Ásta Guðrún Helgadóttir
Ásta Guðrún Helgadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður og formaður stjórnar Félags tónskálda og textahöfunda telur stefnu Pírata fela í sér einbeittan vilja til að skerða eignar- og ráðstöfunarrétt höfunda á eigin hugverkum, en í stefnunni kemur meðal annars fram að...

Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður og formaður stjórnar Félags tónskálda og textahöfunda telur stefnu Pírata fela í sér einbeittan vilja til að skerða eignar- og ráðstöfunarrétt höfunda á eigin hugverkum, en í stefnunni kemur meðal annars fram að sæmdarrétti skuli breytt og að gildistími höfundarréttar skuli styttur úr 70 árum í 20 ár. Stefnan var mótuð fyrir kosningarnar árið 2013, en að sögn Ástu Guðrúnar Helgadóttur, þingmanns Pírata, er von á nýrri stefnu um miðjan ágúst.

Að mati Jakobs gilda ekki önnur lögmál um eignarréttinn í netheimum en í raunheimum. Píratar haldi öðru fram.

„Höfundarréttur er vel varðaður í 250 lykillöndum og mörkuðum heimsins. Við þurfum ekki íhlutun Pírata eða annarra til að stafa ofan í okkur hvernig við eigum að fara með þessi mál,“ segir Jakob.

„Í ljósi núverandi fylgis Pírata, möguleika á þátttöku þeirra í nýrri ríkisstjórn og yfirlýsts áhuga á stjórnarskrárbreytingum hafa íslenskir höfundar fyllstu ástæðu til að gjalda varhug við stefnumiðum þeirra í höfundarréttarmálum. Höfundarréttur er þrátt fyrir allt stjórnarskrárvarinn eignarréttur,“ segir hann.

Ásta Guðrún segir að í umræðunni gæti misskilnings á stefnu Pírata og afstöðu til ólöglegra niðurhalssíðna á netinu.

„Við höfum aldrei hvatt fólk til að deila efni sín á milli ólöglega. Það sem við gagnrýnum er að sá ritskoðunarmekanismi sem notaður er til að taka þessar síður niður virkar ekki,“ segir hún. Koma þurfi öðruvísi til móts við höfunda.

Píratar vinna nú að endurskoðun höfundarréttarstefnu sinnar en Evrópuþingmaður Pírata frá Þýskalandi, Julia Reda, kemur til Íslands í næstu viku og mun fara yfir drög Pírata að nýrri stefnu sem verður kynnt um miðjan ágúst. Hún hefur unnið breytingar á höfundarréttarlögum ESB. jbe@mbl.is