Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson — Morgunblaðið/Ómar
Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, segir að lítil eftirspurn sé í Evrópu eftir sjúkrahúsum sem geri út á svokallaðan „sjúklingatúrisma“.

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, segir að lítil eftirspurn sé í Evrópu eftir sjúkrahúsum sem geri út á svokallaðan „sjúklingatúrisma“. Fyrirhugað er að í Mosfellsbæ rísi einkasjúkrahús af þeirri tegund, en nú þegar hefur lóðinni Sólvöllum verið úthlutað undir bygginguna.

„Ástæðan er sú að fólk sem hefur góðar tryggingar og er sæmilega efnað fær þjónustu í Evrópu. Þau dæmi sem ég hef séð hafa ekki gengið upp og það virðist ekki vera eftirspurn eftir þessu í Evrópu,“ bætir hann við. Ólafur segist þó ekki andvígur einkasjúkrahúsum sem slíkum, aðeins þeirri gerð sem stendur til að reisa í Mosfellsbæ.

„Það er þannig að þetta eru mjög dýrar aðgerðir og menn verða að hafa mjög góðar einkatryggingar ef þetta á að ganga. Í Evrópu gengur þetta ekki vel. Þetta gengur betur í Bandaríkjunum, en þar er þetta auðvitað miklu dýrara,“ segir Ólafur, en bætir við að í Bandaríkjunum hafi þó skapast ójöfnuður í þjónustunni.

Minni kröfur hér en á Norðurlöndunum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ýjaði að því í grein í Fréttablaðinu nýverið að ástæða þess að Ísland hefði orðið fyrir valinu væri að forsvarsmenn sjúkrahússins teldu að ekki þyrfti að uppfylla jafn ströng skilyrði til þess hér á landi og annars staðar. Ólafur segir að Kári hafi nokkuð til síns máls.

„Ég spyr: Getur hver og einn rekið sjúkrahús, einungis með því að fá lóð hjá sveitarfélaginu? Nei. Hann getur að vísu raðað saman múrsteinum, en án faglegs leyfis landlæknis eða ráðherra, ef landlæknir synjar, gengur dæmið ekki upp,“ segir hann. Skilyrði fyrir leyfisveitingu séu þó t.d. ekki jafn ströng hér og á Norðurlöndunum.

Spurður hvort hann telji líklegt að verkefni á borð við sjúkrahúsið í Mosfellsbæ fái leyfi, segist hann ekki geta sagt til um það. „Ég er ekki landlæknir, en ef það tekst að fjármagna þetta, þá þarf að sjá hvort uppfylltar verða þær kröfur sem við gerum og það er líka dýrt.“ segir Ólafur. jbe@mbl.is