Grillað Fiskborgararnir renna í gegn og brosandi konurnar þurfa að hafa hröð handtök.
Grillað Fiskborgararnir renna í gegn og brosandi konurnar þurfa að hafa hröð handtök. — Ljósmynd/Helgi Steinar Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Strax nú í byrjun vikunnar voru fyrstu gestirnir á Fiskideginum mikla á Dalvík mættir í bæinn og búnir að tjalda.

Strax nú í byrjun vikunnar voru fyrstu gestirnir á Fiskideginum mikla á Dalvík mættir í bæinn og búnir að tjalda. Fólki á svæðinu hefur fjölgað jafnt og þétt yfir vikuna og telja forsvarsmenn hátíðarinnar þetta vita á góða aðsókn enda er dagskráin fjölbreytt þótt veðurspáin sé upp og ofan. Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í 16. sinn og frá upphafi hefur markmiðið verið að fólk komi saman, skemmti sér og borði fisk sem er ókeypis eins og annað á svæðinu.

Hápunktur í bæjarlífi

„Líðandi vika er það sem við Dalvíkingar köllum stundum fiskidagsaðventu. Hjá fólki sem býr hér í bænum er viðmiðið að ljúka mörgu – gera og græja – fyrir þessa hátíð sem á hverju ári er tvímælalaust hápunkturinn í bæjarlífinu,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla.

„Við byrjuðum með þessa samkomu árið 2001 og þá var uppleggið að hingað kæmi fólk til að vera saman, skemmta sér og borða fisk. Þótt hátíðin hafi orðið æ viðameiri eftir því sem árin líða hafa þessi grunnatriði samt alltaf haldist. Aðsóknin hefur líka aukist nánast ár frá ári. Þegar við byrjuðum komu hingað um 5.000 gestir en í fyrra voru þeir um 26.000 samkvæmt því sem umferðartalning gefur vísbendingu um. Mér finnst líka mega tiltaka að okkur hefur tekist að halda frá þeim sem hafa viljað koma hingað og selja ýmsan varning eða bjóða upp á skemmtun sem greitt er fyrir. Þetta á að vera skemmtun, en ekki markaðstorg.“

Vinátta og súpa í sérflokki

Síðdegis á morgun mynda Dalvíkingar og gestir þeirra svonefnda Vináttukeðju en það er um klukkustundar löng dagskrá. Það atriði hefst með formlegri opnun nýrrar viðbyggingar við leikskólann Krílakot. Það verður svo Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem flytur ræðu Vináttukeðjunnar. Auk þessa fá börnin í bænum, tónlistarmenn og fleiri tækifæri til að gera margt skemmtilegt. Að venju verður einnig risaknús til þess að leggja vináttu- og kærleikslínur fyrir helgina, eins og segir í tilkynningu.

Fiskisúpukvöldið svonefnda verður nú í tólfta sinn. Í tugum búa víða um bæinn býður heimafólk gestum og gangandi upp á fiskisúpu. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20.15 og verður hver og einn með sína uppskrift en í öllum tilvikum er fiskur uppistaðan í súpunni.

„Súpan er atriði í sérflokki. Þetta byrjaði allt þannig að einhvern tíma á fyrstu árunum var ég í heimahúsi hjá vinafólki mínu sem bauð upp á fiskisúpu. Svo gerðist hið óvænta þarna að skyndilega var bláókunnugt fólk sem ekkert okkar þekkti komið inn í stofu. Af þessu spratt sú hugmynd að smella inn í dagskrána að heimafólk byði, eftir því sem hugur þess stæði til, upp á súpu og það hefur aldeilis slegið í gegn,“ segir Júlíus.

Veislukostur, kragháfur og Solla stirða

Á sjálfum Fiskideginum mikla verður margt í boði. Stundvíslega klukkan 11 verða matarstöðvar opnaðar og allan daginn verður veislukostur á boðstólum. Matseðill fiskidagsins er frekar útlistaður hér á næstu síðu, en ljóst má vera að allir fá eitthvað sem hæfir lyst sinni og smekk.

Fiskidagurinn mikli er margt meira en bara veislan. Tónlistarmenn eru á sviði allan daginn og samkvæmt venju er fjölbreytt dagskrá fyrir börn, hvar verður sýning Brúðubílsins auk þess sem fram koma líflegar persónur eins og Íþróttaálfurinn, Halla hrekkjusvín, Siggi sæti og Solla stirða og BMX brós í boði Samherja, Svo mætti áfram telja. Þá verður Skarphéðinn Ásbjörnsson á laugardeginum með fiskasýningu á hafnarsvæðinu og þar verða sýndir ferskir fiskar lagðir ís. Margt forvitnilegt verður þarna að sjá svo sem uppstoppaður kragháfur sem er einn sjaldgæfasti fiskur í heimi. Um kvöldið verða svo stórtónleika á hafnarsvæðinu á Dalvík og nánar segir frá hér að aftan. sbs@mbl.is

Sjá nánar: fiskidagurinnmikli.is