo veitum við stuðning héðan af skrifstofunni.“

Afturhvarf til upphafsins

Svava segir að mikilvægt sé að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og tækifærum. „Ég opnaði nýlega með systur minni, Kristínu, skóverslun fyrir börn og konur á Klapparstíg 44, Fló & Fransí. Það er svolítið afturhvarf til upphafsins. Ég byrjaði minn feril á Laugaveginum. Þar hófst dagurinn á því að þrífa gluggana, halda öllu hreinu, setja út blóm og þar fram eftir götunum. Taka svo á móti viðskiptavinum allan daginn. Ég hreinlega elska að vera á gólfinu og selja. Þar slær mitt hjarta.“ Svava segist oft standa vaktina í verslunum sínum. „Mér finnst alltaf jafnsérkennilegt að fólki finnist skrýtið að sjá mig þar. Hvar ætti ég annars staðar að vera? Þetta er mín ástríða. En því miður kemur þó fyrir að maður ílengist um of á skrifstofunni vegna mikillar vinnu.“

Með kaupmannsblóð í æðum

Svava vinnur nú með manni sínum og meðeiganda, Birni Sveinbjörnssyni. Hann er framkvæmdastjóri og fjármálastjóri NTC og hún forstjóri og stjórnarformaður. Hún segir samstarfið ganga vel. „Við vinnum á svo ólíkum stöðum í fyrirtækinu. Ég er virk að finna ný verkefni, í innkaupum og sölu og hann sér um skrifstofuna, framkvæmdir nýrra verslana og þess háttar.“

Svava segist hafa ákveðið ung að verða kaupmaður. „Þegar ég var lítil stelpa hafði ég ákveðið að verða kaupmaður. Áhugamálin voru viðskipti og tíska og í þessu starfi fléttast það tvennt svo sannarlega saman. Faðir minn, Rolf Johansen, var kaupmaður og ég er því með kaupmannsblóð í æðum. Það er gaman að því að á þessu afmælisári starfseminnar ætli tvítugur sonur minn og Ásgeirs Bolla Kristinssonar, Ásgeir Frank, að stíga sín fyrstu spor í kaupmennskunni þegar hann og æskuvinur hans Einar Sveinn, hefja rekstur nýrrar herrafataverslunar í Kringlunni.“

Svava segir mikilvægt að hafa skýra sýn á markmið sín og leiðir að þeim. „Okkar módel er að geta raðað saman í verslanirnar dýrari og ódýrari merkjum. Stundum eru dýrari vörurnar hreinlega of dýrar og þá aukum við vægi þeirra ódýrari. Svo getur þetta snúist við. Þetta er lykillinn að okkar velgengni.“ Hún segir að nú sé mjög hagstætt að kaupa dýrari merki og þá hafi vægi þeirra aukist í verslununum. Paul Smith, Malene Birger, Day by Birger & Mikkelsen og Donna Karan. Allt stór merki sem núna sé hægt að bjóða í úrvali vegna niðurfellingar tolla um síðastliðin áramót af fatnaði og skóm, auk styrkingar krónunnar. „Annað sem við leggjum áherslu á er að við lögum vöruúrvalið meira að breytilegum þörfum í umhverfinu. Galleri 17 er til dæmis hugsuð þannig að við erum skólavörubúð á haustin, fermingarbúð í lok vetrar, jakkafatabúð um jól og kringum útskriftir. Þetta höfum við gert frá upphafi, lagað okkur að taktinum í samfélaginu. Svona vil ég hafa þetta. Ég vil geta dansað við Íslendinga. Það er miklu erfiðara þegar bara eitt merki er í boði, frá einum framleiðanda. Við höfum reynt það,“ segir Svava.

Erfiðast að eiga við leiguna

Svava segir að mesta áskorunin í verslunarrekstri þessa dagana sé leiguverð. „Leigan hefur verið að hækka nánast alls staðar. Bæði í miðbænum og verslunarmiðstöðvum. Það verð sem heyrist er þannig að það getur ekki verið grundvöllur til verslunarrekstrar,“ segir hún. „Það hefur auðvitað alltaf verið áskorun að geta boðið sambærilegt verð á vörum og erlendis. Íslensk verslun á í samkeppni við verslun í öðrum löndum, bæði vegna ferðalaga Íslendinga og svo auðvitað í gegnum netverslanir.“ Hún segir að niðurfellingu tolla af skóm og fötum um áramótin síðustu hafi verið mjög mikivægt skref. „Það er ábyrgð okkar kaupmanna að láta þá lækkun skila sér til viðskiptavina. Það eru einhver dæmi þess reyndar að erlendir birgjar hafi ætlað að nýta tækifærið og lækka afslátt sem samið hafði verið um og ætlað að hækka verð til íslenskra verslana en okkur hefur sem betur fer tekist að vinda ofan af því.“

Svava segir þau versla mest við Danmörku, Bretland, Frakkland og Ítalíu. Hún segir styrkingu krónunnar hafa haft mikil áhrif á innkaupsverðið og gert þeim kleift að lækka útsöluverðið umtalsvert. „Gengisþróun breska pundsins hefur haft mikil áhrif á verð breskra vara hérlendis. Við erum að taka við kvenvörum núna frá breska merkinu Paul Smith sem við pöntuðum fyrir sex mánuðum og erum að bjóða í fyrsta sinn, auk herrafata sem við höfum boðið um árabil. Á þeim tíma hefur gengisþróunin verið þannig að hægt er að lækka útsöluverðið um 11% frá því sem við áætluðum við pöntun. Þetta bætist svo við þá verðlækkun sem varð vegna tollalækkunarinnar.“ Hún segir tollabreytingarnar og þróun á gengi gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni sjást meðal annars í því að salan í dýrari merkjum hafi aukist til muna. „Áhrif kaupmáttaraukningar eru greinileg en verðlækkun vegna gengismála og tollabreytinga hefur svo sannarlega haft áhrif líka.“

Tíundi partur eigin framleiðsla

NTC stundar eigin framleiðslu á fatnaði og er sala hans um 10% af veltu fyrirtækisins. „Við framleiðum okkar eigin merki, Moss Reykjavik, Mao Reykjavik, LUX og Privat Label. Þessar vörur eru framleiddar víða. Sumt er framleitt á Íslandi, annað í Tyrklandi og Kína. Allt sem framleitt er undir merkjum Moss er framleitt í Frakklandi. Íslenska framleiðslu erum við að auka, ekki síst vegna þess að fjöldi frábærra hönnuða og vel menntaðra klæðskera hefur aukist mjög. Við höfum verið í samstarfi við listamann og hönnuð, bloggara og nú nýjan hönnuð með haustinu, um línur fyrir merkin. Svo er í skoðun að selja út vörur úr vörulínu okkar til annarra landa. Við framleiðum þá vörurnar og seljum út. Erlendir aðilar myndu dreifa og selja til verslana í þessum löndum.“ Svava segir að þetta sé skemmtilegt verkefni sem byggt yrði hægt og rólega upp.

Útrásin heillar ekki

Svava segir að fyrirtækið stefni á frekari vöxt. „Það eru góðir tímar núna fyrir verslunarrekstur og margt spennandi fram undan sem kemur síðar í ljós. En ég get ekki hugsað mér að reka verslun utan Íslands. Við erum íslenskt fyrirtæki sem starfar á Íslandi. Það vantaði ekki að á útrásarárum Íslendinga væru bankar stöðugt að bjóða mér að kaupa verslanir og verslanakeðjur í öðrum löndum og lána fyrir því nánast að fullu. En ég hafði ekki áhuga. Ég bý að því að hafa farið í gegnum sveiflur í rekstrinum. Niðursveiflurnar 1992 og 2001 kenndu mér það að verslanir með dýrar vörur verða fyrst fyrir áhrifum í samdrætti. Verslanir með ódýrari vörur lifa frekar af.“

En sér Svava sig eftir 20 ár enn í sama atinu? „Nei, það geri ég nú ekki. Nú er sonurinn, Ásgeir Frank, að stíga sín fyrstu skref í verslunarrekstri. Það er aldrei að vita hvað gerist. Hann er auðvitað með kaupmannsblóð í æðum frá báðum foreldrum og ég þekki af eigin raun hvert það getur togað mann. Auk þess er hann fæddur við upphaf verslunarmannahelgar fyrir tuttugu árum.“