[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Hillary Clinton varð í fyrrakvöld fyrst kvenna í 240 ára sögu Bandaríkjanna til að verða frambjóðandi stórs flokks í forsetakosningum og stefnir nú að því að verða fyrsta konan til að gegna forsetaembættinu.

Sviðsljós

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Hillary Clinton varð í fyrrakvöld fyrst kvenna í 240 ára sögu Bandaríkjanna til að verða frambjóðandi stórs flokks í forsetakosningum og stefnir nú að því að verða fyrsta konan til að gegna forsetaembættinu. Til þess þarf hún að sigra Donald Trump, forsetaefni repúblikana, í forsetakosningunum 8. nóvember og líklegt er að barátta þeirra verði mjög hörð og tvísýn. Samkvæmt nýrri könnun, sem fréttaveitan Reuters birti í fyrradag, er Trump með tveggja prósentustiga forskot.

Stuðningsmenn Hillary Clinton fögnuðu ákaft á flokksþingi demókrata í Fíladelfíu þegar ljóst var að hún yrði formlega útnefnd forsetaefni flokksins og sögðu framboð hennar marka þáttaskil í réttindabaráttu kvenna í Bandaríkjunum. Keppinautur hennar í forkosningum demókrata, Bernie Sanders, viðurkenndi ósigur sinn og hvatti flokksmenn til að fylkja sér um Clinton í baráttunni við Trump. Hún þurfti að fá minnst 2.383 kjörmannaatkvæði til að verða forsetaefni demókrata en svo fór að hún fékk alls 2.842 og Sanders 1.865.

Hillary Clinton hefur verið mjög umdeild í stjórnmálunum, m.a. meðal vinstrimanna í Demókrataflokknum. Sumir dásama hana en aðrir fyrirlíta hana.

Bæði mjög umdeild

Nýlegar viðhorfskannanir benda til þess að margir kjósendanna vestanhafs vantreysti Hillary Clinton. Samkvæmt könnun Reuters hafa um 55% Bandaríkjamanna neikvæð viðhorf til hennar sem stjórnmálamanns en það bætir hins vegar úr skák að keppinautur hennar í forsetakosningunum er enn óvinsælli. Um 61% þátttakendanna í könnuninni sagðist hafa neikvæð viðhorf til Trumps. Til að mynda sögðust 53% telja að Trump væri ekki „heiðarlegur og sannsögull“ og enn fleiri, eða 59%, töldu það sama um Hillary Clinton.

Ein af ástæðum þess að Clinton hefur átt undir högg að sækja er deilan um hvort hún hafi brotið reglur þegar hún var utanríkisráðherra með því að nota einkanetfang sitt og netþjón sem var ekki á vegum utanríkisráðuneytisins.

Stuðningsmenn Sanders hafa einnig sakað hana um undirferli, óhreinskilni og þjónkun við fjármálafyrirtæki á Wall Street og m.a. skírskotað til þess að þau voru helstu fjárhagslegu bakhjarlar hennar í kosningabaráttunni. Um 60% af heildarframlögunum í kosningasjóð Sanders komu frá einstaklingum sem gáfu minna en 200 dali hver, eða jafnvirði 25.000 króna, en þetta hlutfall var aðeins 19% hjá Hillary Clinton sem þurfti því að reiða sig á fjárstuðning fyrirtækja.

Hörð hríð var gerð að Clinton á flokksþingi repúblikana í vikunni sem leið þegar ræðumenn sökuðu hana um lögbrot í tölvupóstamálinu, gagnrýndu störf hennar sem utanríkisráðherra á árunum 2009 til 2013, lýstu henni sem valdagráðugum stjórnmálamanni og sögðu hana vera úr tengslum við venjulegt launafólk í Bandaríkjunum. Fulltrúar á flokksþinginu hrópuðu vígorð gegn henni og hvöttu jafnvel til þess að hún yrði hneppt í fangelsi.

Að sögn fréttaskýranda The Washington Post hefur Hillary Clinton einnig verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki verið nógu „viðkunnanleg“ í kosningabaráttunni og verið of stíf í framkomu á kosningafundum.

Reynt að bæta ímyndina

Stuðningsmenn Hillary Clinton hafa reynt að breyta þessari ímynd hennar á flokksþinginu í Fíladelfíu. Á meðal ræðumanna í fyrradag, á öðrum degi flokksþingsins, var eiginmaður hennar, Bill Clinton, sem talaði um hana á persónulegum nótum í 45 mínútna ræðu sem þótti innileg og alþýðleg. Bill Clinton, sem er 69 ára, var forseti Bandaríkjanna á árunum 1993 til 2001 og er álitinn á meðal bestu pólitísku ræðumanna í landinu.

Forsetinn fyrrverandi talaði í 15 mínútur um fyrstu kynni sín af Hillary og samdrátt þeirra, kvaðst hafa kvænst „besta vini“ sínum. Hann lýsti persónuleika og kostum Hillary og sagði að andstæðingar hennar í stjórnmálunum hefðu búið til „skrípamynd“ af henni sem ætti enga stoð í raunveruleikanum. „Ein þeirra er sönn og hin uppspuni,“ sagði hann um myndirnar sem hafa verið dregnar upp af henni. „Þið útnefnduð þá sönnu.“

Hann gagnrýndi andstæðing Hillary í kosningunum án þess að nefna Trump á nafn og lagði áherslu á störf hennar í þágu þeirra sem minna mega sín. „Hún gerði aldrei grín að fötluðu fólki,“ sagði hann og skírskotaði til þess að Trump hæddist eitt sinn að fötlun fréttamanns sem lagði fyrir hann spurningu á blaðamannafundi í fyrra.

Keppa um hylli óháðra

Á meðal ræðumanna á flokksþinginu í gær voru Tim Kaine, varaforsetaefni demókrata, Barack Obama Bandaríkjaforseti, Joe Biden varaforseti og Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York. Bloomberg var í Repúblikanaflokknum þegar hann var fyrst kjörinn borgarstjóri en sagði sig úr honum og demókratar vona að stuðningur hans við Hillary Clinton hjálpi henni að auka fylgi sitt meðal óháðra kjósenda.

Nýleg könnun New York Times og CBS bendir til þess að Trump njóti einkum stuðnings meðal hvítra launþega sem eru ekki með háskólapróf. Um 53% þeirra segjast ætla að kjósa Trump en 28% Hillary Clinton. Um 47% háskólamenntaðra hvítra Bandaríkjamanna styðja Clinton en 37% Trump, ef marka má könnunina. Clinton nýtur einnig mikils stuðnings meðal kvenna og minnihlutahópa.

Til að Trump geti sigrað í forsetakosningunum er talið að hann þurfi að hafa betur í ríkjum á borð við Flórída, Michigan, Ohio og Pennsylvaníu þar sem Mitt Romney, forsetaefni repúblikana, beið ósigur í síðustu kosningum. Talið er að til að geta sigrað í þessum ríkjum þurfi hann að auka stuðning sinn meðal óháðra kjósenda og demókrata, að sögn New York Times .

Rússum kennt um leka
» Talsmaður Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, neitaði í gær ásökunum um að rússnesk stjórnvöld hefðu reynt að hafa áhrif á kosningabaráttuna í Bandaríkjunum.
» Áður hafði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagt í sjónvarpsviðtali að ekki væri hægt að útiloka þann möguleika að Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á kosningabaráttuna í því skyni að auka sigurlíkur Donalds Trumps.
» Aðstoðarmenn Hillary Clinton segja að tölvusérfræðingar telji líklegt að Rússar standi á bak við nýlegan leka á tölvupóstum sem bentu til þess að flokksstjórn demókrata hefði dregið taum Clinton í baráttunni við Bernie Sanders. New York Times segir bandaríska leyniþjónustumenn telja það mjög líklegt að Rússa standi á bak við lekann.