Hollywood Myndin um Mitty er ein af þeim sem hefði aldrei komið til Íslands nema út af endurgreiðslunni sem mun aukast úr 20% í 25% í lok árs.
Hollywood Myndin um Mitty er ein af þeim sem hefði aldrei komið til Íslands nema út af endurgreiðslunni sem mun aukast úr 20% í 25% í lok árs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Börkur Gunnarsson borkur@mbl.

Fréttaskýring

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Við erum að undirbúa tökur á Game of Thrones sem verður mjög líklega tekin upp í vetur,“ segir Einar Sveinn Þórðarson, meðeigandi í Pegasus, sem er eitt af mörgum íslenskum fyrirtækjum sem hefur gengið vel í því að þjónusta erlend kvikmyndaframleiðslufyrirtæki hér á landi. „Svo bíðum við eftir því að sjá hvort Fortitude-sjónvarpsþættirnir verði áfram í framleiðslu, okkur hefur gengið vel með þá vinnu. En í augnablikinu erum við að vinna við bandarískar auglýsingar.

Það er reyndar orðið vandamál í dag að núna er erfitt að fara með stóran hóp út á land uppá að koma fólki fyrir á sama gististað. Meira að segja þótt það séu smærri hópar einsog 15 manns. Við vorum með þannig smá hóp í ljósmyndaverkefni fyrir nokkrum vikum og þurftum að dreifa fólki um sveitina til að það gæti sofið.“

Frá hálfum til fimm milljarða

Þau fyrirtæki sem hafa verið fremst í að aðstoða erlend fyrirtæki eru Truenorth, Saga Film og Pegasus. Veltan hjá þessum fyrirtækjum getur rokkað mjög milli ára, sérstaklega hjá Truenorth sem einblínir á þessa þjónustu, en hin tvö fyrirtækin eru líka töluvert í íslenskri framleiðslu. Hjá Truenorth getur veltan verið nálægt hálfum milljarði eitt árið en um fimm milljarðar þegar vel gengur.

Þannig verða þessi fyrirtæki að vera einsog harmonikka á markaðnum.

Saga Film var að ljúka við aðstoð við norska raunveruleikaþætti sem nefnast Super Human og skilaði fyrirtækinu yfir hundrað milljónum í kassann. Forstjóri fyrirtækisins, Guðný Guðjónsdóttir, segir að það sé ekki bara náttúran sem dregur að. „Það kemur tvennt annað til sem er mikilvægt og það er endurgreiðslan og reynslumikið fólk í bransanum á Íslandi.“

En fram til þessa hefur verið 20% endurgreiðsla úr ríkissjóði en nýlega voru samþykkt lög sem leyfa 25% endurgreiðslu úr ríkissjóði. Þau lög munu taka gildi um áramót.

Fæst erlendu fyrirtækjanna myndu koma með framleiðslu sína hingað ef ekki væri fyrir þessa endurgreiðslu en flest lönd í kringum okkur bjóða upp á endurgreiðslu, Írland býður uppá 32% og mörg lönd hafa lengi verið með 25%, einsog Kanada, Nýja-Sjáland og Bretland.

„Áhuginn hefur aukist mikið undanfarin ár,“ segir Guðný hjá Saga Film. „Mér sýnist hann ekki vera að minnka. Krónan er að styrkjast en aftur á móti er endurgreiðslan að hækka.

Ég var í Los Angeles um daginn að hitta stóru stúdíóin og þau voru mjög áhugasöm. Ísland er ennþá mjög vinsælt.“

En þetta gengur ekki bara út á stóru verkefnin?

„Nei, alls ekki. Við erum núna að vinna með nokkrar bandarískar auglýsingar en erum að fara að einbeita okkur að íslenskum sjónvarpsþáttum í vetur, sem skrifaðir eru af Stellu Blómkvist.

Ferðamálastofa lét gera könnun á því hversvegna ferðamenn veldu Ísland sem áfangastað. 20% þátttakenda sögðu að það væri vegna þess að þau hefðu séð íslenska náttúru í bíómynd, sjónvarpsþáttum eða auglýsingum.“ En þess má geta að tekjur af ferðamönnum fara að nálgast 400 milljarða á ári.