Rússar geta enn sent um það bil 270 keppendur á Ólympíuleikana í Ríó þrátt fyrir stóra lyfjamálið og þá ákvörðun Alþjóðaólympíunefndarinnar að fela heimssamböndum hverrar greinar að ákveða hlutgengi rússneskra keppenda.

Rússar geta enn sent um það bil 270 keppendur á Ólympíuleikana í Ríó þrátt fyrir stóra lyfjamálið og þá ákvörðun Alþjóðaólympíunefndarinnar að fela heimssamböndum hverrar greinar að ákveða hlutgengi rússneskra keppenda.

Upphaflega stóð til að 387 rússneskir íþróttamenn myndu keppa í Ríó. en 108 hafa þegar verið settir í bann, þar af 67 frjálsíþróttamenn.

Í gær tilkynntu heimssambönd skylminga, blaks, þríþrautar og borðtennis að allir fulltrúar Rússa í þeirra greinum uppfylltu skilyrði til þátttöku. Í yfirlýsingum frá þríþrautar- og borðtennissambandinu kom fram að rússnesku keppendurnir í þeim greinum hefðu verið lyfjaprófaðir sérstaklega utan Rússlands.

Rússar hafa einnig fengið græna ljósið fyrir alla sína keppendur í bogfimi, hestaíþróttum, júdó, skotfimi og tennis.

Hinsvegar hafa sumir þeirra keppenda í sundi, róðri, nútíma fimmtarþraut, kajakróðri og siglingum verið útilokaðir frá keppni.

Níu sérsambönd eiga eftir að úrskurða um hlutgengi rússneskra keppenda en þar er um að ræða badminton, hnefaleika, hjólreiðar, golf, fimleika, handbolta, taekwondo, lyftingar og grísk/rómverska glímu.

Ólympíuleikarnir verða settir í Ríó föstudaginn 5. ágúst. vs@mbl.is