[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓL 2016 Þorsteinn F. Halldórsson tfh@mbl.is „Mér finnst að ég eigi eftir að laga nokkrar æfingar en ég er í raun tilbúin.

ÓL 2016

Þorsteinn F. Halldórsson

tfh@mbl.is

„Mér finnst að ég eigi eftir að laga nokkrar æfingar en ég er í raun tilbúin. Við eigum smá tíma eftir áður en mótið hefst og það ætti að vera nægur tími til að fínpússa hreyfingarnar,“ segir Irina Sazonova, fimleikakona sem fer á Ólympíuleikana í Ríó fyrir hönd Íslands.

Morgunblaðið hitti hana um hádegisbilið í gær í Ármannsheimilinu og tók hana tali. Hún var þá í miðri æfingatörn með þjálfara sínum, Vladimir Antonov. Irina varð fyrsta íslenska konan sem öðlast hefur keppnisrétt á Ólympíuleikum í fimleikum þegar hún tryggði sér þátttökurétt í gegnum undankeppni í áhaldafimleikum sem átti sér stað í Ríó í apríl.

Irina fæddist í Rússlandi árið 1991. Hún byrjaði í fimleikum fjögurra ára gömul í heimaborg sinni Vologda en fluttist til Sankti Pétursborgar fyrir 11 árum eftir andlát móður sinnar. Þar var Irina í heimavistarskóla fyrir ungt íþróttafólk og keppti í fimleikum fyrir hönd borgarinnar. Fyrir þremur árum flutti hún síðan til Íslands og fékk íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári.

Setur stefnuna á úrslitin

Undirbúningsæfingarnar verða á Íslandi til laugardags en á sunnudaginn flýgur hún út til Ríó. Það er langt ferðalag, um 14 klukkutímar. Hún tekur þátt í opnunarhátíðinni 5. ágúst og tveimur dögum síðar er keppnisdagurinn þar sem Irina mun stíga á gólfið kl. 7 að kvöldi.

„Ég hef það markmið að gera æfingarnar án mistaka og tölulega markmiðið er 54 stig. Þegar ég fór í undankeppnina fyrir Ólympíuleikana náði ég 53 stigum og stefni á að gera enn betur. Fyrir mig væri það besti árangur sem ég hef náð og það gæti dugað mér til að komast í úrslitin. En þarna er auðvitað samankomið besta fimleikafólk heims og ekkert gefið.“ Hún myndi sjálf veðja á sigur hinnar bandarísku Simonu Biles.

Niðurstaðan mun ráðast eftir eitt rennsli. Hún keppir fyrst í stökki, síðan tvíslá, jafnvægisslá og loks gólfæfingum. Þá eru valdir keppendur í einstaka áhöldum og 24 keppendur í úrslit í fjölþraut. Irina stefnir á úrslitin í fjölþraut en gerir sér ekki væntingar um að komast lengra í einstaka áhöldum, það geta aðeins þær allra bestu. Að sögn Irinu felst styrkleiki hennar einmitt í fjölhæfninni, að vera jöfn á flest áhöld.

Mikilvægast að forðast meiðsli

Síðustu dagana er mikilvægt að skerpa á hreyfingunum en jafnfamt að gæta þess að líkaminn sé í toppstandi þegar út er komið. Irina hefur ekki getað æft að fullu vegna þess að hún hefur verið slæm í aftari hluta lærisins. Í ákveðnum splittstökkum kemur teygja á lærið sem hún þarf að vara sig á.

„Nú skiptir mestu máli að passa mataræðið, svefninn og að halda líkamanum heilum vegna þess að þetta er svo viðkvæmt tímabil. Ef það verða einhver meiðsli þá missir maður tíma til að æfa og glatar í raun tækifærinu. Það er líka lykilatriðið að æfa rútínuna svo vel að hún komi algjörlega af sjálfri sér á gólfinu,“ segir Irina og bætti í lok viðtalsins við að það væri mikill heiður að fá að keppa á Ólympíuleikunum fyrir hönd Íslands.