Kraftur Eyþór Ingi Gunnlaugsson á sviðinu og bókstaflega tryllir lýðinn.
Kraftur Eyþór Ingi Gunnlaugsson á sviðinu og bókstaflega tryllir lýðinn. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um 250 manns, tónlistarfólk og tæknilið, koma að tónleikunum sem haldnir verða á Dalvík á laugardagskvöldið, en þeir eru lokapunkturinn í dagskrá Fiskidagsins mikla. Ýmsir af best þekktu og vinsælustu tónlistarmönnum landsins koma fram við þetta...

Um 250 manns, tónlistarfólk og tæknilið, koma að tónleikunum sem haldnir verða á Dalvík á laugardagskvöldið, en þeir eru lokapunkturinn í dagskrá Fiskidagsins mikla. Ýmsir af best þekktu og vinsælustu tónlistarmönnum landsins koma fram við þetta tilefni. Þar má meðal annars nefna þrjá heimamenn; söngvarana Matthías Matthíasson, Eyþór Inga Gunnlaugsson og Friðrik Ómar Hjörleifsson, sem hefur framkvæmdastjórn og skipulagningu tónleikanna með höndum.

Einnig stíga á svið Gissur Páll Gissurarson, Selma Björnsdóttir, Regína Ósk, Karlakór Dalvíkur, Salka kvennakór, Helena Eyjólfsdóttir, Hulda Björk Garðarsdóttir, KK, BMX-hjólreiðasnillingar og stórhljómsveit Rigg-viðburða svo einhverjir séu nefndir.

Tónleikar þessir, sem eru í boði Samherja, eru með þeim stærri og viðameiri sem haldnir verða á Íslandi þetta árið. Endar skemmtun þessi með flugeldasýningu sem félagar í björgunarsveitinni á Dalvík sjá um. Raunar má segja að Fiskidagurinn mikli sé að hluta til tónlistarhátíð því nánast allan daginn verða á sviði hinir ýmsu tónlistarmenn, til dæmis heimafólk – sem þarna gefst kostur á að láta ljós sitt skína. sbs@mbl.is