Það verður ekki annað sagt en að fyrrverandi forsetafrú okkar Íslendinga, Dorrit Moussaieff, hafi oft á þeim þrettán árum sem hún hefur haft þann titil gert lífið í kringum forsetann fráfarandi, Ólaf Ragnar Grímsson, bæði litríkara og skemmtilegra.

Það verður ekki annað sagt en að fyrrverandi forsetafrú okkar Íslendinga, Dorrit Moussaieff, hafi oft á þeim þrettán árum sem hún hefur haft þann titil gert lífið í kringum forsetann fráfarandi, Ólaf Ragnar Grímsson, bæði litríkara og skemmtilegra.

Ég hygg að meirihluti þjóðarinnar sé mér sammála í þessum efnum og sennilega hefði þjóðin aldrei haldið út að hafa Ólaf Ragnar sem forseta í öll þessi tuttugu ár, ef ekki hefði verið fyrir Dorrit og oft á tíðum óvænt, lífleg og skemmtileg útspil hennar, sem virðast frá upphafi hafa verið einkaframtak hennar, án samráðs við forsetann, sem ekki verður sagt um að hafi þessi 20 ár leiftrað af húmor.

Það var auðvitað Guðrún Katrín heitin, sem átti heiðurinn af því að Ólafur Ragnar var fyrst kjörinn forseti árið 1996. Persónutöfrar hennar, hlýja, glæsileiki og alþýðlegt viðmót, þar sem hvergi örlaði á snobbi, hrifu þjóðina, og Ólafur Ragnar náði kjöri – rétt slefaði yfir 40%.

Þótt hann væri hvergi nærri kosinn í fyrsta skipti með meirihluta atkvæða þeirra sem kusu, hafði það nú lítil áhrif á hrokann í manninum, sem kom fram á tröppurnar á húsi sínu á Seltjarnarnesi ásamt Guðrúnu Katrínu og lýsti því yfir að sigurinn væri ekki bara hans og fjölskyldunnar, heldur sigur þjóðarinnar allrar.

Ég man hvað þessi orð fóru óumræðilega í taugarnar á mér þá og ég skrifaði sérstakan pistil í Lesbókina sálugu, þar sem ég úthúðaði hinum nýkjörna forseta fyrir yfirlýsinguna og gaf þá gagnyfirlýsingu að hann ætti ekkert með að halda því fram að forsetakjör hans væri minn sigur, eða sigur þeirra sem alls ekki kusu hann. Hver var hann að lýsa því yfir að þau tæpu 60% sem kusu í forsetakosningunum 1996 og fengu ekki þann sem þeir höfðu valið sem forseta, hefðu farið með sigur af hólmi?

Orð hans frá því fyrir 20 árum rifjuðust upp fyrir mér á sunnudagskvöldið þar sem Ólafur Ragnar var í ótrúlega löngu og leiðinlegu drottningarviðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann á Ríkisútvarpinu. Þar lýsti hann því m.a. að eitt hans erfiðasta verk í gegnum tíðina hefði verið að fá „fjörkálfinn“ Dorrit til þess að passa inn í prótókollinn.

Ég er viss um að það hefur verið hans helsta lán, að Dorrit hefur alla tíð neitað að passa inn í prótókollinn, verið hún sjálf, stokkið í fangið á Hannesi Þór, landsliðsmarkverðinum í knattspyrnu, og stigið villtan dans með Eggert Magnússyni, fyrrverandi formanni KSÍ, í sigurvímunni á EM í Frakklandi og ekki hikað við að lýsa því yfir á sinn krúttlega hátt að „Ísland er stórasta land í heimi“, svo aðeins örfá atriði séu talin, sem lýsa því, að Dorrit fellur ekki inn í prótókoll.

Pressan á svo sannarlega eftir að sakna þín, Dorrit, og ég mæli með að þú takir þér franska titilinn l'enfant terrible (íslenska – barnið hræðilega), því fjörkálfur er eiginlega allt of teprulegur titill fyrir þig. agnes@mbl.is

Agnes Bragadóttir