Í apríl tók Hrafnhildur Hafsteinsdóttir við framkvæmdastjórastarfinu hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri. Án vafa er áhugaverður vetur í vændum hjá þessu öfluga félagi. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Í apríl tók Hrafnhildur Hafsteinsdóttir við framkvæmdastjórastarfinu hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri. Án vafa er áhugaverður vetur í vændum hjá þessu öfluga félagi.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum

þessi misserin?

Í vor tók ég við sem framkvæmdastjóri FKA og verður það spennandi verkefni að leiða áfram þessi 1.000 manna félagasamtök inn í framtíðina sem hreyfiafl í íslensku athafnalífi. Ég legg mikið upp úr fjölbreyttum fundum þar sem efling tengslanets verður í fyrirrúmi.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Í vor sótti ég tveggja daga kúrs í Babson College í Boston um frumkvöðlafræði. Í yfir 20 ár hefur þessi skóli verið kosinn besti frumkvöðlaháskóli þar í landi og stóð algjörlega undir væntingum.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Góð bók geymir galdra. Hún skilur eitthvað eftir sig, breytir því hvernig þú hugsar og fær þig til að gleyma stað og stund. Svo margar bækur hafa haft áhrif á mig í gegnum lífsleiðina en ef ég ætti að nefna eina sem hefur haft hvað mest afgerandi áhrif á líf mitt til batnaðar þá er það AA bókin .

Hernig heldurðu við þekkingu þinni?

Hef ávallt lagt mikið upp úr því að bæta við mig þekkingu. Síðasta vetur útskrifaðist ég frá IESE Business School í Barcelona þar sem ég var í námi með vinnu. Í starfi mínu sæki ég mikið af fundum og ráðstefnum sem er virkilega gefandi.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég hugsa vel um mig – bæði á líkama og sál. Þegar kemur að hreyfingu er sund í uppáhaldi hvort sem það er að fara í laugar um helgar með stelpunum mínum eða sjósund í Nauthólsvík. Best af öllu er samt að trítla niður stíginn frá húsinu mínu út í kalt Meðalfellsvatnið og svo potturinn á eftir. Legg líka mikið upp úr því að borða hollan og góðan mat og bý alltaf til smoothie á morgnana fyrir alla fjölskylduna. Við borðum lítið af unnum vörum, kaupum beint af bónda og nýverið fengum við okkur landnámshænur hérna í sveitina sem gefa okkur egg og eru líka rosalega skemmtilegar.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Innblásturinn fæ ég alls staðar frá því þegar maður er þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með skemmtilegu og gefandi fólki sem maður getur lært af, þá er af nógu af taka. Í þeim hraða heimi sem við lifum í er mikilvægt að hlúa að okkur sjálfum og fjölskyldunni. Orkuna mína fæ ég frá stelpunum mínum og fjölskyldunni. Veit ekkert dásamlegra en að koma heim og fá þær hlaupandi á móti mér.