[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Örlygsson fæddist í Reykjavík 28. júlí 1946 og ólst upp í Hafrafelli við Múlaveg í Laugardalnum, þar sem nú er Húsdýragarðurinn. „Ungur sökkti ég mér í listaverkabækur föður míns, impressjónistarnir áttu hug minn og einnig Picasso.

Sigurður Örlygsson fæddist í Reykjavík 28. júlí 1946 og ólst upp í Hafrafelli við Múlaveg í Laugardalnum, þar sem nú er Húsdýragarðurinn.

„Ungur sökkti ég mér í listaverkabækur föður míns, impressjónistarnir áttu hug minn og einnig Picasso. Faðir minn var með vinnustofu heima og þangað komu listamenn og hart var deilt um stefnur og strauma í samtímalist.“

Sigurður stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1967-71, við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn hjá Richard Mortensen 1971-72 og við Art Students League í New York 1974-75.

Sigurður var kennari á Egilsstöðum og Eiðum 1973-74 og var kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Myndlistarskólann í Reykjavík auk Listaháskóla Íslands með hléum frá 1980.

Sigurður hefur haldið mikinn fjölda einkasýninga frá 1971 og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og víða erlendis. „Ég hef farið um víðan völl í listsköpun minni, byrjaði sem geómetrískur abstraktmálari, en smám saman fóru myndirnar að verða fígúratífari. Ég geri mikið af skyssum og er lengi að mála verkin. Undirstöðuþættir málverksins, það er að segja form, bygging og litur, hafa ávallt höfðað sterkt til mín.“

Sigurður hlaut Menningarverðlaun DV 1989 fyrir myndlist og hefur hlotið starfslaun listamanna nokkrum sinnum.

„Ég hef varla áhuga á neinu öðru en málaralist. Hlusta þó á tónlist og alltaf þegar ég er að mála, mest djass og klassík, og horfi á kvikmyndir af mikilli ástríðu. Auk þess tefli ég gjarnan við góða vini öðru hverju til gamans.“

Fjölskylda

Kona Sigurðar er Ingibjörg Einarsdóttir f. 25.08.51, hjúkrunarfræðingur. Foreldrar hennar: Einar Sigurbjörnsson, f. 19.2. 1917, d. 19.4. 1975, bóndi í Hjörsey á Mýrum, og k.h. Matthildur Soffía Maríasdóttir, f. 14.5. 1919, húsfreyja í Hjörsey. Fyrri kona Sigurðar er Ingveldur Róbertsdóttir, f. 30.5. 1953, prófarkalesari og þýðandi. Börn Sigurðar og Ingveldar eru 1) Unnur Malín, f. 17.2. 1984, söngkona og tónskáld, bús. á Reykjavöllum í Biskupstungum, maki: Arnar Sigurbjartsson húsamálari, sonur: Unnsteinn Magni, f. 2010; Þorvaldur Kári, f. 3.3. 1985, tónlistarmaður og -kennari, bús. í Reykjavík; Arnljótur, f. 20.11. 1987, tónlistarmaður í Reykjavík; Gylfi, f. 17.9. 1990, myndlistarmaður og tónlistarmaður í Reykjavík, og Valgerður, f. 14.9. 1992, myndlistarmaður í Antwerpen, maki: Baldvin Einarsson myndlistarmaður. Dóttir Sigurðar og Hrefnu Steinþórsdóttur f. 1.4.1949, er Theódóra Svala, f. 6.3. 1978, námsmaður í Reykjavík, maki: Egill Sverrisson sölumaður, börn: Viktor, f. 2000, Erik Alexander, f. 2002, og Bjarki Hrafn, f. 2014.

Systir Sigurðar er Malín, f. 17.4. 1950, fatahönnuður og kaupmaður í Reykjavík.

Foreldrar Sigurðar: Örlygur Sigurðsson, f. 13.2. 1920, d. 24.10. 2002, listmálari í Reykjavík, og k.h., Unnur Eiríksdóttir, f. 3.6. 1920, d. 30.12. 2008, verslunarmaður í Reykjavík.