Forritið Aldrei hefur verið meira framboð af samskiptaforritum sem leyfa fólki að senda skeyti og hringja ókeypis hingað og þangað.

Forritið

Aldrei hefur verið meira framboð af samskiptaforritum sem leyfa fólki að senda skeyti og hringja ókeypis hingað og þangað. Skype opnaði flóðgáttirnar svo að allt í einu var hægt að hringja til Timbúktú og Tókýó fyrir engan pening, og senda skeyti þess á milli. Síðan hafa komið forrit á borð við WhatsApp og Viber, að ógleymdu spjallkerfi Facebook, WeChat, Slack og alls kyns öðrum gömlum og nýjum, stórum og smáum samskiptaforritum.

Vandinn er ekki lengur að tæknina vanti, heldur að samskiptaleiðirnar eru orðnar svo margar að það getur reynst erfitt að henda reiður á þeim öllum. Og hver hefur ekki átt í samtali í gegnum tölvuna eða snjallsímann þar sem viðmælandinn hoppar á milli forrita: sendir smáskilaboð úr Viber, síðan spurningu í gegnum Facebook og svar í Skype?

All-in-One Messenger er viðbót við Chrome-vafrann sem safnar öllum samskiptaforritunum á einn stað. Samtölin fara ekki í einn samfelldan þráð, en með því að hafa forritin öll í einum pakka verður yfirsýnin auðveldari. Núverandi útgáfa forritsins styður við um 30 ólík samskiptaforrit, allt frá Dasher og Discord yfir í Yahoo Messenger og XMPP. ai@mbl.is