„Í dag býr skattkerfið til hvata fyrir fjármálafyrirtæki að innhýsa þjónustu,“ segir Friðrik um lagabreytingu sem hann myndi vilja gera.
„Í dag býr skattkerfið til hvata fyrir fjármálafyrirtæki að innhýsa þjónustu,“ segir Friðrik um lagabreytingu sem hann myndi vilja gera. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Friðrik Þór hefur í nógu að snúast. Verið er að innleiða nýtt innlána- og greiðslukerfi og stórt hjólreiðamót framundan. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Friðrik Þór hefur í nógu að snúast. Verið er að innleiða nýtt innlána- og greiðslukerfi og stórt hjólreiðamót framundan.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

RB er þessa dagana að takast á við eitt stærsta tækniverkefni sem farið hefur verið í á Íslandi, en félagið er að innleiða ný innlána- og greiðslukerfi með Íslandsbanka og Landsbankanum. Verkefnið er mjög krefjandi en skemmtileg áskorun sem kallar á þétta samvinnu margra aðila svo að allt gangi upp.

Hver var síðasta ráðstefnan

sem þú sóttir?

Það var reyndar ráðstefna sem við hjá RB héldum sjálf og hét Sú kemur tíð . Ég hlustaði þar á frábæran fyrirlestur frá Harper Reed sem var tæknistjóri í kosningabaráttu Obama árið 2012 og er í dag þróunarstjóri PayPal. Kynning hans fjallaði um mikilvægi gagna í allri vöruþróun og þjónustuveitingu og opnaði að ég held augu mjög margra fyrir því hvernig gögn eru hratt að verða gjaldmiðillinn sem knýr áfram stóran hluta af hinum stafræna heimi. Þú greiðir t.d. ekkert fyrir Facebook af því að þú ert varan, þ.e.a.s. öll gögnin sem þú veitir Facebook eru áframseld með ýmsu móti til annarra aðila.

Hvaða bók hefur haft mest

áhrif á hvernig þú starfar?

Ég hef stundum mælt með bókinni Switch – How to Change Things When Change is Hard eftir bræðurna Chip og Dan Heath. Þetta er besta bókin sem ég hef fundið um breytingastjórnun og ólíkt of mörgum stjórnendahandbókum, sem eru oft frekar þurrt lestrarefni, þá er bókin vel skrifuð og stútfull af skemmtilegum sögum og greiningum á velheppnuðum breytingarverkefnum. Ég er líka rétt að byrja að glugga í nýja bók sem lofar góðu og heitir The Seventh Sense: Power, Fortune, and Survival in the Age of Networks.

Hvernig heldurðu við

þekkingu þinni?

Ég byrja flesta morgna á því að lesa FT og les svo talsvert af greinum frá Gartner, McKinsey og sambærilegum fyrirtækjum. Ég hlusta einnig dálítið á FinTech Podcast-þætti og sæki líka stundum ráðstefnur sem á einhvern hátt tengjast þeim iðnaði sem ég starfa í, t.d. Sibos, Money2020 eða Gartner Symposium.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég stend í eilífri baráttu við fitupúkann og tapa allt of oft fyrir honum, þannig að hreinskilna svarið er að ég hugsa sennilega ekki nægilega vel um líkamann. Ég hreyfi mig þó reglulega. Ég hef tekið þátt í nokkrum maraþonum heilum og hálfum bæði hér heima og erlendis. Ég hef líka aðeins verið að hjóla og ætla að taka þátt í RB Classic núna í lok ágúst. Þannig ætla ég að bæta fyrir svikin loforð frá því í fyrra um þátttöku í mótinu. Í fyrra sannfærði ég góðan viðskiptavin, erlendan birgi, og litlu systir mína um að taka þátt í mótinu en gat svo ekki tekið þátt í því sjálfur, þar sem það var aðeins viku á undan Berlínarmaraþoninu sem ég var þá að æfa fyrir.

Ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu, hvað myndirðu læra?

Ef ég væri að byrja upp á nýtt í skóla myndi ég sennilega skella mér í einhvers konar verkfræði eða eðlisfræði, helst tengt himingeimnum. Ég er hins vegar löngu búinn að missa af þeim vagni þannig að í dag myndi ég vilja bæta við mig dýpri fagþekkingu á tilteknum sviðum fjármálamarkaðarins.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Ég leita að hugmyndum í gegnum samtöl við samstarfsfólkið mitt, viðskiptavini, fjölskyldu eða vini. Oft er gagnrýni innblástur að góðum breytingum og svo gerast stundum skrítnir hlutir í kollinum á manni þegar maður er að gera eitthvað allt annað en að vinna, t.d. úti að hlaupa eða í útilegu.

Ef þú værir einráður í einn dag, hvaða lögum myndirðu breyta?

Ég myndi líklega breyta skattkerfinu þannig að til yrðu sterkir hvatar sem myndu styðja fjármálafyrirtæki til að útvista þjónustu í auknum mæli. Í dag býr virðisaukaskattskerfið til sterka hvata fyrir fjármálafyrirtæki að innhýsa þjónustu sem mörg önnur fyrirtæki úthýsa, sbr. lögfræðiþjónustu, bókhaldsþjónustu, innheimtuþjónustu eða tækniþjónustu. Það væri áhugavert að skoða hvort ekki mætti búa til eðlilega hringrás fyrir virðisaukaskattinn sem leggst á aðkeypta þjónustu fjármálafyrirtækja með því að tengja hann á einhvern hátt við fjársýsluskattinn. Þetta gæti verið lykillinn að því að gera fjármálakerfið okkar eitt það hagkvæmasta í heimi, íslenskum neytendum og fyrirtækjum til bóta.