Jóhann Friðrik Kárason fæddist 25. ágúst 1943 í Reykjavík. Hann lést á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi 19. júlí 2016.

Foreldrar hans voru Jóhanna Agnes Sigurðardóttir og Kaare Giertsen.

Eiginkona Jóhanns Friðriks er Guðríður Dóra Axelsdóttir, f. 22.7. 1944. Saman eiga þau Steinunni Krístínu Friðriksdóttur, f. 9. 3. 1976. Börn Guðríðar frá fyrra hjónabandi eru Viktor Ólason, f. 7.6. 1964, og Sigurður Axel Ólason, f. 3.5. 1968.

Jóhann Friðrik eyddi fyrstu æviárum sínum í Reykjavík en tíu ára fór hann í fóstur til Hríseyjar og dvaldist þar fram á unglingsár. Hann hóf störf hjá Olíuverzlun Íslands 1962 og starfaði þar til ársins 2013.

Útför Jóhanns Friðriks fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 4. ágúst 2016, og hefst athöfnin kl. 13.

Jæja pabbi, nú er komið að þessum vatnaskilum. Þó svo að ég trúi því að við munum hittast á ný ætla ég að setja á blað nokkra mola. Þú komst inn í mitt líf þegar ég var lítill strákur, þá varðst þú Frikki, kærastinn hennar mömmu, og svo þegar þið giftuð ykkur þá tókum við Siggi bróðir á móti ykkur þegar þið komuð úr kirkjunni og kölluðum þig pabba upp frá því. Það væri til að æra óstöðugan að lista hérna upp allar þær minningar sem til verða á langri leið og enn eiga eflaust einhverjar eftir að skjóta upp kolli síðar meir. En mig langar til að segja þér frá því hvernig þú komst mér fyrir sjónir. Þú varst mælingamaðurinn Friðrik. Einhvern veginn er það svo gegnumgangandi í lífinu þínu og setti sterkan svip á það. Þú varst með þessa hluti á hreinu, veður og færð ef einhver úr fjölskyldunni var á ferðalagi eða flakki, hvort sem var innanlands eða utan. Þetta hefur líklega orðið hluti af karakter þínum vegna þeirra starfa sem þú sinntir. Þú mældir og mældir, sem krakki fór ég með þér keyrandi um allt Stór-Reykjavíkursvæðið til að mæla birgðirnar á bensínstöðvum Olís, eða Olíuverslunarinnar eins og þér var tamt að tala um fyrirtækið sem þú helgaðir starfsævi þína. Síðan var farið að mæla stóru tankana í Laugarnesinu. Og ekki nóg með það heldur fórum við stundum til hinna að mæla, hitta Stebba hjá Shell og Hörð í Hafnarfirðinum. Það er heldur ekki hægt að gleyma því að oft var siglt á móti olíuskipunum sem voru að koma með nýjan ferskan farm til landsins og jú, þar var mælt og teknar prufur. Ég kímdi stundum undir lokin þegar sjúkdómurinn fór að þróast á verri veg hvernig þú varst búinn að koma þér upp kerfi til að mæla, það þurfti að mæla súrefnismettun og hjartsláttinn, allt skráð skilmerkilega.

Mér fannst þú í raun ekki vera gamall en stundum hafði ég gaman af því að þú varst á ákveðinn máta forn, svolítið eins og að það væri einhvern veginn margt betra sem gert var í gamla daga. Þess vegna man ég það svo sterkt þegar þú varst innan handar við ritun sögu Olíuverslunarinnar. Þá ljómaðir þú dagana inn og út og hvað þú varst stoltur af þessu merka riti. Já, Olíuverslunin var sannarlega stór hluti af þínu lífi og þar eignaðist þú marga vini meðal starfsmanna og viðskiptavina. Þekktir fólk allt í kringum landið og í hinum ýmsu fyrirtækjum og þeir, sem ég hef hitt og rætt við, nefna allir það sama, hvað þú varst lipur og bóngóður þegar leitað var til Olíuverslunarinnar og þú varðst fyrir svörum. Og auðvitað þegar ég komst á vinnualdur við fermingu reddaðir þú mér vinnu hjá Olíuversluninni. Þar vann ég svo mörg handtökin næstu árin á eftir, kynntist mörgum og lærði margt. Lærði að vinna og að bera virðingu fyrir viðskiptavinunum.

Það er auðvitað ekki hægt að drepa niður penna um þig án þess að nefna mat. Ó, hvað þú hafðir gaman af góðum mat. Þú hafðir gaman af að matbúa hann og þú hafðir gaman af því að njóta góðs matar. Þær eru nú óteljandi stundirnar þar sem þú eldaðir veislumat og setið var saman, borðað og hlegið, þú vildir hafa gleði og hlátur í kringum þig. Það eru þrír réttir sem þú átt alveg með húð og hári, nautalund á la Friðrik sem enn er uppháhaldsmaturinn, svo er það svínasteikin með auka purunni sem var sérhöndluð á la Friðrik – hvergi hef ég fengið hana eins góða, hvergi. Og loks er það kjúklingur á la Friðrik, brimsaltur með frönskum, sósu og salati. Og veistu hvað? Um helgina ætlum við í Háaberginu að hafa kjúkling á la Friðrik og þér er boðið. Sjáumst síðar,

Viktor.

Nú er hann Friðrik tengdapabbi dáinn, farinn. Það hrannast upp minningarnar enda var samleið okkar orðin býsna löng. Það var fyrir 36 árum þegar ég kom á Kleppsveginn að hitta Viktor, þú með meira hár og skegg, alltaf glaðlegur og tókst mér opnum örmum. Og á þessum árum sem liðið hafa hefur það ekkert breyst. Eitt af því sem vakti eftirtekt mína við að kynnast þér var matreiðslan. Það var til dæmis reglan að helgarmaturinn var á laugardagskvöldum, ólíkt sunnudagshádegislærinu annars staðar. Þú með svuntuna í eldhúsinu síðdegis á laugardegi að undirbúa tornedo sem er enn í dag minn uppáhaldsmatur

Þú kenndir mér líka að njóta þess að fara á veitingahús og það voru ótal skiptin sem, þú bauðst okkur á Holtið, Grillið, Halta hanann eða Rósenberg. Flottir hvítdúkastaðir með góðum mat. Og hvað þú gast oft rifjað upp og hlegið að því þegar ég þurfti að skila steikinni í þrígang á Holtinu, taldir víst að fáir hafi leikið það eftir.

Þið Rúry komuð og heimsóttuð okkur til San Diego og við áttum góðar stundir saman, það var grillað og fylgst með eldingunum. Svo komu barnabörnin. Eyrún kom fyrst og þá var nú tekið til hendinni. Ótal skipti voruð þið mætt á tröppurnar í Klukkuberginu til að taka ungann að skoða hina ungana á tjörninni, kaupa ís eða fara í Kolaportið. Síðar komu strákarnir til sögunnar. Og, já, það var sko tryggt að það færi dót í jólapakkana, annað kom ekki til greina. Dúkkudót og bílabrautir ansi margar og þú varst duglegur að leika með börnunum að þessum gjöfum.

Það er nú ekki hægt að sleppa því að nefna Olís þar sem Olís var svo mikill hluti af þér og í raun fjölskyldunni allri. Það var ósjaldan sem við sátum yfir einhverju veisluborðinu og allir töluðu um Olís og aftur Olís. Ég ranghvolfdi augunum og velti því fyrir mér hvenær þetta umræðuefni tæmdist, það tæmdist svo aldrei.

Þú varst ávallt boðinn og búinn til að hjálpa til og ég man eftir því í fyrrasumar þegar þú skutlaðir okkur upp í Bláfjöll, stuttu síðar varstu orðinn mun veikari og svo ári síðar allur.

Þú komst og þú hvarfst

eins og skugginn, sem stígur

sinn dans, eftir sólarlag.

Og geislar mánans skrifuðu

ljóð þitt á hvítan sandinn.

(Elín Eiríksdóttir frá Ökrum.)

Hvíl í friði, kæri tengdapabbi.

Inga.

Þegar litið er til baka þá tróna margar minningar ofar öðrum, Kolaportsferðir, sundspretturinn í Reykjavíkurtjörn, bakarísferðirnar, Olísbingó og öll þau óteljandi skipti sem boðið var upp á kjúkling og franskar. Það er þó ein minning sem mun ávallt vera eftirminnilegri en aðrar.

Við áttum allir þrír það sameiginlegt að styðja sama fótboltaliðið, auðvitað Chelsea. Þau voru ófá símtölin þar sem þú beiðst á hinum enda línunnar til þess að ræða úrslit okkar manna. Til þess símtals var alltaf hægt að hlakka. En sú minning sem okkur þykir svo vænt um tengist einmitt uppáhaldsliðinu okkar. Við feðgar ákváðum að fá þig með okkur í lið til þess að hvetja okkar menn áfram í Meistaradeild Evrópu.

Förinni var heitið til Lundúna. Fallegt vetrarkvöld, það var kalt úti en heiðskírt og stjörnubjart. Við höfðum allir mikla trú á okkar mönnum, sem voru þó í miklum vandræðum þar sem fyrri leikurinn fór illa. Það var ekkert annað í stöðunni en að mæta bláklæddur í stúkuna og því lánuðum við þér því treyju úr okkar safni. Þegar við gengum í átt að vellinum pikkaðir þú í mig og sagðir „Úlfar, sjáðu“ og í sömu andrá bentirðu til himna „þarna loga fjórar stjörnur mjög skæru ljósi, og við hliðina á þeim logar ein heldur veikt. Leikurinn mun enda 4-1 fyrir okkar mönnum“. Leikurinn var bráðfjörugur, og sögur segja að við höfum verið háværastir allra á vellinum. Allir nutum við kvöldstundarinnar ótrúlega vel. Og viti menn, sá gamli hafði rétt fyrir sér, lokatölur á brúnni voru 4-1 fyrir þeim bláklæddu.

Við bræður hlökkum ofboðslega til að fá að hitta þig aftur og rifja þessa mögnuðu kvöldstund upp. Og það verður auðvitað yfir kjúklingi og frönskum að þínum hætti.

Hvíldu í friði, elsku afi.

Úlfar og Eiríkur.

Elsku Friðrik afi, það er sárt að kveðja þig svona snemma, en á sama tíma þá er ég fegin því að þú sért búinn að finna frið. Þú varst einstakur afi og einstakur maður sem snertir mörg hjörtu. Það sem mér þótti alltaf svo frábært við þig var hversu mikinn áhuga þú hafðir á fólki, lifibrauði þess, áhugamálum og fjölskyldu. Þú hafðir þannig áhrif á fólk að eftir samtal við þig þá leið því samstundis eins og konungbornum einstaklingi. Þú varst alltaf með puttann á púlsinum og líklega varst þú besta og öflugasta fréttaveita landsins ásamt því að búa yfir betri gagnagrunni um einstaklinga heldur en sjálft Interpol. Ég fékk að njóta þessa gagnagrunns þar sem hver kærastinn á fætur öðrum var mældur út frá honum og ég sé þig fyrir mér rissa upp ættartré og að lista upp kosti og galla þessa misvel heppnuðu einstaklinga. En engar áhyggjur afi minn, ég lofa að sá næsti standist Friðriksprófið og að barnabarnabörnin þín fái að heyra allt um þann yndislega mann sem þú hafðir að geyma.

Mörg hjörtu voru snert og mörgum dimmum dögum var skipt út fyrir sólríka daga og þar eru mínir dagar sko engin undantekning. Við áttum fallegar stundir saman núna í vor þar sem ég heimsótti þig á spítalann eftir hvert einasta próf þar sem skeggrædd voru öll heimsins vandamál. Forsetaframbjóðendur voru settir í þinn einstaka gagnagrunn og að sjálfsögðu kaust þú framtíðina, bara fyrir mig. Við ræddum uppvaxtarár mín, hina leynilegu kjúklingauppskrift, draugasögur, fjölskylduna og margt fleira. Þarna varst þú mikið veikur en samt sem áður var fókusinn ekki á þér heldur á mér og í hvert skipti þá gekk ég út með sól í hjarta og tilbúin að takast á við næsta próf. Þú minntir mig á að nota húmorinn til að takast á við áskoranir lífsins og það gerðir þú svo sannarlega, elsku afi.

Allt frá því að ég var lítil þá varst þú stoltur af mér og þú varst sko ekki að fela það, ekki frekar en í vor þegar þú sagðir um það bil öllum starfsmönnum Landspítalans frá mér og mínum svokölluðu afrekum. Ég var alltaf prinsessan þín og afastelpa sem fékk að leika lausum hala þegar ég var í pössun hjá ykkur ömmu. Þú leyfðir mér að halda töfrasýningar, sýna þér misheppnuð handahlaup og segja þér tómatabrandara í tonnavís. Þú leyfðir mér að fá Cocoa Puffs í öll mál og ég fékk að sitja aftast í strætó. Þú fórst margoft með mig að gefa öndunum brauð og leyfðir mér að skoða Ráðhúsið og hlaupa þar um eins og mig lysti. En það sem mér þykir þó allra vænst um er það að þú hringdir eftir hvert einasta próf til þess að láta mig þylja upp einkunnirnar. Það hafðir þú gert í hartnær tuttugu og sex ár. Í gegnum grunnskóla, Verzlunarskólann og auðvitað lögfræðina. Ég veit að þú heldur áfram að vitja einkunna og ég skal sjá til þess að halda þér upplýstum, elsku afi minn. Þegar ég minnist þín ert þú brosandi með faðminn opinn að kalla mig afastelpu. Ég mun sakna þín meira en orð fá lýst og er svo innilega þakklát fyrir að hafa fengið þig sem afa, fengið að finna fyrir ást þinni. Ég hlakka til að sjá þig næst, en ég veit að þá munt þú taka brosandi á móti mér með faðminn opinn að kalla mig afastelpuna þína.

Ég elska þig afi minn.

Þitt elsta barnabarn,

Eyrún Viktorsdóttir