Sorg Presturinn, sem var myrtur, syrgður á Lýðveldistorginu í París.
Sorg Presturinn, sem var myrtur, syrgður á Lýðveldistorginu í París. — AFP
Fulltrúar kristinna manna, múslima, gyðinga og búddista áttu í gær fund með Francois Hollande, forseta Frakklands, og hvöttu til aukinnar öryggisgæslu við guðshús og samkomuhús trúfélaga í landinu eftir að aldraður prestur var myrtur í kirkju í...

Fulltrúar kristinna manna, múslima, gyðinga og búddista áttu í gær fund með Francois Hollande, forseta Frakklands, og hvöttu til aukinnar öryggisgæslu við guðshús og samkomuhús trúfélaga í landinu eftir að aldraður prestur var myrtur í kirkju í Saint-Étienne-du-Rouvray, nálægt Rúðuborg í Frakklandi, í fyrradag.

Tveir árásarmenn sem styðja Ríki íslams, samtök íslamista, tóku hóp fólks í kirkjunni í gíslingu áður en þeir skáru prestinn á háls við altarið. Lögreglan skaut árásarmennina til bana.Tólf dögum áður létu 84 lífið í annarri árás sem gerð var í borginni Nice.

Frönsk yfirvöld hafa greint frá nafni annars þeirra sem réðust inn í kirkjuna. Hann hét Adel Kermiche, var 19 ára og hafði tvisvar sinnum reynt að fara til Sýrlands í því skyni að berjast fyrir Ríki íslams. Dagblaðið Le Monde segir að saksóknari hafi óskað eftir því að Kermiche yrði hnepptur í gæsluvarðhald fyrir árásina á kirkjuna en dómari hafnað beiðninni og dæmt hann í stofufangelsi. Samkvæmt dómnum mátti Kermiche fara af heimili sínu í nokkrar klukkustundir á hverjum virkum morgni og hann notfærði sér það til að gera árásina.