Örstutt er í að NASDAQ vísitalan nái sínu hæsta gildi. Aðgerðir seðlabanka heimsins hafa stóraukið áhuga erlendra fjárfesta á bandaríska markaðnum.
Örstutt er í að NASDAQ vísitalan nái sínu hæsta gildi. Aðgerðir seðlabanka heimsins hafa stóraukið áhuga erlendra fjárfesta á bandaríska markaðnum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Eric Platt í New York Tæknigeirinn virðist ætla að ná vopnum sínum á árinu þó að fyrstu mánuðirnir hafi reynst honum mótdrægir á margan hátt.

Bandaríski tæknigeirinn hefur tekið við sér og ýtt Nasdaq Composite-hlutabréfavísitölunni upp svo að núna er hún aðeins hársbreidd frá sínu hæsta meti. Fjárfestar búa sig undir að þessi geiri, sem þótti standa sig hvað verst á fyrri helmingi ársins, rétti núna úr kútnum.

Hlutabréfavísitalan, sem inniheldur tækniferlíkin Apple og Alphabet, eiganda Google, hefur hækkað um meira en 7% frá byrjun þriðja ársfjórðungs, og er það tvöfalt meiri hækkun en hjá S&P 500, aðalviðmiðunarvísitölu bandaríska hlutabréfamarkaðarins.

Þessi snarpa hækkun kemur í kjölfar umskipta í hagnaðarspám og hafa fyrirtækin hvert á fætur öðru farið fram úr væntingum; Microsoft, Qualcomm, Amazon og Facebook, og ýtt undir bjartsýni um að arðsemi geirans muni senn ná sér á strik. Um það bil fjögur af hverjum fimm tæknifyrirtækjum í S&P 500-vísitölunni stóðu sig betur en spáð hafði verið á þessum fjórðungi, og var það betri frammistaða en hjá öllum öðrum geirum, að heilbrigðisgeiranum undanskildum.

Horfurnar hafa batnað

Nú er því spáð að hagnaður á öðrum fjórðungi verði 2% lægri en á sama tímabili fyrir ári, og er það mun minna en sú 7,3% lækkun sem var spáð í júnílok, og mesta framförin hjá þeim atvinnugreinum sem FactSet vaktar.

„Þetta er kippur í hagnaðartölum, en oft eru það hagnaðarkippirnir sem koma markaðinum á skrið,“ segir JJ Kinahan, yfirmaður markaðsstefnumótunar hjá TD Ameritrade. „Við sjáum að fyrirtæki eru ekki aðeins að fara fram úr frekar litlum væntingum...heldur hefur tónninn breyst, sérstaklega í tæknigeiranum. [Hann fór] frá: „Við getum haldið áfram á þessum hraða, við getum staðið undir væntingum um sölutölur“, yfir í: „Við erum farin að koma auga á tækifæri“.“

Viðskipti með FANG-fyrirtækin voru vinsæl á árinu 2015 – þegar hlutabréf Facebook, Amazon, Netflix og Google hækkuðu öll um meira en 30% – og hafa þau nú aftur tekið við sér. Þó að hlutabréf Netflix reki lestina, í kjölfar þess að þátta- og kvikmyndastreymiþjónustan olli vonbrigðum með tölum um fjölgun áskrifenda, þá hafa hin þrjú hækkað hraðar en Nasdaq-vísitalan frá júnílokum.

Vísitalan mælist núna 1% undir sínu hæsta sögulega gildi, þegar hún í júlí 2015 fór upp í 5.231,94 stig.

Þessi þróun markar upphafið að fráhvarfi frá öruggum atvinnugeirum sem leiddu markaðinn í byrjun árs, þegar fjárfestar leituðu skjóls í fyrirtækjum með tiltölulega hófsamar viðskiptaáætlanir og stöðugar arðgreiðslur.

Verðlagning komin úr hófi

Markaðsverð þjónustufyrirtækja, samskiptafyrirtækja og framleiðenda lykilneysluvara hækkaði hratt, og seldist síðastnefndi hópurinn á verði sem er 20,7-falt margfeldi af væntum hagnaði ársins 2017 – og er það hærra en bæði 5 og 10 ára meðaltalið.

„Verðlagningin var orðin þannig að hún gekk ekki upp fyrir fyrirtæki þar sem hagnaður eykst hægt og tekjur eru enn hægar,“ segir David Donabedian, stjórnandi fjárfestinga hjá eignastýringu Atlantic Trust. „Langar mig að eiga hluti í fjölda þjónustufyrirtækja með 2% árlega aukningu tekna, á verði sem er mun hærra margfeldi en dæmigert samansafn af tæknifyrirtækjum?“

Fjárfestar hafa enn áhyggjur af hækkuninni sem orðið hefur á verði hlutabréfa, og benda margir á að á heimsvísu hefur ávöxtunarkrafa skuldabréfa verið á niðurleið á meðan hlutabréf hækka. Örvunaraðgerðir seðlabanka víða um heim hafa orðið til þess að skari erlendra fjárfesta streymir inn á bandaríska markaðinn, og segja sjóðstjórar þetta lykilatriði í þeirri hækkun sem almennt hefur orðið á mörkuðum, og í tæknigeiranum þar á meðal.

„Það sem við sjáum núna kann að vera smávægileg breyting í fjárfestingarhegðun,“ segir David Lebovitz sem fæst við stefnumótun hjá JPMorgan Asset Management. „Ég er ekki viss hvort þeir tímar eru núna að baki að fjárfestar leiti skjóls í öruggari kimum markaðarins, en peningastefnunni virðist ganga illa að auka neyslu og vangaveltur eru um hvað fjármálastefna hins opinbera getur gert til að auka hagvöxt. Þankagangur fjárfesta er aftur farinn að snúast um [spurninguna um] hvaðan vöxturinn mun koma.“