[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
10. umferð Benedikt Grétarsson bgretarsson@mbl.is Kanadíski framherjinn Cloe Lacasse fór á kostum með ÍBV þegar Eyjakonur unnu Þór/KA 5:3 í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta.

10. umferð

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@mbl.is

Kanadíski framherjinn Cloe Lacasse fór á kostum með ÍBV þegar Eyjakonur unnu Þór/KA 5:3 í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta. Lacasse skoraði tvö mörk og lagði upp tvö mörk fyrir samherja sína í leiknum.

Cloe Lacasse er sá leikmaður sem Morgunblaðið fjallar sérstaklega um eftir 10. umferðina.

„Cloe er rosalega duglegur leikmaður og með mikla leikgleði. Hún gefst aldrei upp og leggur sig alla fram í verkefnið,“ sagði Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði ÍBV, um samherja sinn.

Britney-lög í klefanum

„Hún er ekkert með alltof mikil læti eða eitthvað svoleiðis en er samt mjög hress. Hún sér t.d. um tónlistina í klefanum. Þar spilar hún þá tónlist sem er heitust hverju sinni og hendir svo í gamla góða Britney Spears-slagara inn á milli.“

ÍBV fór ekki vel af stað í deildinni og Lacasse fann sig ekki frekar en aðrir framherjar liðsins. Í sjöundu umferð skoraði hún svo tvívegis gegn KR og hefur síðan átt hvern stórleikinn á fætur öðrum.

„Það gekk illa hjá okkur í byrjun tímabils að skora og við töpuðum leikjum oft naumlega. Maður var aðeins byrjaður að hafa áhyggjur af því að hún var ekki byrjuð að skora en með fyrsta markinu fór þetta að rúlla af stað. Þá fóru hlutirnir að ganga upp hjá henni og þetta varð stöngin inn en ekki stöngin út.“

Sóley er þeirrar skoðunar að Lacasse sé einn af betri framherjum deildarinnar.

„Já, ég myndi klárlega segja það. Hún getur haldið bolta vel, klárað færin og er með svakalegan hraða. Hún hefur allan pakkann. Það er líka mjög jákvætt hversu vel hún hefur leikið í bikarkeppninni og vonandi heldur hún því áfram. Vonandi blómstrar hún 12. ágúst í bikarúrslitaleiknum gegn Breiðabliki.“

Líður mjög vel í Eyjum

Lacasse er ein af sex erlendum leikmönnum ÍBV og hefur smellpassað inn í stemninguna sem einkennir þetta skemmtilega samfélag.

„Já, algjörlega. Litlu stelpurnar hér í Eyjum sem æfa fótbolta dýrka hana. Það er búið að vera svolítið þannig hjá okkur að þegar við fáum leikmenn, hvort sem þeir koma frá Íslandi eða öðrum löndum, þá líkar þeim dvölin í Eyjum vel og vilja helst alltaf koma aftur. Það hefur verið erfitt að fá íslenska leikmenn en þegar þeir koma, þá smella þeir oftast inn í þetta.“

Ekki er hægt að sleppa því að minnast á Þjóðhátíðina sem er handan við hornið en þar mun sú kanadíska taka þátt af fullum krafti.

„Já, það er búið að fara með hana á eina Þjóðhátíð og henni fannst það alveg geðveikt. Hún getur ekki beðið eftir helginni. Hún er inni í hvítu tjöldunum og komin inn í allar hefðirnar þó að hún hafi bara farið einu sinni á Þjóðhátíð.

Við ætlum að slaka aðeins á með Húkkaraballið en verðum tilbúnar þegar MC Gauti mætir,“ sagði Sóley létt að lokum.

Cloe Lacasse
» Hún er 23 ára, fædd 7. júlí 1993 í Kanada.
» Cloe lék með Iowa-háskóla í fjögur ár, þar sem hún skoraði 43 mörk í 86 leikjum.
» Lék 17 leiki í Pepsi-deild með ÍBV 2015 og skoraði sjö mörk.
» Hún starfaði í dýraathvarfi í Iowa og hefur unnið að Polar Plunge-verkefninu, sem styrkir fatlað íþróttafólk til þátttöku á Ólympíumóti fatlaðra.