Nú eru þær breytingar að verða að erlendir aðilar eru að hasla sér völl í íslenskri verslun í auknum mæli.

Nú eru þær breytingar að verða að erlendir aðilar eru að hasla sér völl í íslenskri verslun í auknum mæli. Nýlega var tilkynnt um að sænska verslunarkeðjan H&M myndi opna verslun í Smáralind og viðræður séu í gangi við þá um að opna verslun í Kringlunni líka. Einnig eru staðfest áform Costco um opnun verslunar á næstu misserum. Fyrir var svo verslun Bauhaus með vörur fyrir hús, heimili og garða. Þessar verslanir verða í eigu og reknar af erlendum móðurfélögum þeirra.

„Ég fagna komu H&M. Það hafa margir verið að reyna að fá þá til landsins í gegnum tíðina. Það er óeðlilegt að stór hluti verslunar landsmanna sé annars staðar en hér á landi. H&M hefur haft 40% af verslun með barnafatnað og 25% af verslun með kvenfatnað. Það er því fagnaðarefni að þessi viðskipti flytjist inn í landið og að ríkissjóður fái auknar tekjur af þessum umsvifum. Þar fyrir utan hafa þeir mikið aðdráttarafl fyrir verslanir í kring. Við viljum bara vera nálægt þeim. Við óttumst ekki að þeir taki viðskipti frá okkur. Við erum íslenskt fyrirtæki og skiljum íslenska markaðinn. Það eru sífelldar breytingar á markaðnum og við getum brugðist miklu hraðar við breytingum í eftirspurn heldur en risi á borð við H&M. Að auki eru þeir ekki á nákvæmlega sama markaði og við. Þeir komast þó næst því að vera á sömu slóðum og lægsti verðflokkurinn í Gallerí Sautján en það setur okkur þá á tærnar að gera enn betur og öðruvísi. Svava segist hafa gaman af áskorunum og hún kvíði þessari ekki. „Þetta verður okkur bara hvatning til að gera enn þá betur.“