Róbert Þröstur Skarphéðinsson fæddist á Hornafirði 18. janúar 1982. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 21. júlí 2016.

Hann var sonur Margrétar Sveinsdóttur og Skarphéðins Ólasonar. Róbert var yngstur fjögurra systkina, þau eru Sveinn Pálmi, Marteinn Óli og Svanhildur Rósa.

Útför Róberts fór fram frá Grafarvogskirkju 2. ágúst 2016.

Það dró ský fyrir sólu á þessu fallega sumri þegar við fréttum að þú værir sofnaður hinsta sinni, elsku strákurinn minn, og myndir ekki allt í einu birtast í kaffi með þitt fallega bros og sérstaka húmor, eða bara til að gefa eitt knús og falleg orð, Róbert minn.

Já, góður drengur hefur kvatt okkur. Þú varst svo hreinn og beinn og lást aldrei á þínum skoðunum þó að þær væru jafnvel alveg sérstakar.

Heiðarleiki, trygglyndi, gjafmildi og réttsýni einkenndu þig. Þú varst svo klár og áttir einstaklega gott með læra enda var árangurinn eftir því, með hæstu einkunn á lokaprófi fyrir hrl. Auðvitað dró sjúkdómurinn úr þér mikinn kraft og lífsgæði, en aldrei var kvartað. Þú barst í hljóði þinn sársauka og vanlíðan.

En nú kveðjumst við að sinni, við munum sakna þín óendanlega, en Guð mun gæta þín, trúaði strákurinn minn.

Uppáhaldssálmurinn þinn:

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Hvíldu í friði, sonur minn, þín,

mamma og Birkir.

Með hjörtu okkar yfirfull af söknuði og sorg minnumst við mæðgin litla bróður míns og sonur minn besta frænda síns.

Elsku yndislegi, sterki, gáfaði, blíði og verndandi Róbert okkar hefur nú kvatt þennan heim óvænt og alltof snemma.

Ég býst ennþá við því að þegar dyrabjallan hringir sért þú mættur í stussy-bol, nýklipptur og sætur í ullarsokkum í kaffi til okkar mömmu með þinn einstaka orðaforða og kolsvarta húmor, sem lét okkur oft á tíðum grenja úr hlátri.

Fjölskyldan okkar var gerð úr fimm stólpum. Við Janus, mamma, Birkir og þú, elsku Róbert, sem skilur eftir þig risa skarð í hjörtum okkar, hvað eigum við að gera? Alltaf höfum við lagt fimm diska á borð nánast dags daglega og um hátíðir, hvernig verða jólin? Þið Janus spiluðuð alltaf nýjasta fifa eða fylgdust spenntir með Chelsea-leik og hrópin og hlátrasköllin glumdu úr herberginu.

Mikið söknum við þín núna og munum alltaf sakna þín.

Gleði, Chelsea-aðdáun og órjúfanleg vináttubönd einkenndu samband ykkar Janusar og þú varst og munt alltaf vera hetjan hans, enginn mun geta fetað í þín fótspor í hans augum eða hjarta.

Við huggum okkur við að nú ertu frjáls úr sársaukafjötrum MS-verkja. Við trúum því að þið Erró hafið fengið hlýjar og kærleiksríkar móttökur fólksins okkar sem beið ykkar.

Þegar við hugsum til þín eru hjörtu okkar full af þakklæti og hlýju.

Við sjáum ykkur Erró fyrir okkur röltandi í rólegheitunum í endalausri birtu og vellíðan, eflaust hagar hann sér enn eins og hvolpur þótt hann hafi verið að verða 12 ára þegar hann kvaddi okkur í fanginu á þér umvafinn ást hinn 14. júní sl.

Við trúum því að nú sért þú, elsku trúaði Róbert okkar, með Erró þínum umvafinn öllum þeim kærleik og hlýju sem fólkið okkar, englarnir og Drottinn eiga til.

Kærleikskveðjur,

Svanhildur (Systa) og Janus Óli.

Elsku Róbert okkar.

Það er svo ótrúlegt að þú sért farinn frá okkur. Að við fáum aldrei aftur að sjá þig, tala við þig, faðma þig og heyra hláturinn þinn. Þennan hvella, fyndna hlátur sem fékk mann alltaf til að skella upp úr. Þú varst hrifsaður í burtu alltof snemma en eitt verður þó aldrei tekið frá okkur og það eru minningarnar um þig. Þær eru margar, góðar og hlýjar. Þegar þú varst barn komst þú t.d. oft með móður þinni og systkinum í sveitina á sumrin en eitt sumar fengum við að hafa þig hjá okkur í lengri tíma. Það var hlegið út í eitt allt sumarið. Leikið í gömlu fjárhúsunum, þuldar upp heilu útvarpsauglýsingarnar, djöflast á fjórhjólinu, (eða „á fjór-hjól-i-nu“ eins og þú sagðir það með syngjandi röddu og við veltumst öll um af hlátri því þar var verið að herma eftir einhverjum gömlum karli úr sveitinni). Þetta sumar fékkst þú gælunafnið Hróbjartur, sem festist við þig innan fjölskyldunnar, en það var ekki hver sem er sem hlaut slíkan virðingarvott. Sóley gleymir því seint þegar þið, þá aðeins þrettán ára gömul, fenguð að fylgja Maríu upp á fæðingardeild á Sauðárkróki þar sem hún var komin með hríðir. Þið ætluðuð nú aldeilis ekki að missa af fæðingu barnsins og þótti ykkur lítið mál að vera viðstödd slíkan gjörning þar sem þið höfðuð áður tekið þátt í sauðburði og svoleiðis. Þið vissuð alveg hvernig þetta færi allt fram. Þið röltuð niður á Ábæ og nöppuðuð þar hvítri rós til að færa sárkvalinni, verðandi móðurinni sem gat ekki annað en hlegið þegar þið komuð færandi hendi. Svo þegar ljósmóðirin tilkynnti ykkur að þið gætuð því miður ekki verið viðstödd, sennilega sökum aldurs, urðuð þið sármóðguð og fúl. Það lagaðist þó allt morguninn eftir þegar þið fenguð fregnir af hraustu sveinbarni sem og að berja drenginn augum. Það var ávallt yndislegt að heimsækja ykkur fjölskylduna á Álfhólsveginn og var eins og staðurinn hefði yfir sér eitthvað sérstakt aðdráttarafl. Sennilega var það þó helst fólkið sem bjó þar, svo hlýtt og skemmtilegt. Síðustu ár varð oft lengra á milli þess sem við heyrðum í þér og hittum þig en þegar það gerðist var alltaf gaman og iðulega voru rifjuð upp einhver bernskubrek. Elsku frændi, í minningu okkar varst þú mikill húmoristi, hlýr, verndandi, atorkusamur og duglegur og alltaf með mörg járn í eldinum. Góður Guð geymi þig og vaki yfir fjölskyldu þinni í sorginni.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Systkinin frá Héraðsdal,

Sigurður, María Ólöf

og Sóley Sigurðarbörn.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Einar Steingrímsson.)

Það var föstudaginn 22. júlí að við fengum þær sorgarfréttir að elsku frændi okkar, hann Róbert, væri dáinn langt fyrir aldur fram aðeins 34 ára. Okkur setti hljóð, lífið virðist oft svo ósanngjarnt. Við fjölskyldan eigum svo margar góðar minningar um hann alveg frá fyrstu tíð, en við bjuggum austur á Hornafirði þegar þar fæddist undurfallegur lítill strákur sem síðar fékk nafnið Róbert Þröstur. Hann dafnaði vel og óx úr grasi sprækur og fjörugur, en síðar þegar Róbert var 17 ára veikist hann, það var aðdáunarvert að fylgjast með honum taka lögfræðina með trompi svona veikan. Elsku Róbert, við kveðjum þig með söknuði og trega, við vitum að allt góða fólkið okkar sem farið er hefur tekið vel á móti þér.

Elsku Magga systir, Birkir, Svanhildur, Janus Óli, Marteinn Óli, Sveinn Pálmi, Skarphéðinn og fjölskyldur. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að veita ykkur styrk og þrek á þessum erfiðu tímum.

Kristín, Guðmundur, Unnar Þór, Brynjar Már og fjölskyldur.

Svanhildur systir þín hringdi í mig á föstudaginn, með fréttir sem ég er enn að meðtaka og er svo sannarlega ósáttur við, þú ert farinn.

Við höfðum verið vinir í 19 ár og jafnvel þótt við hefðum fjarlægst í gegnum árin, þá vissi ég að ég átti alltaf bróður að baki með þig. Sem svo sannarlega sýndi sig fyrir fáeinum mánuðum, þegar mig vantaði aðstoð og þú stökkst til, mun meira en tilbúinn til að hjálpa. Ég vona að þú hafir vitað, að það gekk á báða vegu. Upp frá þeim tíma byrjuðum við að hanga aftur saman og ég gat stutt þig á meðan þú misstir Erró. Þið eruð nú sameinaðir á ný. Ég er óendanlega þakklátur fyrir þessa mánuði. Þú varst og hefur alltaf verið minn besti vinur.

Ég man enn þá eftir því þegar ég hitti þig fyrst á göngunum í MK, í Dickies-hettuúlpunni og við fórum heim til þín á Álfhólsveginn, kafreyktum og hlustuðum á drum & base með strákunum í kjallaranum. Þú varst með mér daginn sem ég fékk bílpróf og við tókum þá fáránlegu ákvörðun, að fara í bíó. Ég fór út í hléinu, að keyra aftur, en fékk svo góðan skilning á enda myndarinnar, frá þér, þegar ég náði í þig. Við áttum ótrúlegar og skemmtilegar stundir saman á vínrauðu Ford Fiestunni minni. Þú varst meira að segja með mér þegar ég missti sveindóminn (auðvitað ekki inni í sama herbergi).

Mamma mín kallaði þig eiginlega frá upphafi heimalninginn sinn, ég held að hún hafi séð að við myndum fylgjast að ævilangt, sem því miður kom allt of snemma fyrir þig. Öll fjölskyldan mín þekkti þig og okkur þótti öllum svo innilega vænt um þig, það varst þú sem fannst upp heitið tonnatakskökurnar, þegar í aðventukaffi eitt árið þú lyftir upp marensköku og diskurinn fylgdi með (uppskriftin hafði eitthvað klikkað það árið).

Þú komst til mín sama dag og þú fékkst greininguna, MS, 17 ára... ekki eldri en það, í rauninni bara barn.

Við skiptumst oftast á kaldhæðnislegum skotum en við létum annað slagið viðkvæm eða góð orð falla til hvor annars en það var eitt sem ég sagði þér aldrei, sem ég hefði viljað gera en að skrifa það í minningargrein um þig verður víst að duga. Ég dáðist að þér, hvernig þú höndlaðir sjúkdóminn í upphafi, reifst þig upp, fórst í HÍ, dúxaðir lögfræðina og í dag er ég að fylgja þér til grafar, ótrúlega getur lífið verið svo óendanlega ósanngjarnt.

Hugur minn er allur hjá fjölskyldu þinni; Margréti, Skarphéðni, Svanhildi Rósu, Sveini Pálma og Marteini Óla, og vona svo innilega að þau viti að þú sért kominn á góðan stað, því þú áttir svo mikla og góða trú.

Að vera með tvíþættan sjúkdóm er ekkert grín enda er enginn hlæjandi, bara fullt af sorgmæddu fólki, horfandi á eftir ungum efnilegum manni sem fór allt of snemma. Mér þykir mjög vænt um þig gamli og veit að við munum hittast aftur.

Ég get ekki hugsað mér betri leið til að enda þetta á en:

Blár er liturinn, fótbolti er leikurinn.

Við erum öll saman, og stefnum á sigurinn.

Svo hvettu, okkur áfram, gegnum skúr og skin.

Því að Chelsea, Chelsea er okkar nafn.

Blessuð sé minning þín, elsku vinur.

Sverrir Gaukur Pálsson.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Róbert.
Þú háðir margar orrustur í þínu lífi. Í þeim sem kröfðust snilli og dugnaðar varst þú sigursæll. Í öðrum varstu síðri vopnum búinn.
Takk fyrir allar góðu stundirnar. Þú lifir áfram í minningu okkar. Hjartahlýr vinur. Húmoristi. Eldklár. Engum líkur.
Við vottum fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúð.
Gunnar Steinn og Fjalarr Páll Mánasynir.