Það er ekki tíðindalaust af leikvelli íslenskra viðskipta þetta sumarið þó að margir hafi brugðið undir sig betri fætinum yfir sólríkustu mánuði ársins.

Það er ekki tíðindalaust af leikvelli íslenskra viðskipta þetta sumarið þó að margir hafi brugðið undir sig betri fætinum yfir sólríkustu mánuði ársins. Þó að góðviðri sumarsins hafi leitt til mikillar sprettu víðast hvar um landið hafa fréttir af búsmala og afrakstri túna ekki verið mest áberandi í fjölmiðlum. Meira hefur borið á fréttum af síauknum umsvifum ferðaþjónustunnar, þeirri útflutningsgrein sem byggir tilvist sína á innflutningi erlendra ferðamanna.

Og sannarlega hefur ferðaþjónustan mikil áhrif á efnahagshorfur í landinu. Gjaldeyrir streymir inn í landið, margir græða á tá og fingri og uppbygging í tengslum við gististaði, veitingahús og aðra afþreyingu hefur aldrei verið meiri. Í þann rann er margar góðar fréttir að sækja þó að margir telji hættumerki felast í hinum miklu umsvifum. Og vissulega eru hættumerkin víða til staðar.

Þrátt fyrir þenslumerkin vísa kennitölur og mælanlegar hagstærðir nú út og suður og ætla má að margur hagfræðingurinn klóri sér nokkuð í kollinum yfir því hvernig mál hafa þróast á síðustu misserum.

Laun hafa hækkað gríðarlega og langt umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu. Atvinnustig bendir til yfirspennu, kaupmáttur eykst og eykst og það skýrist ekki síst af því að verðbólgudraugurinn hefur ekki enn látið á sér kræla þó að margur hafi lagt mikið á sig við að kveða hann upp fremur en niður. Vextir eru í hæstu hæðum þrátt fyrir enga verðbólgu sem þeim er þó ætlað stemma stigu við. Því má segja að þeir haldi þessi dægrin aftur af því sem ekkert er. Það kann þó að breytast. Mitt í allri uppsveiflunni lækkar svo úrvalsvísitalan um nærri 10% á árinu.

Og eftir því sem hagfræðingarnir klóra sér meira í kollinum heldur krónan áfram að styrkjast og verðlag innfluttra afurða af öllu tagi lækkar að stórum hluta í takti við það. Hagvöxtur stefnir í allt að 5% á árinu. Það er ekki öfundsvert að vera hagfræðingur í dag – ekki eins öfundsvert og það að þreskja kornið á ökrum ferðaþjónustunnar.