Jón Hjaltason
Jón Hjaltason
Eftir Jón Hjaltason: "Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að fara svona með dýrmætt borgarplássið?"

Ég er í losti. Í stuttu máli sagt þá brá ég mér til Berlínar og fékk áfall. Fyrir fram stóð ég í þeirri trú að ég myndi dvelja í úthverfi borgarinnar. Ég hafði farið með Gúgul um svæðið og séð að í næsta nágrenni við íbúðina mína er skógur – nei, ég meina frumskógur. Sem reyndist líka rétt. Daglangt hjólaði ég um þennan skóg og komst að tvennu, hann er að minnsta kosti fimmfaldur Vaglaskógur og – það sem hrelldi mig – hann leggur undir sig gróflega mikið borgarland.

Vita ekkert í sinn haus

Hitt reyndist hins vegar rangt, ég var ekki í neinu úthverfi heldur aðeins í 20 mínútna hjólafjarlægð frá miðbænum. En mér var vorkunn með þennan frumskóg nánast handan við hornið. Hvernig átti mér að hugkvæmast að nokkrum manni dytti í hug að fara svona með dýrmætt borgarplássið? Ég bara spyr.

Hrellingum mínum var þó engan veginn lokið. Á leið í miðbæinn varð fljótlega á vegi mínum stór garður með vatni í miðju. Út undan mér sá ég aðra minni. Áfram var haldið og trú mín á skipulagshæfileika Berlínarbúa fór hratt þverrandi.

Tók þó út yfir allan þjófabálk þegar kom í sjálfan miðbæinn. Þar blasti við eitthvað sem borgarbúar kalla Tiergarten og er gríðarstór – jú, einmitt – gríðarstór garður, enn einn. Og það í sjálfu hjarta borgarinnar.

Vita mennirnir ekkert í sinn haus, hugsaði ég, reyndur Íslendingurinn í þéttingu byggða sem er hið helgasta vé borgarskipulags. Hremmingum mínum var þó ekki lokið. Engan veginn.

Þá flæddu tárin

Ég segi ykkur satt að við sjálft lá að ég tárfelldi þegar ég kom að þinghúsi Þjóðverja og sá þar stærðar grasblett, nei, hann var tún að stærð, og gjörsamlega ónýttur. Bara gras og það heldur ljótt og ekkert annað. Hugsið ykkur!

Í rusli hörfaði ég undan og kom að stjórnarráðsbyggingum sem eru þarna nærri. Og aftur blöstu við mér tún, gjörsamlega vannýtt. Engum til gagns. Nú varð ekki lengur við neitt ráðið, tárin hrundu niður vanga.

Gerðu í nytina sína

Mér var svo brugðið að samferðarmenn mínir sáu sér þann kost vænstan að leiða mig í burtu rænulítinn af harmi. Vissulega vildu þeir vel en lengi getur vont versnað. Eftir 15 mínútna reið á hjóli rankaði ég aftur við mér á einum stærsta flugvelli Evrópu millistríðsáranna, Tempelhof. En hugsið ykkur, það er búið að leggja hann niður. Flugbrautirnar eru þó þarna enn þá og gríðarlegar flugvallarbyggingar. En nýtingin – guð minn almáttugur hjálpi mér og þó aðallega Berlínarbúum. Síðan 2008 hefur engin flugvél lent þarna, hvað þá hafið sig til flugs.

Borgaryfirvöldum var þó ekki alls varnað. Eins og vitibornum mönnum sæmir vildu þau nýta svæðið, byggja þar íbúðir og annað sem hæfir borgarbyggð. En pólitíkusarnir gerðu illa í nytina sína. Haldið þið ekki að þeir hafi boðið almenningi að segja álit sitt. Og almenningur vildi ekki byggja. Og hverjar eru afleiðingarnar? Jú, Berlínarbúar sitja uppi með enn einn almenningsgarðinn, ef það er þá réttnefni yfir svæði sem er stærra en Mónakó að flatarmáli.

Dagur B. og Logi til hjálpar

Er nema von að ég geti ekki á heilum mér tekið? Ég kann vel við mig í Þýskalandi og mér er hlýtt til þýsku þjóðarinnar sem, því miður, hefur ekki hundsvit á skipulagsmálum. En þar sem ég er bara-jón hlustar enginn á mig.

Örvæntingarfullur, raunar á barmi taugaáfalls, skrifa ég því þessar línur í þeirri von að stjórnvöld höfuðborgarinnar og Akureyrar leggi nú saman krafta sína og sendi Berlínarbúum ekta fræðinga sem kunna hið eina sanna faðirvor skipulagsfræðanna um þéttingu byggðar.

Í bljúgri bæn og með þökk fyrir birtinguna.

Höfundur er sagnfræðingur.

Höf.: Jón Hjaltason