Harka Arnþór Ari Atlason í harðri baráttu um boltann við tvo Fylkismenn
Harka Arnþór Ari Atlason í harðri baráttu um boltann við tvo Fylkismenn — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Smáranum Þorsteinn F. Halldórsson tfh@mbl.is Fylkir sótti Breiðablik heim við kjöraðstæður á Kópavogsvellinum. Eftir markalausan fyrri hálfleik komu bæði mörk leiksins á fjögurra mínútna kafla og lokatölurnar urðu 1:1.

Í Smáranum

Þorsteinn F. Halldórsson

tfh@mbl.is

Fylkir sótti Breiðablik heim við kjöraðstæður á Kópavogsvellinum. Eftir markalausan fyrri hálfleik komu bæði mörk leiksins á fjögurra mínútna kafla og lokatölurnar urðu 1:1.

Það kom snemma í ljós að Breiðablik yrði meira með boltann í leiknum. Fyrstu 20 mínúturnar voru þó heldur tíðindalitlar og fátt var um færi. Blikar áttu nokkra góða kafla með flæðandi spilamennsku en voru í erfiðleikum með að skapa sér alvöru færi. Í hálfleik var farið að hvarfla að manni að þetta yrði einn af þessum markalausu jafnteflisleikjum.

Síðari hálfleikur var fjörugri. Damir Muminovic braut ísinn á 54. mínútu með skallamarki eftir fyrirgjöf en Fylkismenn voru ekki lengi að svara fyrir sig. Aðeins þremur mínútum síðar jöfnuðu þeir metin þegar Emil Ásmundsson var réttur maður á réttum stað og skoraði úr frákasti.

Eftir mark Fylkis tóku Blikar völdin á vellinum en glímdu við sama vandamál og í fyrri hálfleik; það kom lítið úr sóknunum þrátt fyrir að þeir væru mun meira með boltann. Raðir Fylkis voru þéttar og Sonni Nattestad var eins og klettur í vörninni í sínum fyrsta leik fyrir Fylki. Sóknarleikur Fylkismanna var heldur stífur en Albert Brynjar og Ragnar Bragi voru manna bestir fram á við.

Það var margt gott við leik Blika þó að sumt megi bæta. Oliver Sigurjónsson spilaði vel sem tengiliður milli varnar og miðju og átti nokkur hörkuskot sem hefðu dottið inn á betri degi. Þá voru kaflar þar sem fremstu menn spiluðu góðan einnar snertingar bolta en vantaði herslumuninn.

Með jafntefli mistekst Breiðabliki að kom sér fyrir í öðru sæti deildarinnar og situr nú í fjórða sætinu með 23 stig, fimm stigum á eftir toppliðinu FH sem vann sinn leik gegn ÍA. Fylkir er ennþá í fallsæti með 9 stig og þarf að brúa heilt fimm stiga bil til að koma sér úr fallsætinu. Ljósi punkturinn er að Fylkir fékk ekki mark á sig á síðustu 10 mínútunum eins og tíðkast hefur.