Frábær Sylvía Rún Hálfdanardóttir fór á kostum gegn Finnum í gær.
Frábær Sylvía Rún Hálfdanardóttir fór á kostum gegn Finnum í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stúlkurnar í U18 ára landsliðinu í körfubolta eru komnar í átta liða úrslit B-deildar Evrópukeppninnar í Bosníu eftir sannfærandi sigur á Finnum í lokaumferð riðlakeppninnar í gær, 81:73.

Stúlkurnar í U18 ára landsliðinu í körfubolta eru komnar í átta liða úrslit B-deildar Evrópukeppninnar í Bosníu eftir sannfærandi sigur á Finnum í lokaumferð riðlakeppninnar í gær, 81:73.

Þetta var hreinn úrslitaleikur um annað sætið í A-riðli en Bosnía vann hann á fullu húsi stiga. Ísland varð númer tvö og mætir Hvíta-Rússlandi, sigurvegaranum í B-riðli, í átta liða úrslitum á morgun. Finnar, Portúgalar og Rúmenar urðu í þriðja til fimmta sæti.

Eftir leikinn á morgun fara stúlkurnar annaðhvort í undanúrslit, þar sem leikið er um þrjú sæti í A-deildinni, eða í keppni um fimmta til áttunda sætið um helgina. Fyrirkomulagið er nákvæmlega það sama og hjá U20 ára karlaliðinu sem vann sér sæti í A-deild um síðustu helgi.

Sylvía Rún Hálfdanardóttir átti stórleik gegn Finnum en hún skoraði 28 stig, tók 20 fráköst og átti 5 stoðsendingar. Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði 15 stig og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir skoraði 13 stig og tók 15 fráköst. vs@mbl.is