Á Startup Reykjavík vinnur Convex að gerð leiksins Portal Hunters sem verður litríkur og skemmtilegur fyrstu persónu skotleikur. Er stefnt að því að selja leikinn gegnum Steam-leikjaveituna líkt og gert var við Tiny Knight.
Á Startup Reykjavík vinnur Convex að gerð leiksins Portal Hunters sem verður litríkur og skemmtilegur fyrstu persónu skotleikur. Er stefnt að því að selja leikinn gegnum Steam-leikjaveituna líkt og gert var við Tiny Knight.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Convex einblínir á að framleiða leiki fyrir tölvur frekar en snjallsíma. PC-leikir hafa lengri líftíma og ekki er jafn harður slagur um athygli kaupenda

Nýtt íslenskt tölvuleikjafyrirtæki er að taka á sig mynd. Convex Games tekur þátt í Startup Reykjavík í ár og mun á næstunni senda frá sér Portal Hunters sem á að vera skondinn og skemmtilegur fyrstu persónu skotleikur. Að fyrirtækinu standa Valdimar Jónsson, Hrafn Orri Hrafnkelsson og Egill Örn Sigurjónsson. Valdimar og Hrafn eru að læra tölvunarfræði en Egill hugbúnaðarverkfræði.

„Við Hrafn höfum verið bestu vinir frá því við vorum fimm ára gamlir en Hrafn og Egill kynntust þegar þeir voru báðir við nám í Verslunarskólanum,“ segir Valdimar. „Strax á menntaskólaaldri vorum við byrjaðir að fikta við tölvuleikjagerð og slógum svo til í febrúar á síðasta ári þegar IGI, Samtök íslenskra leikjaframleiðenda, efndi til keppni. Þar fengum við mánuð til að smíða leik frá grunni og var útkoman einföld frumgerð af okkar fyrstu vöru, Tiny Knight, sem síðan sigraði í keppninni.“

Í verðlaun fengu félagarnir meðal annars afnot af vinnuaðstöðu í frumkvöðlasetri við Hlemmtorg og notuðu þeir sumarið 2015 í að fullvinna Tiny Knight.

Láta snjallsímana vera

Convex smíðar leiki fyrir PC, Mac-og Linux-tölvur og selur í gegnum Steam-leikjaveituna. Er það áhugaverð stefna hjá fyrirtækinu núna þegar allir virðast vilja herja á snjallsímamarkaðinn og búa til næsta Angry Birds eða Candy Crush. Valdimar segir að öðruvísi lögmál virðist ríkja á snjallsímaleikjamarkaðinum annars vegar og með leiki fyrir einkatölvur hins vegar. „Vinsældir PC-leikjanna virðast endast miklu lengur og þökk sé Steam er fólk að kaupa og spila leiki sem komu út fyrir jafnvel 10 eða 20 árum. Í snjallsímamarkaðinum virðast leikir hafa skemmri líftíma og ef þeir ná ekki á toppinn þá hverfa þeir og gleymast. Þá eru risafyrirtæki sem stjórna þessum markaði í dag og erfitt fyrir minni leikjaframleiðendur að komast inn.“

Það gæti líka verið að auðveldara sé að koma nýjum leik fyrir sjónir neytenda á PC-markaðinum, en að reyna að láta í sér heyrast í því fuglabjargi sem markaður fyrir snjallsímaleiki er orðinn. Slagurinn er harður, flottir nýir leikir gefnir út daglega og er svo komið að leikjaframleiðendur þurfa nú sem aldrei fyrr að huga vel að markaðsmálunum og reyna að finna hagkvæmar leiðir til að ná til væntanlegra kaupenda.

„Að okkar mati er gott umtal besta auglýsingin. Í dag er eitt besta markaðstækið fyrir fyrirtæki eins og Convex að komast að hjá fólki sem gerir þætti á YouTube og fer þar yfir áhugaverðustu nýju leikina,“ segir Valdimar og bendir á að strax með því að komast í gegnum fyrstu skimun hjá Steam fái tölvuleikur ákveðinn gæðastimpil. „Enginn leikur fer í sölu á Steam nema hafa fyrst fengið græna ljósið í kosningu meðal notenda. Þarf að senda inn stutt myndskeið úr leiknum og lýsingu og fólk frá öllum heimshornum tekur þátt í að velja hvaða leikir komast í dreifikerfið. Þúsundir leikja eru sendir í forvalið en aðeins um 50 hleypt inn í viku hverri. Sumir framleiðendur þurfa að sækja um aftur og aftur en þegar við sendum Tiny Knight inn fengum við græna ljósið á þriðja degi. Meðbyrinn sem við fengum með því einu að vera með nýjan leik varð til þess að mjög fljótlega höfðum við selt tæplega 1.000 eintök.“

Lítil og létt yfirbygging

Þriggja manna teymi getur gert ágætis tölvuleik á skömmum tíma. Leikir Convex verða vitaskuld af allt annarri stærðargráðu en risaleikir frá framleiðendum á borð við EA Games eða CCP en yfirbyggingin er ekki dýr og ekki þarf að taka mikla áhættu til að skapa leik sem getur staðið undir sér fjárhagslega. „Við erum því ekki í leit að fjárfestum að svo stöddu en stefnum á að sækja um markaðsstyrki undir lok sumars,“ segir Valdimar. „Að stofna fyrirtækið var ekki svo mikið mál, og að smíða leikina ekki heldur. Okkar stærsta áskorun er einfaldlega að reyna að koma okkur á framfæri í tölvuleikjabransanum.“