Björgunarsveit Liðlega 150 manns sinna vaktinni yfir allt sumarið.
Björgunarsveit Liðlega 150 manns sinna vaktinni yfir allt sumarið. — Morgunblaðið/Eggert
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Hálendisvakt björgunarsveitanna í sumar hefur gengið með ágætum, en liðlega 150 manns sinna vaktinni sem nú er rúmlega hálfnuð.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Hálendisvakt björgunarsveitanna í sumar hefur gengið með ágætum, en liðlega 150 manns sinna vaktinni sem nú er rúmlega hálfnuð.

„Tíðafarið er oft ákvarðandi hvað varðar þessi alvarlegri atvik og við höfum verið mjög heppin með veður það sem af er sumri,“ segir Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

„En það hefur verið viss renningur af verkefnum og það þarf ekki mikið út af að bregða í veðrinu til að það verði mun meira að gera hjá okkur, en hingað til hefur það hjálpað okkur að halda þessum alvarlegri atvikum í skefjum,“ segir Guðbrandur og bætir við að yfirleitt komi hálendisvaktin að rúmlega 300 atvikum á hverju ári.

Spurður hvort fjölgun erlendra ferðamanna hafi í för með sér aukið álag segir hann að vissulega geri hún það.

„En við finnum svolítið öðruvísi fyrir henni. Þar sem við höfum sett mikla áherslu á forvarnir þá reynum við að tala mikið við sjálfa ferðamennina og höfum fjölgað upplýsingaskjám, auk þess sem heimsóknum á vefinn okkar fer sífellt fjölgandi.“

Þá segir Guðbrandur að aðeins með samstilltu átaki náist að forða fólki frá því að lenda í vandræðum.

„Við finnum það að forvarnir okkar eru að virka mjög vel, enda höfum við verið dugleg að efna til samstarfs við ferðaþjónustuaðila, bílaleigur og fleiri. Við búum náttúrulega í þessu harðbýla landi og þurfum að miða allt okkar starf við þær aðstæður.“

Hálendisvaktin
» Landsbjörg hefur staðið fyrir vaktinni í tíu ár, en hún á að efla slysavarnir á hálendinu.
» Björgunarsveitir skiptast á að vera á hálendinu, til að leiðbeina og aðstoða ferðafólk.
» Eru þær í Nýjadal á Sprengisandsleið, Drekagili við Öskju og við Landmannalaugar.