Íbúðahverfi Fasteignir í eigu einstaklinga á Íslandi voru metnar á 3.276,8 milljarða í árslok 2015.
Íbúðahverfi Fasteignir í eigu einstaklinga á Íslandi voru metnar á 3.276,8 milljarða í árslok 2015. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is „Af skattframtölum ársins 2016 að dæma má ætla að hagur landsmanna hafi vænkast árið 2015. Eignir jukust og skuldir minnkuðu. Atvinnuástand fór batnandi, fleiri öfluðu tekna og fleiri greiddu skatta.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

„Af skattframtölum ársins 2016 að dæma má ætla að hagur landsmanna hafi vænkast árið 2015. Eignir jukust og skuldir minnkuðu. Atvinnuástand fór batnandi, fleiri öfluðu tekna og fleiri greiddu skatta. Tekjur og eignir hafa aftur náð hæstu hæðum og því má ætla að hagur landsmanna sé að vænkast.“ Þetta er niðurstaða Páls Kolbeins, rekstrarhagfræðings hjá Ríkisskattstjóra, í grein í nýútkominni Tíund, blaði embættisins. Páll hefur að venju greint skattframtöl einstaklinga, en ríkisskattstjóri lauk í júní sl. álagningu opinberra gjalda fyrir tekjuárið 2015.

Landsmenn töldu fram 922,8 milljarða í laun og starfstengd hlunnindi, bifreiðahlunnindi og önnur hlunnindi í skattframtali árið 2016.

Þessar greiðslur voru 68 milljörðum, eða 8%, hærri að raunvirði árið 2015 en árið 2014. Nær þrír fjórðu hlutar tekna einstaklinga eru laun og hlunnindi og því er hér um mikilvægasta tekjupóstinn að ræða.

Mikil hækkun launa

„Þá er jafnframt athyglisvert að vægi þessara tekna hefur aukist á síðustu árum. Árið 2007 voru laun og hlunnindi um 931,5 milljarðar, þau lækkuðu um 184,6 milljarða fram til ársins 2010, eða um 19,8% á þremur árum. Síðan hafa laun hækkað með auknum hraða ár frá ári, fyrst um 1,4% á milli áranna 2010 og 2011, þá um 3,2% og síðan um 3,1%.

Þau jukust um 6,1% á milli áranna 2013 og 2014 og nú síðast um 8%. Frá árinu 2010 hafa laun og hlunnindi aukist um 175,9 milljarða sem er hátt í fjórðungur eða 23,5%. Það má heita að launin séu nú búin að ná fyrri hæðum en ekki vantar nema 8,7 milljarða upp á að laun og hlunnindi skv. skattframtölum séu jafnhá nú og árið 2007,“ segir í grein Páls.

Bróðurpartur eigna einstaklinga er bundinn í fasteignum. Hér er um að ræða húsnæði, hús og íbúðir, lóðir, jarðir og jarðarparta, útihús og sumarbústaði í eigu einstaklinga. Fasteignir sem hafa verið færðar inn í eignarhaldsfélög koma ekki fram á skattframtali einstaklinga að öðru leyti en því að nafnverð hlutabréfa í félaginu sem stofnað var um eignirnar er talið fram.

Fasteignir í eigu einstaklinga voru metnar á 3.276,8 milljarða í árslok 2015. Fasteignamat hækkaði um tæpan 187,1 milljarð, eða 6,1% að raungildi á milli ára, að því er fram kemur í grein Páls Kolbeins.

Matsverð fasteigna hefur aukist um 635,5 milljarða frá árinu 2010. Það vantar þó enn 357,4 milljarða eða tæp 11% upp á að það nái árinu 2007 en þá hafði matsverð fasteigna u.þ.b. tvöfaldast frá aldamótum.

Matsverð fasteigna féll um hátt í þriðjung eða 27,3% fram til ársins 2010 en á þessu tímabili féll raunvirði fasteigna í eigu landsmanna um 992,8 milljarða. Síðan hefur það hækkað aftur um tæpt 24,1%.

„Það er vert að hafa í huga að fjárfestingafélög hafa verið umsvifamikil á undanförnum árum sem hefur leitt til þess að fasteignir sem áður voru í eigu einstaklinga og taldar fram sem slíkar eru nú í eigu fasteignafélaga,“ segir Páll.

Aukning á bankareikningum

Landsmenn áttu 405,6 milljarða á bankareikningum samkvæmt skattframtali 2008. Til samaburðar áttu landsmenn tæpa 509,9 milljarða á bankareikningum í árslok árið 2015.

Auk innstæðna í innlendum bönkum áttu 711 fjölskyldur sem voru á skattgrunnskrá hér á landi tæpa sjö milljarða á erlendum bankareikningum.

Eignir og skuldir
» Eignir einstaklinga á Íslandi voru samtals um 4.500 milljarðar á verðlagi í árslok 2015.
» Stærsti hluti eignasafnsins eru fasteignir, eða 3.276,8 milljarðar. Eftirstöðvar skulda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði voru 1.145,7 milljarðar.
» Landsmenn áttu því tæpan 2.131,1 milljarð í íbúðarhúsnæði.
» Eigið fé í íbúðarhúsnæði jókst um 13,1% milli ára.