Sigurlín Hermannsdóttir yrkir um „Heilsufarið í Koti“: Karlinn sem bjó uppi á klakanum var kvalinn og þjáður af rakanum og kerling með verki því víst bar þess merki að í sextíu ár sat hún á hakanum.

Sigurlín Hermannsdóttir yrkir um „Heilsufarið í Koti“:

Karlinn sem bjó uppi á klakanum

var kvalinn og þjáður af rakanum

og kerling með verki

því víst bar þess merki

að í sextíu ár sat hún á hakanum.

Og enn yrkir hún á Boðnarmiði:

Þorvaldur sagði oft: þarnana,

við þurfum að hugsa um kjarnana.

Er hitti hann Önnu,

það orð voru að sönnu

en þá var hann búinn að barn'ana.

Hreinn Guðvarðarson vissi sínu viti:

Bölvaður asninn að barn'ana

betra að grípa til varnanna

því svoleiðis má

setja upp á

toppinn í upphafi tarnanna.

Gylfi Þorkelsson var á ferð í Flóanum:

Áði hjá Urriðafossi

(ekki þó ferðast á hrossi).

Þá spurn nú fram ber

sem brennur á mér:

Líður að kveðjukossi?

Guðmundur Stefánsson svaraði:

Ekki verður brögnum byrði

að beisla þennan foss.

En hinsta kveðja eflaust yrði

ansi blautur koss.

Og Guðrún Bjarnadóttir greip tækifærið og lék sér með rím og hljóm:

Að kyssa fossa er klossað,

þó kannski tosist fólk hissa

þangað þesslega bossað

að þyki vissara að pissa.

Gylfi Þorkelsson kom víðar við á Suðurlandi:

Vel haldinn, úr hungri ei dey

og á Hótel Dyrhólaey

engu ég kvíði

þó kvöldverðar bíði

því allt er í harðindum hey.

Og hreifst af fegurð staðarins:

Um er að litast, ládauður sjór,

lyfta sér drangar úr hafi.

Himinninn falinn, fuglinn er rór,

fjaran skreytt öldunnar trafi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is