Ég man ekki eftir því að jafn margir hafi átt möguleika á Íslandsmeistaratitli fyrir lokadaginn eins og gerðist í karlaflokki á Akureyri um síðustu helgi. Fimm voru þá fyrir ofan Birgi Leif Hafþórsson sem sigraði í mótinu og einn var jafn honum.
Ég man ekki eftir því að jafn margir hafi átt möguleika á Íslandsmeistaratitli fyrir lokadaginn eins og gerðist í karlaflokki á Akureyri um síðustu helgi. Fimm voru þá fyrir ofan Birgi Leif Hafþórsson sem sigraði í mótinu og einn var jafn honum.

Alls léku fjórtán kylfingar undir pari í mótinu og sá fimmtándi var á parinu. Eru það mjög góð tíðindi fyrir íþróttina og ljóst að breiddin er að aukast hérlendis. Þótt sigur Birgis hafi verið tæpur í þetta skiptið er hann engu að síður ennþá langbestur. Þrátt fyrir það eru mun fleiri frambærilegir en áður og verður áhugavert að sjá hvort sú þróun heldur áfram á næstu árum.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir voru í sérflokki hjá konunum í þetta skiptið. Getumunurinn á þeim tveimur og þeim sem næstar koma er þó ekki jafn mikill og þetta Íslandsmót bendir til. Sést það best á því að á allra síðustu árum hafa bæði Signý Arnórsdóttir og Sunna Víðisdóttir náð titlinum. En frammistaða Ólafíu og Valdísar var svo gott sem í heimsklassa þessa fjóra daga.

Ég heyrði á einhverjum kylfingum að flatirnar hefðu ekki verið eins og best verður á kosið. Má það vel vera enda geta Akureyringar ekki flúið staðsetningu sína á hnettinum. Þeir verða alltaf háðir veðurguðunum upp að einhverju marki, til dæmis varðandi klakann á veturna.

En ef flatirnar hefðu verið sérlega slæmar þá hefðum við varla séð þetta skor á Íslandsmótinu. Því ekki er Jaðarsvöllur auðveldur keppnisvöllur. Af hvítu teigunum er hann yfir 6.000 metrar. Spilamennska kylfinganna hefur vafalaust verið góð auglýsing fyrir íþróttina.