Á hjara veraldar Heldur kuldalegt er um að litast í herstöðinni Station Nord þótt þar sé nú hásumar. Moka þarf snjó frá vinnusvæðinu.
Á hjara veraldar Heldur kuldalegt er um að litast í herstöðinni Station Nord þótt þar sé nú hásumar. Moka þarf snjó frá vinnusvæðinu. — Ljósmynd/Ístak
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Starfsmenn Ístaks vinna við afar sérstakar aðstæður á einu af nyrstu byggðu bólum heims. Þeir vinna að endurnýjun búnaðar í dönsku herstöðinni Station Nord, nyrst á Grænlandi.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Starfsmenn Ístaks vinna við afar sérstakar aðstæður á einu af nyrstu byggðu bólum heims. Þeir vinna að endurnýjun búnaðar í dönsku herstöðinni Station Nord, nyrst á Grænlandi. Herstöðin er svo norðarlega og afskekkt að hún er að mestu utan fjarskiptasambands.

Danskt systurfélag Ístaks, Per Aarsleff AS, tók að sér endurnýjun eldsneytistanka og lagna í tveimur nyrstu herstöðvum danska hersins, Station Nord og Daneborg sem báðar eru í þjóðgarðinum mikla á austurströnd Grænlands. Þær eru mannaðar af Sirius-hundasleðasveitum hersins og gegna einnig hlutverki í rannsóknum.

Gröfurnar fluttar í pörtum

Ásamt undirverktaka sínum, Teknis, leggur Ístak til meginhluta starfsmannanna tólf sem þar eru í sumar. Framkvæmdum í Daneborg lauk í fyrra og Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, segir stefnt að því að ljúka verkinu í Station Nord í sumar.

Snjóa leysir í Station Nord í byrjun júlí og aftur er kominn vetur undir lok ágúst. Það er glugginn sem verktakafyrirtækin hafa til að vinna verkið. Karl segir að vinna á þessum stað krefjist mikillar skipulagningar og kostgæfni, jafnt við innkaup, flutninga og framkvæmd sjálfs verksins. Nefnir hann sem dæmi að allir flutningar fari fram með flutningaflugvélum danska hersins. Hafa þurfi öll aðföng með og ekkert megi út af bregða því erfitt sé að bjarga sér á þessum afskekkta stað. Þannig þurfi allt efni og öll tæki að vera í einingum sem passi inn í flutningaflugvélarnar. Nefnir sem dæmi að taka þurfi gröfurnar í sundur fyrir flutninginn og setja aftur saman á vinnustað. Þá hafi þurft að setja lítil dekk undir hjólaskóflu til að koma henni inn um dyr flugvélarinnar.

Viðfangsefni starfsmannanna er óvenjulegt og segir Karl að þeir hafi verið spenntir fyrir því. Allir eru þeir vanir að geta notað steypu frá steypustöð og fá henni ekið heim að dyrum en í Station Nord þurfa þeir að hanna steypuframleiðslulínu og blanda steypu.

Samfelld vinna í 50 daga

Vegna þess hversu framkvæmdatíminn er skammur er reynt að hafa sama mannskapinn í verkinu, skipta sem minnst út. Mennirnir sem fóru til Grænlands í byrjun júlí koma ekki til baka fyrr en langt er liðið á ágúst.

Stöðin er utan við allt venjulegt fjarskiptasamband. Aðeins er hægt að skrifa textaskilaboð og ekki hægt að senda teikningar eða myndir á milli og heldur ekki fara á netið eða Facebook. Starfsmenn og stjórnendur geta þó látið í sér heyra um gervihnattasíma, ef á þarf að halda.