Yfirkokkur Friðrik V. Karlsson er í aðalhlutverki á Dalvík að þessu sinni.
Yfirkokkur Friðrik V. Karlsson er í aðalhlutverki á Dalvík að þessu sinni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fersk bleikja með sítruskryddi og hvannarkryddi úr Hrísey, nýr þorskur í tikkamasala og kókosmjólk og léttsaltaðir þorskhnakkar með tómötum, ólífum og hvítlauk eru í öndvegi á matseðli Fiskidagsins mikla. Yfirkokkur nú, annað árið í röð, er Friðrik V.

Fersk bleikja með sítruskryddi og hvannarkryddi úr Hrísey, nýr þorskur í tikkamasala og kókosmjólk og léttsaltaðir þorskhnakkar með tómötum, ólífum og hvítlauk eru í öndvegi á matseðli Fiskidagsins mikla. Yfirkokkur nú, annað árið í röð, er Friðrik V. Karlsson og honum til fulltingis eru kona hans, Arnrún Magnúsdóttir, og Arnþór Sigurðsson. Allt fiskmeti er í boði Samherja, Kristjánsbakarí á Akureyri leggur til brauðið og drykkirnir eru frá Vífilfelli. Meðlæti, svo sem olíur, kryddlögur og grænmeti, kemur frá Ásbirni Ólafssyni heildverslun.

Fiskurinn er ferskur og góður

„Fiskurinn sem við fáum er alveg spriklandi ferskur og góður. Mér finnst gaman að vinna úr slíku hráefni,“ segir Friðrik V. Karlsson. „Alls útbúum við um 110.000 skammta af ýmsum gerðum og strax á þriðjudaginn hófst matargerðin sjálf, en undirbúningur þessa hefur staðið í margar vikur.“

Ýmsir sérréttir verða í boði á Fiskideginum mikla, það er annað fiskmeti en nefnt er hér að framan. Þannig munu árgangarnir 1965 og 1966 frá Dalvík matbúa fiskborgara á átta metra löngu gasgrilli og þá verður boðið upp á rækjurétti í ýmsum útgáfum, þar sem ýmsir leggja á borð. Einnig verður hægt að gæða sér á „fish and chips“ eins og það gerist í Bretlandi. Sæplast býður upp á stærstu pitsu landsins eða 120 tommur hvert stykki og er saltfiskur er aðaláleggið á pítsum þessum. Þær eru útbúnar í samvinnu við Greifann á Akureyri og starfsfólk þar.

Þá má nefna að Grímur kokkur í Eyjum og hans fólk mun bjóða gestum og gangandi upp á glútein- og eggjalausar fiskibollur sem – rétt eins og grænmetisrétturinn – verða með OMEGA 3-fitusýrum. Má ætla að það veki nokkra athygli, enda hafa tilbúnir réttir þessa framleiðanda í Eyjum um margt orðið til þess að breyta matarmenningu þjóðarinnar og auka fiskneyslu.

Sjálfboðaliðar í eldamennsku

Á þeim 16 árum sem Fiskidagurinn mikli hefur verið haldinn hefur Friðrik V. Karlsson staðið þar vaktina. Lengi var Úlfar Eysteinsson aðalkokkur, en í fyrra tók Friðrik við embætti hans og hefur þar haft í mörg horn að líta.

„Úlfar lagðir línurnar að því hvernig standa skyldi að matargerð á Fiskideginum mikla, við sækjum margt í smiðju hans og höfum fengið ýmis góð ráð,“ segir Friðrik. Í þessu stóra verkefni eru þau Friðrik og Arnrún Magnúsdóttir kona hans ekki ein, því þeim fylgir sveit um það bil 50 sjálfboðaliða sem koma að matargerð með ýmsum hópum. Alls eru sjálfboðaliðar sem eldamennsku og öðru slíku sinna á Fiskideginum mikla um 300 talsins, en almennt byggir hátíð þessi mjög á framtaki fjöldans. sbs@mbl.is