Leikstjórn Guðmundur Arnar situr á milli aðalleikaranna þeirra Blæs Hinrikssonar og Baldurs Einarssonar.
Leikstjórn Guðmundur Arnar situr á milli aðalleikaranna þeirra Blæs Hinrikssonar og Baldurs Einarssonar.
Hildur Loftsdóttir hildurl@mbl.is Kvikmyndin Hjartasteinn er fyrsta íslenska kvikmyndin sem öðlast þann heiður að keppa á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, sem er ein allra virtasta hátíð heims. Hátíðin fer fram frá 31. ágúst til 10.

Hildur Loftsdóttir

hildurl@mbl.is

Kvikmyndin Hjartasteinn er fyrsta íslenska kvikmyndin sem öðlast þann heiður að keppa á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, sem er ein allra virtasta hátíð heims. Hátíðin fer fram frá 31. ágúst til 10. september og verður kvikmyndin þá heimsfrumsýnd. Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri og handritshöfundur Hjartasteins , er vitanlega í skýjunum. „Við hefðum ekki getað óskað okkur betri byrjunar fyrir myndina,“ segir hann.

Boðið að keppa í nokkrum flokkum

Hjartasteinn er fyrsta kvikmynd Guðmundar Arnars í fullri lengd, en hann hefur áður gert margverðlaunaðar stuttmyndir, en myndin Hvalfjörður vann til 45 verðlauna á kvikmyndahátíðum víðs vegar um heiminn og hlaut sérstök dómnefndarverðlaun í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Cannes árið 2013.

Flokkurinn sem Hjartasteinn keppir í á kvikmyndhátíðinni í Feneyjum nefnist Venice Days. Inn í þann flokk voru einungis 11 myndir valdar, en hátt í eitt þúsund kvikmyndir alls staðar að úr heiminum sóttu um.

Hjartasteinn keppir um þrenn verðlaun í sínum flokki ásamt því að keppa um Luigi De Laurentiis Award - Lion of the Future, sem allir leikstjórar sem keppa á hátíðinni með sína fyrstu mynd koma til greina sem sigurvegarar í. „Í raun eru það stærstu verðlaunin sem leikstjóri fyrstu myndar getur fengið á hátíðinni,“ segir Guðmundur Arnar.

„Markmiðið var alltaf að ná að frumsýna á stórri A-hátíð, en þar sem engar íslenskar myndir hafa verið valdar inn á Feneyjahátíðina, þá héldum við að þeir væru kannski ekkert spenntir fyrir íslenskum myndum. Þess vegna kom mjög á óvart að vera boðið að keppa í þónokkrum flokkum.“

- Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir þig sem kvikmyndahöfund?

„Þetta einfaldar fyrir mig að taka næstu skref fyrir næstu verkefni, það hjálpar allt til,“ segir hann.

Miklar tilfinningar

„Þetta er vináttusaga tveggja stráka, 13 og 14 ára, sem alast upp í litlu sjávarþorpi og hvernig þeir fara svolítið hvor í sína áttina á kynþroskaskeiðinu,“ segir höfundurinn sem vill samt ekki gefa of mikið upp um söguþráð myndarinnar. „Kjarni myndarinnar er þessi vinátta og hvernig þeir takast á við nýjar tilfinningar þegar þeir eru að verða að mönnum. Fjölskylda strákanna leikur líka stórt hlutverk, og í myndinni eru sterkir kvenkarakterar, eins og systur þeirra og stelpa sem annar strákurinn er skotinn í.“

Guðmundur Arnar segist byggja karakterana mikið á fólki í kringum sig. „Ég á sjálfur nokkrar systur sem ég byggi á, líka á mínu umhverfi, en svo er sagan sjálf skáldskapurinn.“

- Þannig að þú byggir kannski á sjálfsævisögulegum tilfinningum?

„Já, því fyrir mér voru unglingsárin rosalega mikið sjokk. Ég held að mjög margir gangi í gegnum miklar tilfinningar á þessum tíma. Það er svo mikið af hlutum sem maður upplifir á stuttu tímabili; stórar breytingar, fyrsta ástin, fyrstu vinslitin. Maður uppgötvar að heimur fullorðinna er öðruvísi en maður hélt að hann væri. Það er svo margt sem fer í gegnum mann á nokkrum mánuðum sem unglingur.“

Að byggja á sannleikanum

Guðmundur Arnar segir aðalleikarana í Hjartasteini , sem allt eru ungir krakkar, vera að stíga sín fyrstu skref sem leikarar. „Myndin hefur fengið sérstaklega góðar viðtökur út á leik krakkanna, enda standa þau sig alveg frábærlega.“

- Ert þú þá ekki bara svona góður leikstjóri?

„Sko... ég myndi segja að þetta væri samspil milli mín og krakkanna. Þau voru tilbúin að leggja svo mikið á sig og ég leyfði þeim það, ég ýtti undir það. Þar af leiðandi varð leikurinn frábær.“

- En áttu ekki mjög auðvelt með að vinna með börnum?

„Það er mjög ólíkt að vinna með atvinnuleikurum og börnum. Börnin verða að byggja á einhverju sem þau þekkja, sannleikanum. Maður getur ekki krafið krakka um að vera einhver annar en hann er, á meðan atvinnuleikari getur búið til hlutverkið. Börn taka úr sínum eigin grunni og ýkja það upp og maður þarf að hjálpa þeim að finna hlutina til að nota.“

- Þannig að styrkleiki myndarinnar liggur aðallega í leiknum?

„Það eru mjög margir styrkleikar, og ekki síst myndræna hliðin. Við erum með mjög sterkan kvikmyndatökumann, leikmyndahönnuð og samstarfsfólk yfirhöfuð. Í raun lögðu allir sig fram alveg frá byrjun við að gera mynd sem myndi ná langt og við náðum því markmiði. Leikur krakkanna er svo bara punkturinn yfir i-ið.“

Langaði að vera leikari

Guðmundur Arnar kom úr óvæntri átt inn í kvikmyndagerðina. Hann útskrifaðist frá myndlistardeild LHÍ en ekki úr kvikmyndagerðarskóla.

„Ég komst að því að maður getur lært af því að gera bara hlutina og það reyndist nóg fyrir mig að vera með myndlistargrunn á háskólastigi,“ útskýrir Guðmundur Arnar. „Ég var í leiklist þegar ég var yngri og langaði alltaf til að vera leikari. En þegar mér var leikstýrt þá fattaði ég að ég var mjög oft ósammála leikstjóranum og vildi frekar vera í hans stöðu að segja fólki hvernig ætti að gera hlutina.“

Guðmundur Arnar fór líka á námskeið í handritaskrifum í Danmörku sem hann segir að hafi reynst mjög góður grunnur. „Að læra á sagnaform var einmitt það sem mig vantaði og hafði ekki úr myndlistarskólanum.“

Næstu sögur eru farnar að hrúgast upp hjá Guðmundi Arnari og hann er þegar byrjaður að leggja drög að tveimur næstu kvikmyndum. Aðra segir hann líka fjalla um ungt fólk en sé þó í öðrum stíl en Hjartasteinn , og hin sé allt öðruvísi; ævintýra- og víkingamynd.

- En hvenær verður kvikmyndin Hjartasteinn frumsýnd á Íslandi?

„Það er í raun ekkert ákveðið um það, en að öllum líkindum verður það í kringum næstu áramót,“ segir Guðmundur Arnar kvikmyndahöfundur að lokum. Þeir sem geta ekki beðið eftir að fá að kynnast verkum hans, geta horft á stuttmyndina Hvalfjörður sem er núna á VODinu.