Hvernig á að takast á við hina nýju vá?

Ógnaröld ríkir nú í Evrópu. Hin skelfilega árás á kirkju í Normandí í fyrradag, þar sem prestur var skorinn á háls, markaði sjötta hryðjuverkið sem framið hefur verið í Frakklandi og Þýskalandi á síðustu tveimur vikum og hið fimmta sem hægt var að rekja með einhverjum hætti til hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Hafa má í huga, að þetta er ekki í fyrsta sinn, sem Evrópa stendur frammi fyrir hryðjuverkavá. Hreyfingar anarkista voru til að mynda skæðar víða á 19. og framanverðri 20. öld, og í umróti kalda stríðsins spruttu upp margar hryðjuverkahreyfingar um Vestur-Evrópu, sem höfðu einhver tengsl eða hugmyndafræðilega samleið með Sovétríkjunum.

Rauðu herdeildirnar á Ítalíu, Baader-Meinhof í Þýskalandi og Írski lýðveldisherinn í Bretlandi, svo dæmi séu nefnd, áttu þannig í áralangri baráttu, sem kostaði fjölda mannslífa. Flestar fjöruðu þessar hreyfingar út fljótlega eftir fall Sovétríkjanna, eða sóttust eftir friðsamlegri lausnum á baráttumálum sínum.

Á sama tíma urðu ríki Evrópu færari í að takast á við og berjast gegn hryðjuverkavánni. Leyniþjónustur ríkjanna gátu njósnað um hreyfingarnar og reynt að trufla starfsemi þeirra innan frá, auk þess sem eftirlit með slíkum samtökum varð fullkomnara. Skotmörk samtakanna urðu fyrirsjáanlegri og í sumum tilfellum sýndu þau þá kurteisi að hringja á undan sér til þess að reyna að draga úr mannfalli.

Árásir síðustu vikna falla í annað mót en það sem tíðkaðist á tímum kalda stríðsins. Allar árásirnar eiga það sameiginlegt að ofbeldismennirnir hafa verið „einstæðingar“ eða „einmana úlfar“, sem skipuleggja og fremja glæp sinn einir síns liðs, eða í mesta lagi með fáeinum öðrum, án neinna beinna tengsla við stærri samtök.

Það er illmögulegt að verjast slíkri vá, því að samhliða þeirri breytingu, að „einstæðingarnir“ fremja illvirki sín í nafni hinna stærri samtaka frekar en að samtökin sjálf standi að þeim með beinum hætti, hefur þröskuldur ofbeldisins lækkað svo um munar. Allir eru ásættanleg skotmörk, og nánast engin leið er að segja til um hvar næsti ofbeldismaður ákveður að láta til skarar skríða, þó að vissulega megi greina ákveðin mynstur í árásunum.

Þá er ekki víst að þær lausnir sem helst myndu duga séu ásættanlegar fyrir samfélög sem vilja vera opin og frjáls. Þýsk yfirvöld ætla sér nú til að mynda að auka eftirlit á flugvöllum og lestarstöðvum við suðurlandamæri Þýskalands, en illmögulegt er að ætla sér að koma í veg fyrir árásir eins og þá sem varð við Würzburg, þar sem unglingur með sveðju réðst á farþega í lest, nema með öryggisleit á borð við þá sem tíðkast á flugvöllum. Slíkt myndi gera lestarsamgöngur mjög tímafrekar og óhagkvæmar, að því ónefndu að þá myndu árásarmennirnir aðeins færa sig annað þar sem fólk kemur saman.

Þá er oft erfitt að ætla sér að greina fyrirfram hvaða einstaklingar það eru, sem líklegir eru til þess að valda nærumhverfi sínu skaða. Eftir á er oft hægt að benda á atriði, líkt og að viðkomandi hafi tekið út ákveðnar bækur á bókasafni, eða spilað tiltekna gerð tölvuleikja, eða leitað að vissu efni á netinu. Gallinn er bara sá, að fjölmargir aðrir einstaklingar lesa sömu bækur og fara á sömu heimasíður án þess að þeir grípi til ofbeldis eða hafi nokkurn hug á að gera það. Niðurstaðan gæti orðið óbærilegt þjóðfélag, ef vestræn ríki færu að herða eftirlit sitt með „hugrenningaglæpum“ af því tagi.

Í millitíðinni er þó eitt, sem gæti komið að einhverju haldi. Líkt og starfsemi hryðjuverkasamtakanna fjaraði út eftir fall Sovétríkjanna, eru ágætar líkur á að draga myndi úr árásum „einstæðinganna“ ef þeir hefðu ekki lengur beina hvatningu til ofbeldis frá Ríki íslams. Endalokum samtakanna þarf því að flýta svo sem auðið er.