„Mistökin eru dýr. Ef hún dettur af jafnvægisslánni þá er einn heill í frádrátt. Þegar baráttan er um 0,1 eða einhverja hundraðshluta þá er þetta búið spil ef þú dettur.

„Mistökin eru dýr. Ef hún dettur af jafnvægisslánni þá er einn heill í frádrátt. Þegar baráttan er um 0,1 eða einhverja hundraðshluta þá er þetta búið spil ef þú dettur. Það er ekki hægt að reiða sig á að hinir geri mistök,“ segir Vladimir Antonov, þjálfari Irinu.

Vladimir er rússneskur að uppruna og kom til Íslands fyrir rúmlega tuttugu árum eftir að hafa þjálfað landslið Eista í fimleikum. Síðan þá hefur hann þjálfað fimleika á Íslandi. Hann, Irina og sjúkraþjálfarinn Berglind Pétursdóttir halda út til Ríó á sunnudaginn kemur. Irina mun stíga á gólfið þann 7. ágúst frammi fyrir fullum sal en það getur verkað á báða vegu að mati Vladimirs.

„Í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana var salurinn hálftómur en nú verður hann troðfullur með vel yfir 10.000 áhorfendur. Adrenalínið getur virkað í báðar átt, það getur virkað jákvætt en það getur líka truflað ef það er of kraftmikið. Hún verður að eiga toppdag.“

Æfir ein á síðasta sprettinum

„Hún er í góðu standi, bæði líkamlega og tæknilega. Aðalmálið er að það verði engin slys eða meiðsli fram að keppni. En það hefur verið svolítið erfitt að vera ein í undirbúningnum. Það eru allir komnir í sumarfrí og hún æfir ein í salnum.“

Frá aprílmánuði hefur Irina keppt á Norðurlandamótinu í maí, Evrópubikarmóti í Sviss og í júlí fór hún í æfingabúðir í Stuttgart í Þýskalandi.

„Mikið af undirbúningnum fer fram miklu fyrr, til dæmis á mótum í vetur og vor og síðan í æfingabúðunum í Stuttgart. Það var mikilvægt vegna þess að þar voru aðrir ólympíufarar. Hér heima hefur hún að mestu æft með mun yngri stelpum.“ tfh@mbl.is