Kennsla Vangaveltur í Flataskóla.
Kennsla Vangaveltur í Flataskóla. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 43.760 haustið 2015. Nemendum fjölgaði um 624 (1,4%) frá fyrra ári og hafa ekki verið fleiri síðan haustið 2007.

Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 43.760 haustið 2015. Nemendum fjölgaði um 624 (1,4%) frá fyrra ári og hafa ekki verið fleiri síðan haustið 2007. Haustið 2015 stunduðu auk þess 94 börn nám í 5 ára bekk, 20 færri en haustið 2014, að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar.

Alls störfuðu 168 grunnskólar á landinu skólaárið 2015-2016, sem er fjölgun um einn skóla frá fyrra ári. Grunnskólum hefur farið fækkandi undanfarin ár vegna sameiningar og hefur fækkað um 28 skóla frá árinu 1998. Einkaskólarnir voru 11 talsins með 1.072 nemendur haustið 2015 og eru nemendur í 5 ára bekk undanskildir. Nemendum í einkaskólum fækkaði um 62 frá fyrra skólaári, eða 5,5%. Í sérskólum, sem voru þrír talsins, stundaði 161 nemandi nám, lítið eitt fleiri en undanfarin ár.

Nemendum sem skráðir voru með erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári frá því að Hagstofan hóf að safna þeim upplýsingum.

Margir tala pólsku

Haustið 2015 höfðu 3.543 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 8,1%, sem er 0,6 prósentustigum meira en árið áður. Algengasta erlenda móðurmál nemenda var pólska (1.282 nemendur), þá filippseysk mál (336 nemendur) og enska (240 nemendur).