Bikar-Kristinn Framherjinn Kristinn Ingi Halldórsson í baráttu við Sigurð Eyberg Guðlaugsson, varnarmann Selfyssinga. Kristinn skoraði síðara mark Vals í gærkvöldi en hann skoraði í bikarúrslitaleiknum í fyrra þegar Valsmenn sigruðu KR-inga á Laugardalsvellinum.
Bikar-Kristinn Framherjinn Kristinn Ingi Halldórsson í baráttu við Sigurð Eyberg Guðlaugsson, varnarmann Selfyssinga. Kristinn skoraði síðara mark Vals í gærkvöldi en hann skoraði í bikarúrslitaleiknum í fyrra þegar Valsmenn sigruðu KR-inga á Laugardalsvellinum. — Ljósmynd/Guðmundur Karl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Selfossi Kristján Jónsson kris@mbl.is Bikarmeistarar Vals í knattspyrnu karla eru komnir í bikarúrslit annað árið í röð. Rétt eins og í fyrra fóru þeir í heimsókn út fyrir höfuðborgarsvæðið og slógu út 1. deildar lið.

Á Selfossi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Bikarmeistarar Vals í knattspyrnu karla eru komnir í bikarúrslit annað árið í röð. Rétt eins og í fyrra fóru þeir í heimsókn út fyrir höfuðborgarsvæðið og slógu út 1. deildar lið. Í fyrra var það KA á Akureyri þar sem Valur vann eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni en í ár var það Selfoss og hafði Valur betur, 2:1.

Bikarævintýri Sunnlendinga hófst í Frostaskjólinu snemma í sumar þegar liðið vann mjög óvæntan sigur á KR. Eflaust hafa einhverjir Selfyssingar verið farnir að láta sig dreyma um bikarúrslitaleik í Laugardalnum þar sem karlaliði félagsins tækist að feta í fótspor kvennaliðsins.

Þegar flautað var til leikhlés í gærkvöldi lifði sú von enn góðu lífi en þá var enn markalaust. Selfyssingar höfðu raunar átt skalla í stöng en þar var á ferðinni Jose Tirado en Selfyssingar voru nokkuð hættulegir í föstum leikatriðum.

Á 33. mínútu björguðu Selfyssingar á marklínu. Bjarna Ólafi Eiríkssyni tókst þá að koma boltanum framhjá Vigni Jóhannessyni markverði en Andrew James Pew var vel staðsettur og kom boltanum aftur fyrir endamörk. Pew var fyrirliði Selfoss í leiknum en fyrirliði liðsins, Stefán Ragnar Guðlaugsson, er meiddur og tímabilinu gæti verið lokið hjá honum. Fyrirliði Vals, Haukur Páll Sigurðsson, kom heldur ekki við sögu því hann sat allan leiktímann á varamannabekknum.

Margar skyttur á Hlíðarenda

Á 49. mínútu gáfu Selfyssingar færi á sér þegar þeir brutu af sér rétt utan vítateigs. Eflaust héldu þá margir að Guðjón Pétur Lýðsson myndi taka spyrnuna enda var hún rétt vinstra megin við vítateigsbogann. Svo fór þó ekki því Kristinn Freyr Sigurðsson sýndi að hann er einnig góð skytta. Lyfti boltanum snyrtilega yfir varnarvegginn og í vinstra hornið.

Litlu munaði að Selfoss næði að jafna aðeins sjö mínútum eftir mark Vals. Ivan Martinez, sprækasti leikmaður Selfyssinga í gærkvöldi, skapaði mikla hættu þegar hann prjónaði sig í gegnum vörnina og inn í teig. Anton varði frá honum. Boltinn féll fyrir Richard Sæþór Sigurðsson sem náði ekki að athafna sig nægilega hratt með Orra Sigurð Ómarsson í sér. Upp úr því fékk Arnar Logi Sveinsson skotfæri í teignum en skaut framhjá. Selfyssingar hefðu þar getað gert betur.

Smá spenna undir lokin

Valsmenn náðu eftir þetta ágætum tökum á leiknum og Selfoss var ekki líklegt til að jafna leikinn. Valur bætti við marki á 81. mínútu og virtust þá Valsmenn vera að gulltryggja sigurinn. Bjarni Ólafur fékk boltann á vinstri kantinum nánast í kyrrstöðu. Í stað þess að beina Bjarna inn að miðjunni á hægri fótinn fór Selfyssingurinn beint á móti honum. Bjarni þakkaði fyrir sig með því að leggja boltann fyrir sinn stórhættulega vinstri fót og úr varð hættuleg fyrirgjöf. Orri Sigurður mætti henni með góðum skalla. Vignir varði vel en Kristinn Ingi Halldórsson náði frákastinu og skoraði. Kristinn er maður bikarleikjanna en hann skoraði fyrir Val í bikarúrslitaleiknum í fyrra.

Þegar örfáar mínútur voru eftir tóku Selfyssingar skyndilega smá kipp. James Mack skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Martinez á 89. mínútu og smá fiðringur fór um stuðningsmenn Selfoss. Augnabliki áður hafði Anton Ari Einarsson varið virkilega vel skalla Inga Rafns Ingibergssonar. Selfyssingar reyndu eins og þeir gátu að knýja fram framlengingu. Þeir áttu tvær tilraunir í uppbótartímanum en Anton var vandanum vaxinn í markinu. Bikarævintýri Selfyssinga lauk því á síðustu hindrun áður en í Laugardalinn var komið.