[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Guðni Th. Jóhannesson verður settur í embætti forseta Íslands næstkomandi mánudag, 1. ágúst, á frídegi verslunarmanna. Athöfnin fer fram í Alþingishúsinu og verður með hefðbundnum hætti.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Guðni Th. Jóhannesson verður settur í embætti forseta Íslands næstkomandi mánudag, 1. ágúst, á frídegi verslunarmanna. Athöfnin fer fram í Alþingishúsinu og verður með hefðbundnum hætti. Að þessu sinni verða þó gerðar minni kröfur um klæðaburð og orður og er það gert að ósk forsetaefnisins.

Til athafnarinnar er boðið fjölda gesta, alþingismönnum embættismönnum, fulltrúum erlendra ríkja fulltrúum félagasamtaka og einstaklingum sem forsetaefni óskar eftir að séu á gestalista og taki þátt í athöfninni.

Hingað til hefur verið gerð krafa um að karlar klæðist kjólfötum og konur síðkjólum. Að þessu sinni er ekki gerð krafa um að almennir boðsgestir séu í kjólfötum og síðkjólum og ekki er gerð krafa um að almennir boðsgestir beri heiðursmerki og orður.

Hins vegar munu forsetaefnið, fráfarandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, og handhafar forsetavalds klæðast kjólfötum. Þá mun Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, klæðast síðkjól. Öll munu þau bera orður.

Mikill undirbúningur

Forsætisráðuneytið hefur annast undirbúning innsetningarathafnarinnar. Að sögn Ragnhildar Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra hófst undirbúningsvinna árið 2015 þegar ráðuneytið óskaði eftir sérstakri fjárveitingu til að standa straum af innsetningunni.

„Margir tugir manna hafa komið að undirbúningi, frá ráðuneytum, Alþingi, Hæstarétti, lögreglunni, kirkjunni, svo ég nefni helstu aðilana. Þar að auki verða starfsmenn á innsetningardaginn mun fleiri,“ segir Ragnhildur.

Hún segir að allt sé að smella saman. „Undirbúningur er á lokastigi og við vonumst til þess að það verði gott veður þennan dag svo almenningur geti komið saman á Austurvelli og notið þess að vera þarna og fylgjast með.“

Athöfnin hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni en sjálf innsetningarathöfnin verður í Alþingishúsinu. Að henni lokinni stíga forsetahjónin fram á svalir Alþingis og forsetinn ávarpar mannfjöldann.

Útvarpað verður frá báðum athöfnum út á Austurvöll. Þá verður Ríkissjónvarpið með beinar útsendingar, sem hefjast klukkan 15:50 á mánudaginn.

Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið aflaði sér í gær hefur innsetningarathöfnin verið í mjög föstum skorðum frá því Sveinn Björnsson var fyrst settur í embætti 1. ágúst 1945. Hann var þá þjóðkjörinn en hafði verið þingkjörinn 1944. Væntanlega hafa ráðmenn þess tíma litið til þess hvað tíðkaðist með innsetningu þjóðhöfðingja á Norðurlöndum, sérstaklega í Danmörku. Þar og í Noregi og Svíþjóð er konungsríki eins og kunnugt er. Í Finnlandi ríkir þjóðkjörinn forseti eins og hér á landi og þar er innsetningarathöfnin látlausari. Segja má að nú séu Íslendingar að færast nær Finnum að þessu leyti. Þar er klæðaburður frjálslegri og orðuburður einnig frjálslegri.

Innsetning nýs forseta er á ábyrgð handhafa forsetavaldsins, þ.e. fulltrúa dómsvalds, Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, framkvæmdavalds, Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra, og löggjafarvalds, Einars Kr. Guðfinnssonar þingforseta. Þeir bjóða til samkomunnar og stýra henni.

Umboð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, rennur út á miðnætti 31. júlí. Þá taka handhafar forsetavaldsins við og fara með forsetavaldið í nokkrar klukkustundir uns nýr forseti, Guðni Th. Jóhannesson, hefur verið settur í embættið síðdegis 1. ágúst.

Forsætisráðuneytið sótti í fyrra um fimm milljóna tímabundið framlag til að standa straum af athöfninni. Stærstu útgjaldaliðir eru vegna borða í þingsal, flutnings í geymslu ásamt enduruppsetningu og tengingum. Einnig falla til útgjöld vegna tónlistar og skreytinga í Alþingishúsinu og í Dómkirkjunni.