Uppátækið þótti álíka fáránlegt og að ætla sér að reisa stiga til tunglsins. Fyrir 150 árum var fyrsti sæstrengurinn lagður yfir Atlantshafið. Verkið var einkaframtak og hafði ekki gengið áfallalaust. Margir töpuðu háum upphæðum. En þegar því lauk 27.

Uppátækið þótti álíka fáránlegt og að ætla sér að reisa stiga til tunglsins. Fyrir 150 árum var fyrsti sæstrengurinn lagður yfir Atlantshafið. Verkið var einkaframtak og hafði ekki gengið áfallalaust. Margir töpuðu háum upphæðum. En þegar því lauk 27. júlí 1867 hafði tónninn breyst og nú töluðu fjölmiðlar um áttunda undur veraldar.

Sæstrengurinn breytti heiminum. Nú mátti á augabragði senda símskeyti yfir Atlantshafið og eiga samskipti, sem áður tóku marga daga. Í upprifjun þýska vikublaðsins Die Zeit á þessum tímamótum kemur fram að í lok næsta áratugar hafði verið lagt net kapla frá Evrópu til Indlands, Suðaustur-Asíu, Ástralíu, Rómönsku-Ameríku og Suður-Afríku. Um aldamótin 1900 voru komnir 12 kaplar yfir Atlantshafið. Í fyrstu var aðeins hægt að senda nokkur skeyti á dag um Atlantshafsstrenginn, en tækninni fór fram. Árið 1869 var 321 skeyti sent á viku, en 1903 fóru 10 þúsund sendingar á dag yfir hafið.

Þetta voru tímamót í viðskiptum og samskiptum þjóða. Var talað um að nú væri fréttaflutningur ekki lengur háður því hversu hratt sá sem flytti fréttirnar kæmist yfir. Tekist hefði að leysa upp tíma og rúm.

Í Die Zeit er rifjað upp að Napóleon III. Frakklandskeisari hafi fagnað þessum tímamótum vegna þess að nú mætti leiðrétta allan misskilning í samskiptum þjóða með einu símskeyti. Heimsveldi sáu í sæstrengnum tæki til að auðvelda stjórn nýlendna, en símskeytatæknin og sækaplarnir nýttust einnig þeim, sem börðust gegn nýlenduveldunum.

Seinni tíma hagfræðingar hafa sagt að með sæstrengnum hafi grunnurinn verið lagður að kapítalismanum. Hægt var að senda upplýsingar um gengi hlutabréfa í kauphöllum og markaðsverð á hrávöru um allan heim nánast í rauntíma. Þetta gerbreytti forsendum verslunar og viðskipta.

Hrifningin fyrst eftir að sæstrengurinn var lagður kann að kalla fram bros þegar svo er komið að hver einasti jarðarbúi getur verið í beinni útsendingu öllum stundum þannig að allir jarðarbúar geti fylgst með hafi þeir áhuga. Hins vegar eru engar ýkjur að halda því fram að með þessum þrjú þúsund kílómetra sæstreng hafi heimurinn byrjað að skreppa saman fyrir alvöru og má spyrja hvort þessi tímamót hafi verið meiri bylting en tilkoma netsins.

Talað er um að félagsvefurinn Twitter, sem leyfir aðeins 140 slög í færslu, sé frumkvöðull hins knappa stíls, en hann kom til sögunnar löngu áður eins og orðið símskeytastíll ber vitni. Hvert orð í símskeyti kostaði skildinginn og því lítið svigrúm fyrir þrotlausar vífillengjur og málalengingar.

Síðar kom hin þráðlausa tækni til sögunnar og dró þá úr mikilvægi sæstrengjanna í samskiptum. Ekki má hins vegar gleyma því að þeir gegna enn stóru hlutverki í að flytja gögn og upplýsingar landa í millum, einni og hálfri öld síðar. kbl@mbl.is

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal