Vilmundur Víðir Sigurðsson fæddist á Eskifirði 5. maí 1944. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 26. júlí 2016. Hann var sonur hjónanna Halldóru R. Guðmundsdóttur húsmóður, f. 21. júlí 1909, og Sigurðar Magnússonar skipstjóra, f. 16. júní 1905. Systir Víðis er Björg S. Blöndal, f. 18. apríl 1946, eiginmaður hennar er Theódór Blöndal.

Eftirlifandi eiginkona Víðis er Jóhanna Ásdís Þorvaldsdóttir sérkennari, f. á Fáskrúðsfirði 30. ágúst 1944. Foreldrar hennar voru Oddný A. Jónsdóttir húsmóðir, f. 18. mars 1923, og Þorvaldur Jónsson skipaafgreiðslumaður, f. 18. ágúst 1908. Systkini Jóhönnu eru Guðný, Jóna Kristín og Kristján.

Víðir og Jóhanna gengu í hjónaband 27. desember 1964. Börn þeirra eru þrjú: Sigurður, f. 24. júní 1965. Sambýliskona hans er Ragnheiður Gísladóttir. Börn þeirra eru þrjú. Ágústa Ýr Sigurðardóttir, f. 1991, móðir hennar er Jóna Hildur Bjarnadóttir. Sambýlismaður Ágústu er Brynjar Þór Þórarinsson og dóttir þeirra Elísabet Ann, f. 2016. Andrés Már Jónasson, f. 1990, faðir hans er Jónas Jónsson. sambýliskona Andrésar er Rúna Björg Ársælsdóttir og sonur þeirra Rúrik Leon, f. 2016. Birkir Örn Sigurðsson, f. 2001.

Vilborg, f. 6. maí 1968. Sonur hennar er Viktor Stefánsson, f. 1991, faðir hans er Stefán Viðarsson. Sambýlismaður Viktors er Sigurður Andrean Sigurgeirsson.

Þorvaldur, f. 21. júní 1973. Eiginkona hans er Sólveig Huld Guðmundsdóttir og börn þeirra þrjú. Jón Víðir, f. 1996, Ásdís Magdalena, f. 2002, og Fróði Kristinn, f. 2008.

Víðir lauk gagnfræðaprófi 1961, vélstjóraprófi 1962, farmannaprófi 1967, varðskipadeild 1975 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum fyrir framhaldsskólakennara 1982. Auk náms í notkun ratsjár og „simulators“ við skóla í Noregi, Danmörku og Englandi.

Víðir starfaði sem háseti og vélstjóri á síldarbátum, flutningaskipum og hvalbáti frá 1961 til 1968. Hann starfaði m.a. með föður sínum, Sigurði Magnússyni skipstjóra, á Víði SU-175. Á árunum 1969-1977 starfaði hann á sumrum sem stýrimaður og afleysingaskipstjóri á hvalbátum. Mörg sumur fram til 1991 starfaði hann m.a. sem stýrimaður hjá Eimskipafélagi Íslands.

Víðir starfaði sem kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík frá 1968 til 2000 og þar af í eitt ár sem skólameistari í leyfi skipaðs skólameistara. Hann starfaði sem aðstoðarskólameistari og áfangastjóri veturinn 1999-2000. Víðir starfaði í fjölda nefnda í gegnum árin er fjölluðu um sjávarútveg og siglingar, m.a. á vegum menntamálaráðuneytisins. Hann var í stjórn Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar á árunum 1977-1983 og í stjórn FFSÍ 1977-1979.

Víðir starfaði sem verkefnisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands við uppbyggingu NAMFI, sjómannaskólans í Walvis Bay í Namibíu frá júní 2000 til desember 2005, þar sem hann starfaði sem kennari, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri. Hann starfaði sem umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu árið 2006. Eftir heimkomu frá Namibíu starfaði hann sem kennari við Tækniskólann, skóla atvinnulífsins.

Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 4. ágúst 2016, kl. 13.

Hetjulegri sex ára baráttu þinni pabbi, við fjárans krabbameinið, er lokið. Margir sigrar unnust á leiðinni og kannski var sá stærsti hvað þér tókst að vera frábær allan tímann í þessari erfiðu baráttu. Mamma stóð þér við hlið eins og klettur. Við feðgarnir ræddum það um daginn hvað þið væruð heppin að hafa hvort annað. Þú brostir þegar ég sagði að það hittist þannig á að þið væruð bæði svo einstaklega vel gift. Sambandið ykkar var á margan hátt einstakt og kannski vegna þess hversu ólík þið voruð en samt svo lík. Flestir myndu segja að þið hafi verið sniðin fyrir hvort annað og það sem mestu skipti var að þið stóðuð alltaf saman í gegnum þykkt sem þunnt. Meira að segja í baráttunni við krabbameinið gátuð þið skilið hlutskipti hvort annars þegar þið skiptuð um hlutverk um tíma, þ.e. þegar mamma veiktist alvarlega í fyrra og þá snerist hlutverkið við; þú fárveikur að sinna henni af alúð. Kannski var lykillinn að ykkar farsæld virðingin fyrir hvort öðru og það svigrúm sem þið gáfuð hvort öðru er þurfti. Þið höfðuð einmitt þann eðaleiginleika að geta verið sammála um að vera ósammála. Limran Fríháls eftir Þorstein Valdimarsson er í sérstöku uppáhaldi hjá mér því hún lýsir vel ykkur mömmu, bæði sjálfstæð með skoðanir en alltaf tilbúin að gera allt fyrir ykkar fólk.

Ég aðhefst það eitt sem ég vil

og því aðeins að mig langi til.

En langi þig til

að mig langi til -

þá langar mig til svo ég vil!

Það er stutt síðan við pabbi vorum að rifja upp árin okkar á hvalnum. Minningin er ljóslifandi; björt sumarnótt suður af Reykjanesi, við erum á útkíkki uppi í rétt. Eina markmiðið mitt að vera á undan þér að koma auga á hvalblástur en þú varst alltaf á undan. Ég sjö, átta og níu ára og sumar eftir sumar með þér á sjónum vappandi um skipið úti á rúmsjó. Þetta þótti ósköp eðlilegt á þessum tíma, að vera bara á sjónum með pabba. Þú þaulvanur sjómaður en ég óttalegur landkrabbi og auli til sjós. Þú ætlaðir að gera alvöru sjómann úr pilti og reyndir mikið hið ómögulega. Æðisleg minning þrátt fyrir smá sjóveiki. „Þú ert happa, við náum alltaf í stærri hvali þegar þú ert með,“ sagðir þú og klappaðir á rauðhausinn.

Þú helgaðir starfsævina kennslu og markaðir þannig jákvæð spor í líf fjölda fólks. Kenndir okkur börnunum að meta bækur, varst hagleiksmaður í smíði, vinamargur, mikill ljóðaunnandi og hafðir mikinn tónlistaráhuga sem kom ekki síst fram í því að þú varst óþreytandi að hlusta á barnabörnin spila.

Það var alltaf gott að eiga þig að, ávallt reiðubúinn að hjálpa, leiðbeina og styðja. Þau voru mörg hlutverkin sem þú hafðir; kennari, sjómaður, faðir en eitt þó sem þú hafðir hvað mest dálæti á, það var afahlutverkið sem þú sinntir af mikilli gleði og hlýju. Svo var það nýlega langafahlutverkið sem þú varst rétt að kynnast þegar kallið kom.

Ég kveð þig pabbi með söknuði en fullur þakklætis. Hvíl í friði.

Sigurður Víðisson.

Pabbi minn var heill og sannur, heiðarlegur, með sterka réttlætiskennd. Hann var góður faðir og vinur.

Pabbi minn var mikill fjölskyldumaður, tók þátt í lífi afkomenda sinna og studdi alla til góðra verka. Margar minningar koma upp í hugann við þessi tímamót og fátækleg orð, sem þessi, ná engan veginn að fanga allt það góða sem hugurinn geymir. Hann tók okkur börnin með sér í vinnuferðir á sjóinn, til dæmis í fraktsiglingar erlendis, þar sem næturvökur í brúnni með pabba eru ógleymanlegar fyrir lítinn tíu ára snáða. Hann var ávallt til staðar, studdi okkur til náms, einnig í íþróttum og tónlist, mætti á leiki og tónleika og fagnaði þegar vel gekk.

Hann las mikið og skemmtilegt var að ræða við hann um bókmenntir, sögu og menningu. Hann hafði sérstaklega gaman af því að rökræða, vildi að maður færði rök fyrir sínu máli.

Hann var hagleiksmaður, skar listavel út, smíðaði rafmagnsgítar, batt inn bækur, málaði svo eitthvað sé nefnt. Hann var áhugasamur um margt og fróðleiksfús.

Mamma og pabbi, Jóhanna og Víðir, eru eða voru eins og greinar á sama tré, heyra hvort öðru til. Þegar annað nafnið er nefnt þá hugsar maður til hins. Þau voru sterk eining, samhent og lífsglöð.

Við fjölskyldan vorum lánsöm með föður, tengdaföður, afa og langafa og munum minnast pabba af þakklæti og virðingu, því það er margs að minnast og margt að þakka.

Sviptingarnar voru miklar í veðrinu síðasta sólarhringinn í lífi hans því aldrei hafði mælst eins mikil rigning í Reykjavík og stuttu síðar skein sólin bjart. Andlátsmorgunninn var kyrrlátur, sólríkur, fagur og við vorum með honum á líknardeildinni í Kópavogi.

Lífssól pabba míns er hnigin í hafið. En um leið veit ég að hún er risin á ný við annan og stærri sjóndeildarhring.

Far þú í friði pabbi minn, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þorvaldur Víðisson.

Elsku afi, langafi og tengdaafi.

Við litla fjölskyldan kveðjum þig með miklum söknuði en fyrst og fremst þakklæti. Þakklæti yfir að hafa alltaf átt þig að, hvað sem var þá gátum við leitað til þín. Áttaviti er eitt af orðunum sem kom upp í hugann þegar presturinn bað okkur að nefna eitt orð um þig. Áttaviti lýsir þér svo vel. Hann tengist ævistarfinu, áhugamálunum og þinni persónu. Þú vísaðir okkur alltaf veginn og leiðbeindir okkur í rétta átt.

Við erum þakklát fyrir allar dýrmætu og góðu stundirnar sem við áttum saman. Stærðfræðitímarnir hjá þér á þriðjudögum sem urðu að vikulegum matarboðum hjá ykkur ömmu. Þar komum við Brynjar til ykkar, við lærðum saman, borðuðum síðan góðan mat og gátum spjallað klukkustundum saman. Þetta var dýrmætur tími þar sem við náðum að skerpa á tengslunum eftir tímann ykkar í Afríku og var þetta orðinn ómissandi partur af vikunni. Allar góðu stundirnar í sumarbústaðnum þar sem þið Brynjar ýmist lásuð eða hrutuð í kór. Við borðuðum, spjölluðum, spiluðum og alltaf var gaman og mikið hlegið.

Þakklætið er mikið yfir því að þið Elísabet hafið fengið að hittast, þið spjallað saman og hún fengið að sitja hjá langafa. Væntumþykjan og gleðin hjá þér fór ekki á milli mála þegar þú horfðir með aðdáun á fallegu langafastelpuna þína. Minningarnar munu lifa með okkur áfram og við hlökkum til að segja henni frá hinum einstaka langafa sínum. Þú sinntir okkur alltaf vel, hringdir nánast daglega til að heyra í okkur og við vitum að þú vakir yfir henni og okkur.

Við söknum þín, elsku afi, hvíl í friði.

Ágústa Ýr, Brynjar Þór og

Elísabet Ann.

Þegar við hugsum til afa dettur okkur hvað helst í hug einlægni og alúð.

Afi var þrjóskur. Hafði ávallt sína skoðun og leyndi henni oft ekki. Alveg frá unga aldri munum við þó eftir því hversu mikilvægt honum fannst að við hefðum okkar eigin skoðanir líka. Og það sem meira er hversu mikilvægt það er að hlusta á skoðanir annarra. Þótt maður væri ekki nema sjö ára gamall að spjalla við hann voru samræðurnar alltaf málefnalegar. Aldurinn skipti ekki máli, manns eigin skoðun hafði jafnt vægi og hans. Það var hægt að tala endalaust við hann um ekki neitt. Hvert sem tilefnið var, hann var alltaf forvitinn þótt hann í raun vissi allt. Hann var ávallt til staðar til að styðja mann og veita manni hjálp með allt á milli himins og jarðar.

Við minnumst ekki neinna tónleika, íþróttamóta eða neins viðburðar yfir höfuð þar sem afi Víðir og amma Jóhanna voru ekki mætt.

Fótbolti í garðinum, keyra austur og vinna í sumarbústaðnum, mála köngla og nornir, tálga, kubba, tefla, gistikvöld, bókamarkaðir, tónleikar í stofunni, jólaföndrið, mála húsið og svo margt, margt fleira.

Dyrnar að húsi hans stóðu manni alltaf opnar, sama hvar það hús var staðsett í heiminum. Maður fann að maður átti sér fastan stað í hjarta hans og það mun hann alltaf eiga í hjörtum okkar.

Við þökkum þér innilega fyrir allt, elsku afi.

Jón Víðir, Ásdís Magdalena

og Fróði Kristinn.

Allt hefur sinn tíma og nú var tími elskulegs bróður og mágs kominn.

Með nokkrum orðum viljum við kveðja Víði Sigurðsson.

Hann ólst upp í foreldrahúsum á Víðivöllum á Eskifirði. Strax 15 ára var hann kominn til sjós með föður sínum á Víði SU 175 á síldveiðar. Þar í skipshöfn voru einnig nokkrir félagar Víðis og hafa þeir haldið hópinn fram á þennan dag og hist reglulega og rifjað upp gamla ævintýratíma.

Það var á þessum síldarárum sem Víðir kynntist konuefni sínu, Jóhönnu Þorvaldsdóttur frá Fáskrúðsfirði, nokkuð sem án efa var hans stærsta gæfuspor í lífinu.

Fjölskyldan á Víðivöllum flutti frá Eskifirði til Reykjavíkur árið 1961 og þau Jóhanna og Víðir giftu sig á jólum 1964. Árið eftir eignuðust þau soninn Sigurð og Vilborg fæddist þremur árum síðar og loks Þorvaldur árið 1973.

Nú eru barnabörnin orðin sex talsins og eitt langafabarn.

Víðir stundaði nám við Stýrimannaskólann og Jóhanna við Kennaraskólann, eftir flutninginn suður og strax að náminu loknu var Víði boðið að gerast kennari við skólann. Það varð hans ævistarf. Hann var góður kennari, fylgdist vel með öllum nýjungum og sótti ótal námskeið erlendis og var dáður af nemendum sínum. Framan af var hann á sumrum stýrimaður á hvalbátum og farskipum.

Árið 1999 bað Þróunarsamvinnustofnun Íslands hann að fara til Namibíu og gera stýrimannaskólann þar að alvöruskóla sem stæðist kröfur tímans. Árin hans og Jóhönnu í Namibíu urðu sjö.

Heimili þeirra í Austurgerði í Kópavogi var afar gestkvæmt, enda vinamörg og afskaplega gestrisin.

Samverustundir okkar gegnum árin hefðu mátt vera fleiri, en það að við bjuggum á Seyðisfirði og þið í Reykjavík bauð ekki upp á tíð samskipti. Þeim mun ánægjulegri voru heimsóknir við fermingar og önnur álíka tækifæri og vænt þótti okkur um heimsóknir barnanna í Austurgerði við leik og störf.

Eftirminnileg er ferð sem við fórum saman til Noregs og sigldum með norskum vinum okkar frá Bergen inn um firði og út í eyjar til Stavanger.

Síðustu mánuðirnir hafa verið erfiðir þegar sýnt var að krabbinn mundi hafa betur.

Víðir og Jóhanna vor afar samrýnd hjón og jafnræði mikið milli þeirra. Það var aðdáunarvert hversu æðrulaust þau tóku örlögunum saman. Heimili þeirra í Austurgerðinu stóð öllum vinum og ættingjum opið eins og ævinlega. Það voru margir vinirnir sem komu til að kveðja. Viðmótið og viðurgjörningur sá sami og ávallt áður.

Að leikslokum þökkum við samverustundirnar og hlýhuginn sem þú, kæri bróðir, sýndir okkur og börnunum okkar.

Megir þú eiga góða heimkomu og við biðjum góðan Guð að blessa minningu þína, Jóhönnu og börn og barnabörn.

Þess óskum við, þín systir, mágur og fjölskylda,

Theodór Blöndal.

Víðir var einstakur maður. Við kveðjum hann með eftirsjá, en þakklæti fyrir rúmlega hálfrar aldar samfylgd og allt sem hann var okkur.

Það var gæfa beggja að þau urðu hjón, Víðir og Jóhanna, systir okkar. Þau tvö voru aldrei aðskilin í orðræðu sín í millum eða í samskiptum við aðra. Jóhanna hefur stundum haft á orði að forvitnin sé móðir þekkingarinnar. Ef hún hefur átt sér einhvern fylgismann í þeim efnum, þá var það Víðir.

Víðir var kennari af Guðs náð. Vildi bæta umhverfi sitt, miðla til annarra því sem hann hafði náð að taka til sín og gerði það vel.

Hann gekk í gegnum þroskaskeið, eins og við gerum öll, var meðvitaður um það og lagði sig eftir því að bæta endalaust við. Kennslan í Stýrimannaskólanum gaf honum mikið. Þar sá hann margt óharðnað ungmennið verða að manni. Aldrei hrósaði hann sér af því, en augljóst var hve honum þótti vænt um fyrrum nemendur sína og við marga þeirra átti hann vináttu áfram.

Rökræða var honum töm. Hann gat talað um málin út í hið óendanlega. Stjórnmál voru þar ekki efst á baugi. Flokkapólitík var honum ekki að skapi. En hvert sem umræðuefnið var gat hann jafnan sett hlutina í samhengi og kallaði yfirleitt á mótrök.

Víðir var raungreinamaður, stærðfræði og siglingafræði voru fögin hans, en jafnframt hafði hann áhuga á öllum hliðum tilverunnar. Hann elskaði Jóhönnu og börnin sín. Allt hans líf var markað þeim sporum að bæta sig, ná meiri árangri sem manneskja og reynast í öllu vel.

Þar voru hann og Jóhanna samtaka. Dvöl þeirra í Afríku varð ekki bara þeirra. Þau miðluðu reynslu sinni þaðan í allar áttir. Margir sóttu þau heim til Namibíu og enn fleiri fengu að njóta kynna þeirra þar.

Það hefur alltaf verið vinafjöld í kringum Jóhönnu og Víði. Heima í Austurgerði ávallt opið hús, miðstöð margra, fjölskyldu og vina. Þau hjónin miklir fagurkerar og sköpuðu saman fallegt heimili. Víðir var mikill hagleiksmaður, vandvirkur við hvað eina. Skar út í hvalbein og tré, gerði upp húsgögn, batt inn bækur. Hann bætti stöðugt við sig þekkingu, fór þar oft ótroðnar slóðir og var því fróður og fjölhæfur. Nefna má fallegan gítar inni í stofu sem hann smíðaði frá grunni og eitt námskeiðanna sem hann sótti hjá Endurmenntun HÍ, var í ljóðagerð og sagði til skýringar að það hefði hann gert til að geta flutt ljóðin rétt sem hann las fyrir Jóhönnu. Minningar eru margar og allar á sama veg.

Með æðruleysi tókst hann á við þann vágest sem fyrst bankaði upp á fyrir sex árum. Hann nýtti tímann vel til að sinna sínum hugðarefnum og vera með fjölskyldu og vinum á góðum stundum. Hann gerði okkur öllum í raun auðveldara að mæta með honum veikindunum og Jóhanna lagði þar allt sitt af mörkum við hlið hans.

Víðir skilur svo margt eftir sig, bæði í lífi og starfi. Ekki bara í góðum börnum, barnabörnum og langafabörnum. Hann kveður sem góður, traustur maður sem vildi alltaf gera betur.

Við kveðjum mág okkar í einlægri þökk og Guð blessi systur okkar Jóhönnu, börn þeirra hjóna, ástvini alla og vini.

Guðný, Jóna Kristín og Kristján frá Sunnuhvoli.

Vilmundur Víðir átti mörg verkefni óunnin þegar hinn illvígi sjúkdómur tók starfsþrek hans. Hann hafði viðað að sér stafla af efni um siglingar landsmanna, fiskveiðar og siglingafræði, þróun þeirra og framlag frumkvöðlanna, sem jafnvel voru bændur á þurru landi, og hugsaði sér gott til glóðarinnar, fyrst og fremst til að auka þekkingu sína á þessum málum – þó vissum við að fáir væru betur að sér um þessi efni, eftir áratugakennslu í sjómannafræðum og stjórnun í Stýrimannaskólanum. Það var hrein unun að sitja við bókaborðið hjá Víði og hlusta á sögur í kringum siglingatæknina og fólkið sem kom við sögu hennar.

Víðir var nefnilega kennari í húð og hár. Án þess að setja sig í þær stellingar var hann sífellt að miðla fróðleik og vekja áhuga. En hann gerði það svo eðlilega og áreynslulaust að maður tók varla eftir því. Yfirleitt fylgdu sögur með, sem gerðu frásögnina og samræðurnar eftirminnilegar og nærandi. Samtölin urðu oft löng og bárust um víðan völl.

Víðir var þannig gerður að hann var alltaf tilbúinn að opna nýjar dyr og kynna sér nýjar slóðir. Það vafðist ekki fyrir þeim Jóhönnu, verandi óvenjulega samhent hjón, þegar þeim gafst tækifæri til að fara til nokkurra ára dvalar í Namibíu, til að vinna að þróunaraðstoð og uppbyggingu sjómannaskóla. Þau litu á flutninginn sem ævintýri og tækifæri til að skyggnast inn í nýjan heim. Víðir hafði sannan áhuga á ólíkum menningarheimum og naut þess að ferðast um Afríku og uppgötva kjarna hinnar framandi menningar – og deila því þegar heim var komið.

Þessi vilji til að uppgötva nýtt er sjófarenda- og siglingafræðingi líklega í blóð borinn; hann vill vita hvað býr handan sjóndeildarhringsins. Þannig var það með Víði, og hefur eflaust verið allt frá uppvextinum við sjóinn á Eskifirði.

Jafnaðargeðið hefur Víðir eflaust haft með sér að austan. Örlæti og umhyggju átti hann einnig í ríkum mæli—sem ekki rýrnaði þótt sjúkdómurinn væri farinn að segja til sín.

Sum samskipti eru svo augljóslega mannbætandi. Þau leggja grunninn að traustri vináttu. Við munum sakna hvors tveggja.

Við erum þakklát fyrir samfylgdina og vottum Jóhönnu og fjölskyldunni okkar dýpstu samúð.

Anh-Dao Tran,

Jónas Guðmundsson.

Kær vinur okkar, Vilmundur Víðir Sigurðsson, er fallinn í valinn eftir erfiða baráttu við krabbamein. Við sem eftir lifum stöndum hnípin og söknum vinar í stað. Margs er að minnast þegar litið er til baka og höfum við átt margar ánægjustundir saman um ævina. Vinátta okkar við Víði og Jóhönnu, konu hans, hefur staðið um áratuga skeið og aldrei borið þar skugga á.

Víðir var höfðinglegur í fasi og framgöngu. Hann var félagslyndur og einstaklega gestrisinn, enda mjög vinamargur. Á heimili hans og Jóhönnu var ætíð margt um manninn og gestum tekið fagnandi. Var þá oft glatt á hjalla og þá naut Víðir sín vel. Hann var glaðlegur og sagði skemmtilega frá. Víðir las mikið um dagana, var fróður og hafði ætíð frá ýmsu að segja, hafði góða kímnigáfu og oft var mikið hlegið þegar setið var við spjall um hin ýmsu málefni. Víðir var einstaklega traustur maður og tryggur vinum sínum. Hann var ætíð tilbúinn til að rétta fram hjálparhönd ef eitthvað bjátaði á. Hann var alltaf til staðar þegar með þurfti.

Um sex ára skeið áttu þau Jóhanna og Víðir heimili í Namibíu. Þar var einnig gestkvæmt hjá þeim og voru þeir margir úr vinahópnum sem lögðu leið sína þangað. Við hjónin heimsóttum Jóhönnu og Víði til Walvis Bay þar sem þau bjuggu þá í Namibíu. Aldrei naut Víðir sín betur en þegar hann kynnti okkur fyrir undrum Afríku, í þessari fjarlægu heimsálfu. Þar bar sannarlega margt fyrir augu sem var svo ólíkt öllu öðru sem við höfðum séð og upplifað. Stendur Afríkuferðin upp úr sem gimsteinn í sjóði minninganna.

Við þökkum Víði samfylgdina og áralanga vináttu og tryggð. Söknuðurinn er sár, en minningin um góðan dreng mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Jóhönnu, fjölskyldu og aðstandendum öllum vottum við okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning hans,

Dóra S. Ástvaldsdóttir,

Ragnar Ragnarsson.

Í dag verður til moldar borinn góður og kær vinur, Vilmundur Víðir Sigurðsson, stýrimaður og fyrrverandi kennari.

Kynni mín af Víði hófust að hausti 1981 er undirritaður hóf nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík.

Fljótlega kom í ljós hversu vandaður maður og afbragðskennari hann var í alla staði. Hann hafði einstakt lag á að gera flókna hluti einfalda og auðskilda svo að okkur nemendunum tókst að skilja og læra.

Tvo vetur var ég í skólanum og naut handleiðslu hans og fleiri góðra kennara. Seinni veturinn var ég í vandræðum með námsefnið og Víðir tók mig í nokkra aukatíma á heimili sínu sem hjálpaði mér mikið. Ekki mátti hann heyra nefnt að taka fyrir þetta borgun en svona læddi að mér að hann myndi ekki slá hendi á móti smávegis af síld. Enn man ég hversu glaður hann var er ég gat stuttu seinna fært honum kvartel af saltsíld.

Eftir lokapróf skildi leiðir og lítið samband okkar á milli en hann var stór í minningunni um skólaveruna.

Árin líða og lítið samband okkar á milli, en um mitt ár 2000 koma Víðir og kona hans, Jóhanna, í minn heimabæ Walvisbay í Namibíu. Víðir var þá kominn hingað á vegum ÞSSÍ og var ráðinn sem yfirkennari við sjómannaskóla Namibíu sem var búinn að starfa í fáein ár og voru fyrir nokkrir kennarar frá Íslandi. Það var mikill og góður hvalreki fyrir skólann sem enn var í mótun að fá mann sem Víði sem kom með yfirgripsmikla þekkingu á stýrimannafræðum og langa reynslu af kennslu og skólastarfi.

Hér endurnýjuðust gömul kynni og við kynntumst konu Víðis, Jóhönnu. Eftir fjögur ár hér í Walvisbay við kennslu flytja þau til Windhoek og Víðir tók við sem umdæmisstjóri ÞSSÍ í Namibíu, þar sem hann naut sín vel og skilaði góðu starfi, og eftir ár þar flytja þau til baka til Íslands.

Eftir heimkomuna héldum við sambandi í síma og tölvupóstum. Það var gott að spjalla við Víði og gaman að geta sagt honum fréttir héðan og fá hjá honum fréttir að heiman.

Það verður mér dýrmætt í minningunni um Víði er við hittumst síðast í apríl er ég kom til Íslands, stoppaði i örfáa daga og heimsótti hann í Kópavoginn og eyddi með honum parti úr degi. Við nutum dagsins við að spjalla um menn og málefni.

Með Víði er genginn mjög vandaður og mikill gæðamaður sem sárt verður saknað. Kæra Jóhanna, börn, tengdabörn og barnabörn, við biðjum almættið sem öllu ræður að styðja ykkur og styrkja í sorginni.

Fyrir hönd vina í Namibíu,

Gunnar Harðarson skipstjóri, Namibíu.

Víðir Sigurðsson, vinur minn, er látinn, aðeins sjötíu og tveggja ára að aldri. Það var ótalmargt fróðlegt, notalegt, skemmtilegt og gagnlegt sem hann enn langaði til þess að gera ásamt sinni góðu konu, fjölskyldunni, vinahópnum og starfsfélögum.

Það var mér mikið lán að eignast vináttu Jóhönnu og Víðis fyrir 46 árum, fá þar með aðgang að þessu opna, hlýja heimili þar sem gestrisni og manngæzka réðu ríkjum. Heimsóknir mínar urðu enda svo tíðar að annar heimagangur sagðist ekki heilsa mér frekar en hinum húsgögnunum.

Í Austurgerðinu var eins og alltaf væri endalaus tími fyrir spjall, skoðanaskipti, uppflettingar og hvaðeina gott.

Víðir var einstaklega heilsteyptur maður, skoðanaríkur, hafði yndi af rökræðum og var stöðugt að bæta við sig þekkingu og reynslu. Einhvern tímann orðaði ég það svo að þau hjón hefðu ryksugað alla möguleika sem opnazt hefðu á síðustu áratugum í fullorðinsfræðslu og breyttum hugsunarhætti gagnvart menntun á hvaða æviskeiði sem væri.

Það var stór og merk ákvörðun þegar Jóhanna og Víðir fóru til starfa í Namibíu og mörg erum við sem fengum þá gullið tækifæri til þess að heimsækja framandi staði; njóta djúphugsaðs skipulags og handleiðslu þeirra hjóna inn á nýjar slóðir. Lifnaðarhættir fólksins í landinu, verzlun og viðskipti, hvalaskoðun og sandöldur, ljón og flamingóar, skoðunarferðir um sjómannaskólann sem Víðir vann við, það merka starf sem þar fór fram, svo og heimsóknir í stúlknaskólann í Kuisebmund sem Jóhanna studdi svo dyggilega. Allt varð þetta að digrum sjóði í minningu og hugsun. Það er ómetanlegt að kynnast nýjum lendum undir handarjaðri fólks sem setur sig af mikilli natni inn í menningu, sögu og samfélagsgerð þess vettvangs sem starfað er á. Auðvitað gerðu Víðir og Jóhanna það af sömu vandvirkni og aðra hluti, þau hafa nefnilega alltaf gert allt vel. Í þrígang naut ég þess að fara til Namibíu, í eitt skipti m.a.s. í fjögurra systra hópi, öðlaðist ómetanlegan dýpri skilning á sögu og aðstæðum lands og þjóðar í hvert skipti. Þakklát er ég fyrir það tækifæri eins og svo margt annað sem þau hjón hafa gert fyrir mig og mína.

Á liðnum vetri áttum við Víðir löng símtöl, einkum um það sem við vorum að lesa hverju sinni. Hann fræddi mig um sjósókn, sögu hvalveiða, atvinnuþróun og margt fleira á þann hátt að umræðuefnið vakti áhuga minn og ég naut að sjálfsögðu þessara góðu samtala. Í lokin kom örsetningin „það er þaað“ með hans sérstaka hljómi.

Orð fá ekki lýst því æðruleysi sem fjölskyldan hefur sýnt í veikindum undanfarinna mánaða og hvergi var slegið af hlýju, góðu viðmóti og samræðulist á opna heimilinu í Austurgerði þótt þrek húsbóndans færi þverrandi.

Ég þakka Víði af alhug áratuga vináttu, stuðning, fræðslu og skoðanaskipti.

Fjölskyldunni votta ég samúð mína, fullviss þess að arfurinn verði ræktaður í þeim einstaka anda sem sæmdarhjónin Víðir og Jóhanna skópu hvar sem leiðir þeirra lágu.

Sigríður Stefánsdóttir.

Minningarnar streyma fram líkt og árniður þegar minnst er góðs vinar. Dýrmætar vinastundir sem hafa litað og auðgað lífsgönguna er gott að eiga.

Víðir lifði lífinu lifandi, hafði brennandi áhuga mörgum sviðum og var æðrulaus fram á síðustu stundu. Hann var gamansamur, víðsýnn og fróðleiksfús. Ánægjulegt var að eiga hvers kyns samræður við hann um menn og málefni. Hann var vel að sér á svo mörgum sviðum og gat oft séð spaugilegar hliðar á mönnum og málefnum. Hrífandi að eiga við hann rökræður vegna víðsýni hans og rökfestu. Hann var fagurkeri og hreifst af vönduðu handverki eins og fallegt heimili þeirra hjóna ber vott um.

Víðir hafði yndi af bóklestri og var ánægður þegar hann gat rakið fyrir okkur það sem hafði heillað hann úr heimi bókmenntanna. Þá var ekki í kot vísað í samræðulistinni. Síðustu vikurnar var hann að lesa nýja útgáfu um stórverkið Moby Dick og vakti á lifandi hátt áhuga okkar á efninu.

Ekki var leiðinlegt að hlusta á hann segja frá hvalveiðum og sjómennsku sem hann stundaði á árum áður. Þar var hann á heimavelli með mikla og innbyggða vitneskju og reynslu á þeim ævintýrum sem sjómennskan bjó yfir. Það var fyrir okkur landkrabbana upplýsandi og fróðlegt.

Eins og gull í skjóðu áttu þau Víðir og Jóhanna mikla og ljúfa gestrisni sem vinir og vandamenn nutu. Sú gestrisni fylgdi þeim hvert fótmál, líka þegar heimkynni þeirra voru í Namibíu. Þá fengum við að njóta ævintýradvalar sem þau höfðu skipulagt af frjórri hugsun til að gleðja og leiða okkur inn í ógleymanlega ævintýraveröld í framandi álfu. Samtaka hjón í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur og studdu hvort annað jafnt í logni sem ólgusjó lífsins.

Áralöng trygg vinátta er fögur og yljar. Síðustu vikurnar var Víðir sami gestgjafinn sem tók af gleði ásamt konu sinni og börnum á móti sínum stóra vina- og ættingjahópi þrátt fyrir veikindi sín. Ræðinn og glettinn að venju. Fjölskyldumaður af natni og elskusemi og fylgdist grannt með barnabörnum sínum sem voru hans yndi.

Við hjónin vottum elsku Jóhönnu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúð. Blessuð sé minning góðs vinar. Þökkum samfylgdina.

Sólveig Helga og

Einar Long.