Reynsluboltar Bára Grímsdóttir og Chris Foster hafa meðal annars komið fram í Evrópu, Norður-Ameríku og Kína.
Reynsluboltar Bára Grímsdóttir og Chris Foster hafa meðal annars komið fram í Evrópu, Norður-Ameríku og Kína.
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Við erum hjón þannig að það er yfirleitt þægilegt að finna æfingatíma,“ segir söng- og kvæðakonan Bára Grímsdóttir kímin en hún efnir til tónleika ásamt Chris Foster í Norræna húsinu í kvöld klukkan 20.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Við erum hjón þannig að það er yfirleitt þægilegt að finna æfingatíma,“ segir söng- og kvæðakonan Bára Grímsdóttir kímin en hún efnir til tónleika ásamt Chris Foster í Norræna húsinu í kvöld klukkan 20.30. Tvíeykið, sem nefnist FUNI, heldur tónleikana undir hatti tónleikaraðarinnar Arctic Concerts sem hefur staðið yfir í sumar. Hjónin hafa á síðustu árum blásið lífi í íslensk þjóðlög sem leynast í gömlum hljóðritum, lítt þekktum bókum og handritum auk þess sem þau hafa bætt við nýjum lögum í þjóðlegum stíl.

Tónsetja verk Jóns Steingríms

„Við reynum að vera ekki alltaf með þessi þekktustu lög heldur grafa frekar upp gamalt efni sem hefur til að mynda verið varðveitt í Árnastofnun. Kvæðamannafélagið Iðunn á líka gamlar upptökur sem við höfum gluggað í. Síðan höfum við líka tónsett gamla texta og reynt að gera það í þessum gamla íslenska þjóðlagastíl. Íslendingar hafa verið rosalega duglegir að yrkja í gegnum tíðina og það hefur verið haldið nokkuð vel utan um það á söfnum þó svo það hafi kannski ekki mikið af því verið gefið út. Það hefur náttúrlega verið gefið mest út eftir Hallgrím sálmaskáld en það voru fleiri prestar sem gerðu mögnuð kvæði. Þar er hægt að nefna eldklerkinn Jón Steingrímsson en hann gerði til dæmis magnað verk um móðuharðindin sem heitir Angurvaka. Jón spilaði sjálfur á langspil og okkur fannst því við hæfi að spila á tvö langspil þegar við flytjum það verk,“ segir Bára. Í tilkynningu segir að flest þjóðlaganna hafi verið sungin án undirleiks áður fyrr en að FUNI bæti hljóðfæraleiknum við. Þá segir jafnframt að tónleikum þeirra fylgi gjarnan mögnuð skyggnimyndasýning með gömlum og nýjum myndum.

„Við höfum bæði verið að spila íslenska og enska þjóðlagatónlist í gegnum tíðina. Á tónleikunum í kvöld komum við til með að syngja og leika á ýmis hljóðfæri. Ég mun til að mynda spila á litlar borðhörpur og Chris er afskaplega flinkur gítarleikari og notar það sem hefur verið kallaður enskur stíll en hann notast þá við ýmsar stillingar á gítarnum sínum. Hann var einn af frumkvöðlum þess að koma með gítarinn inn í þjóðlagatónlistina á Englandi á sjötta og sjöunda áratugnum. Við munum spila efni sem við höfum unnið í gegnum árin en svo leikum við einnig nýlegra efni,“ segir Bára en þess má geta að Foster er að vinna að nýrri sólóplötu um þessar mundir.

Ferðast um allan heim

Í tilkynningu segir að Bára hafi alist upp við söng og kveðskap og hafi heyrt og lært kveðskap foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal. Það var um aldamótin sem hún kynntist Foster sem ólst upp í Somerset á Suðvestur-Englandi. Síðastliðin fjörutíu ár hefur hann flutt enska þjóðlagatónlist á tónleikum víðsvegar um heiminn og gefið út sex plötur með eigin söng og gítarundirleik. Þá segir að lifandi tónlistarflutningur hans einkennist af kraftmiklum söng og góðum gítarleik, fágaðri kímnigáfu hans og eldmóði.

Hjónin hafa á síðustu árum haldið námskeið og komið fram á ýmsum hátíðum og tónleikum hér heima og víða í Evrópu, Norður-Ameríku og Kína. Fróðlegt verður því að sjá hvernig sú reynsla skín í gegn á tónleikunum í kvöld.