Kórinn Kolbeinn Kárason Leiknismaður skallar en HK-ingarnir Aron Ýmir Pétursson, Jökull I. Elísabetarson og Guðmundur Þór Júlíusson fylgjast með. HK lagaði stöðu sína í fallbaráttunni en Leiknir missti dýrmæt stig í toppslagnum.
Kórinn Kolbeinn Kárason Leiknismaður skallar en HK-ingarnir Aron Ýmir Pétursson, Jökull I. Elísabetarson og Guðmundur Þór Júlíusson fylgjast með. HK lagaði stöðu sína í fallbaráttunni en Leiknir missti dýrmæt stig í toppslagnum. — Morgunblaðið/Þórður
Óhætt er að segja að gærkvöldið hafi verið kvöld óvæntra atburða þegar 13. umferð Inkasso-deildarinnar var leikin. Þrjú efstu lið deildarinnar töpuðu stigum gegn liðum sem eru í bullandi botnbaráttu.

Óhætt er að segja að gærkvöldið hafi verið kvöld óvæntra atburða þegar 13. umferð Inkasso-deildarinnar var leikin. Þrjú efstu lið deildarinnar töpuðu stigum gegn liðum sem eru í bullandi botnbaráttu.

Óvæntustu úrslitin verða að teljast 1:0 sigur Hauka gegn KA fyrir norðan. KA hefur verið á mikilli siglingu á meðan ekkert hefur gengið hjá Haukum. Renato Livramento skoraði sigurmark Hauka sem misstu Hauk Ásberg Hilmarsson af velli með rautt spjald, aðeins fimm mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Þetta er aðeins annað tap KA í deildinni í sumar og bæði töpin hafa verið gegn Haukum.

Leiknir Reykjavík hefði getað nýtt sér þetta óvænta tap KA með því að leggja HK í Kórnum en þar voru það Kópavogspiltar sem höfðu betur, 2:1, í hörkuleik. Leiknismaðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson fékk tvö gul spjöld í uppbótartíma og þar með rautt.

Hörmulegt gengi Þórs

Þór frá Akureyri tapaði sínum fimmta leik í röð þegar liðið tapaði 2:1 gegn Fram. Þórsarar voru í fínum málum í deildinni í byrjun júlí en eftir þessa taphrinu fjarlægjast þeir toppbaráttuna hægt og rólega.

Fjarðabyggð og Leiknir Fáskrúðsfirði skildu jöfn í grannaslag á Eskifirði, 2:2. Þar tryggðu gestirnir frá Fáskrúðsfirði sér stig í þessum Austfjarðaslag þegar Ignacio Poveda jafnaði undir lok leiksins. Leiknir hefur þar með gert þrjú jafntefli í röð en situr þó áfram í botnsætinu með níu stig að loknum 13 umferðum.

Mikil dramatík var í Grindavík þar sem heimamenn náðu stigi gegn Hugin með marki í uppbótartíma. Flestir áttu von á öruggum sigri Grindvíkinga, sem hafa skorað liða mest á heimavelli í sumar. Gestirnir frá Seyðisfirði mættu hins vegar gríðarlega ákveðnir til leiks og leiddu 2:1 að loknum fyrri hálfleik. Grindavík nýtti ekki vítaspyrnu á 72. mínútu og allt benti til þess að Huginn tæki öll stigin sem í boði voru. Alexander Veigar Þórarinsson kom þá Grindavík til bjargar með marki á lokasekúndu uppbótartíma. bgretarsson@mbl.is